20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

83. mál, fræðsla barna

Björn Hallsson:

Eins og háttv. flm. tók fram, er þetta frv. fram komið sökum breytinga á fræðslulögunum frá síðasta þingi, þar sem sú skylda er lögð á presta að hafa eftirlit með barnafræðslu, ef fræðslunefndir eða skólanefndir fá undanþágu frá fræðslulögunum. Eiga þá prestar að hafa eftirlitið í samráði við fræðslu- eða skólanefndir. hver í sínu prestakalli. Háttv. flm. heldur því fram, að prestar sjeu ekki skyldir samkvæmt embætti sínu til þess að hafa þetta eftirlit á hendi: fræðslulögin frá 1907 hafi felt burt þessa skyldu þeirra. Jeg get ekki verið sammála háttv. flm. í þessu efni. Áður en fræðslulögin voru sett var það tvímælalaust skylda presta að búa börn undir fermingu, og á því hafa fræðslulögin enga breytingu gert, þrátt fyrir það, að kensla var aukin, svo að barnakennara þurfti jafnframt. Skylda prestanna að hafa umsjón með, að börnin væru nógu vel undir fermingu búin, er enn ekki fallin niður. Þá þykir hv. flm. ósanngjarnt og jafnvel ranglátt að skylda presta til þess að vera prófdómarar í prestaköllum sínum.

Var að heyra svo á honum, sem þetta yrði prestum mjög erfitt og kostnaðarsamt starf. En svo er alls ekki. Fyrst og fremst skal ávalt skipa sjerstaka prófdómendur í kaupstöðum, og fræðslumálastjórn er heimilt að skipa sjerstaka prófdómendur þar, sem fjölmenn eða víðlend prestaköll eru, og mun það verða gert, ef presturinn fer fram á það. Það verður því einkum í þeim hreppi, sem prestssetrið er, sem presturinn verður að vera prófdómandi, og tel jeg það ekki þungan bagga fyrir hann. Einnig er það tekið fram í 3. gr. laganna frá 1922, að prestum er ekki skylt að hafa eftirlit með bamafræðslunni frekar en embættisstörf þeirra leyfa.

Háttv. flm. kemst svo að orði í greinargerð sinni fyrir frv., að það sje allvarhugaverð leið að fara út á, að fela embættismönnum störf, sem ekki koma embættum þeirra við. Það getur vel verið, að svo sje, en í þessu tilfelli á það ekki við, og hefi jeg þegar svarað því. Þessi skylda er alls ekki frá árinu 1922, heldur gömul. Um þetta atriði hefir einnig verið talað hjer fyrr, bæði á síðasta þingi í sambandi við lögin, sem þá voru sett, og eins á þinginu 1921 í sambandi við frv., sem þá lá fyrir þinginu, um skiftingu Ísafjarðarprestakalls. Þá var þessi háttv. þm. (MJ) þeirrar skoðunar, að fræðslulögin næmu ekki burt skyldu prestanna til að hafa umsjón með fræðslu barna. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa upp lítinn kafla úr ræðu háttv. flm. (MJ) frá 1921. Þar segir hann svo:

„Jeg vona, að háttv. þm. kunni svo að meta skýrslur fagmanna, að þeir taki gilda skýrslu okkar prestanna um það, að ekki sje ljett störfum af herðum presta með fræðslulögunum. Okkur ætti að geta komið saman um það, að ljettirinn sje enginn. Kristindómsfræðslan hvílir jafnt á prestunum eftir sem áður. Skyldan er sú sama, hversu sem hún er rækt.“

Þetta er orðrjett lesið úr Alþingistíðindunum 1921. Maðurinn, sem þetta segir þá, er einn og hinn sami og sá, sem nú flytur frv. það, er nú er verið að ræða um. En skoðunin er ekki hin sama nú og þá, hvernig sem á því stendur. Ætli það sje ekki svo, að háttv. þm. (MJ) renni blóðið til skyldunnar og skoðun hans á þessu atriði fari eftir því, sem heppilegast er í hvert skifti til að ljetta störfum af prestum.

Jeg vil svo leggja til við háttv. deild, að þetta frv. verði felt strax við þessa umræðu, svo að hv. þingd. þurfi ekki að eyða tíma sínum í að ræða það. Hvort það fer í allshn. eða ekki, ef það fer á annað borð í nefnd, er mjer sama um. Jeg sje aðeins eftir tímanum, sem eytt verður til þess að ræða það.