17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

83. mál, fræðsla barna

Þorsteiim Jónsson:

Það er eitt höfuðeinkenni löggjafar okkar í seinni tíð að vera altaf að breyta lögum. Það liggur þó í augum uppi, hversu óheppilegt það er fyrir þjóðfjelagið að vera altaf að breyta löggjöf sinni.

Eins og kunnugt er, vildu allmargir þingmenn á síðasta þingi gerbreyta grundvelli fræðslumála vorra. Sú tilraun þeirra mishepnaðist. En samt tókst þeim að skemma barnafræðslulöggjöfina að nokkru; koma á meiri ruglingi og losi en áður var. Margir vilja setja meira af eftirlitsstörfum með barnafræðslunni yfir á prestana en gert hefir verið. Það var ein breyting, sem síðasta þing gerði á fræðslulögunum, að skylda presta til þess að vera prófdómarar við barnapróf, með þeim undantekningum, að stjórnin má skipa aðra prófdómendur við stærri barnaskóla og þar, sem prestar þjóna mjög stórum prestaköllum. Það er ekki nema eitt ár síðan þessi skipun var gerð, og nú kemur fram, að prestunum þykir þetta þung kvöð; þeir mótmæla henni og vilja koma fram breytingu. Jeg rifja þetta upp nú vegna þess, að á síðasta þingi var mikið talað um það af sumum að leggja mikið af eftirliti með barnafræðslunni á herðar prestanna. Menn geta nú sjeð af þessu, hvort ekki hefði þurft að borga prestunum nokkuð fyrir það starf. Jeg tel vafasamt, að þeir hefðu gert það fyrir minna en það kostar nú.

Það besta, sem hægt hefði verið að gera nú í þessum efnum, væri að fella úr gildi breytingarnar, sem samþyktar voru á síðasta þingi. Jeg skal ekki fara að rökræða það nú. Jeg var að hugsa um að bera fram frumvarp um breytingar í þá átt á þessu þingi. en sá það ekki fært, eftir þær undirtektir, sem málið fjekk í fyrra.

Nú er fram komin brtt. við frv. frá meiri hluta nefndarinnar, þess efnis, að prestum verði borgaður ferðakostnaður fyrir prófferðir. Jeg sje ekkert á móti því, að stjórnin endurgreiði þeim það, sem þeir þurfa að kosta til slíkra ferða. Og jeg lít svo á, að eftir lögunum frá síðasta þingi geti prestar gert landsstjórninni reikning fyrir peningum, sem þeir hafa lagt út fyrir að komast á prófstað. Annars eru flestir prestar þannig settir og í þeim kringumstæðum, að auðvelt er fyrir þá að ferðast á eigin hestum til prófstaðanna í sóknum sínum. Ef einhverjir prestar þættust ekki geta þetta sökum kostnarins, þá gætu þeir fengið stjórnina til að skipa aðra menn í sinn stað fyrir prófdómara. Jeg álít því enga þörf á þessari breytingu.

Þær breytingar, sem jeg bar fram við fræðslulögin á þinginu í fyrra. ásamt öðrum háttv. þm., 3. þm. Reykv. (JÞ), voru fremur gerðar til þess að sefa gerbyltingamenn í fræðslumálum en af því, að svo brýn nauðsyn væri til að breyta fræðslulögunum, og draga menn saman. En okkar tillögur voru afskræmdar svo í meðferð þingsins, að við flm. urðum sjálfir að snúast á móti þeim að lokum. Þeim var flaustrað af í háttv. Ed. einhvern síðasta daginn í tveimur umr. með litlu millibili. Mentmn. deildarinnar skrifaði nefndarálit á þá leið, að hún hefði ekki haft tíma til að athuga þessar breytingar á fræðslulögunum, sem frv. fjallaði um, en leggur þó til, að frv. verði samþykt. Þvílík meðferð á einu þýðingarmesta máli þjóðarinnar! Nefnd má ekki vera að að athuga það, og af þeirri ástæðu ræður hún deildinni til að samþykkja það! Deildin má ekki vera að hugsa um það eða rökræða, og því fer hún að ráðum mentamálanefndar. Jeg óttast, að eins geti farið nú um þetta frv., að það geti leitt til frekari skemda á fræðslulögunum. Jeg vil því ekki koma með neinar breytingar á þeim nú, og legg á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga. Jeg er mótfallinn því, að árlega sje verið að káka við breytingar á þessum lögum, sem flaustrað yrði af til stórskemda, eins og síðast. Svo merk lög sem fræðslulög einnar þjóðar eru, má ekki einlægt vera að hringla með, og það af þingi, sem búast má við, að í önnum sínum breyti þeim af handahófi í hugsunarleysi, samanber gerðir síðasta þings.