20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

83. mál, fræðsla barna

Lárus Helgason:

Mjer kemur ekki á óvart, þótt þetta frv. kæmi fram. Í fyrra, þegar lögin um breytingu á fræðslulögunum voru til umræðu hjer í deildinni, mælti jeg með því, að prestum yrðu greidd laun fyrir að vera prófdómarar, svo sem öðrum prófdómendum, og greiddi jeg atkvæði á móti því, að frv. næði í þessu efni óbreytt fram að ganga. Jeg tel mjög heppilegt, margra hluta vegna, að prestar sjeu prófdómendur; trúi jeg þeim betur en flestum öðrum, sem kostur er á, til þess starfs, en jeg tel ósanngjarnt að ætlast til þess, að þeir fái enga þóknun fyrir ómak sitt og kostnað við ferðalög. Mun jeg því greiða frv. atkv. mitt.