17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

83. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Eins og sjá má í nefndarálitinu, hefir meiri hluti nefndarinnar fallist á þá breytingu á lögum nr. 36, 19. júní 1922, sem ákveða, að prestar skuli enga þóknun hafa fyrir barnapróf í prestaköllum sínum, að þeir skuli hjer eftir fá endurgreiddan ferðakostnaðinn við prófin úr ríkissjóði.

Það hefir verið tekið fram af háttv. 4. þm. Reykv. (MJ), og ekki andmælt af neinum, hversu mjög þessi lög eru ranglát í garð prestanna. Þegar aðrir prófdómarar eiga að fá kaup við prófin, eiga prestarnir að vinna kauplaust, og auk þess að borga sjálfir ferðakostnað, sem oft getur orðið allmikill. Er mjer t. d. kunnugt um, að ferðakostnaður við slíkar ferðir verður í mínu prestakalli 40–50 kr. En þó er hann víða eins mikill eða meiri. Því hefir verið slegið fram, að prestar gætu losnað við prófin í stórum og erfiðum prestaköllum. En því er svo varið, að skylduræknir prestar vilja heldur vera við þessi próf, til þess að fá heildaryfirlit yfir kunnáttu barnanna. En ef lögin frá í fyrra verða látin standa óbreytt, þá neyðast þeir til þess að reyna að losna við þessa kvöð, þar sem þeir eru sjálfir neyddir til að leggja beinlínis út fje í ferðakostnaðinn. Annars er jeg viss um, að slíkt ákvæði sem þetta hefði ekki verið sett í lög um nokkra aðra embættismenn en presta, en þeir eiga ekki upp á pallborðið hjá sumum háttv. þingmönnum, eftir því sem mjer heyrist.

Jeg skal svo geta þess, að minni hluti nefndarinnar, form., vill helst nema öll lögin úr gildi, en á það höfum við ekki getað fallist.

Jeg vona nú, að háttv. deild geti fallist á þessa brtt., þar sem hún miðar einungis að því að ráða bót á því misrjetti, sem prestarnir eru beittir fram yfir aðra prófdómendur, þar sem þeim er gert að skyldu að vera prófdómarar kauplaust, og borga svo ferðakostnað að auki.