17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

83. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Mjer finst, að eftirlitið með barnafræðslunni sje tekið úr höndum prestanna með fræðslulögunum frá 1907, þar sem þeir eru þá heldur ekki álitnir gjaldgengir kennarar. Og jeg get búist við, að ef þetta frv. nær ekki samþykki þingsins og lögin verða óbreytt eins og þau nú eru, þá sje það sama og að útiloka prestana frá því að vera við barnaprófin. Jeg tala ekki svo mikið um þetta fyrir mína sókn; jeg verð bráðum búinn að ljúka mínu starfi og gæti sjálfs mín vegna bundið enda á það undir núverandi kjörum. En í næstu kirkjusókn við mína er mjer kunnugt, að presturinn þarf að ferðast fulla dagleið á landi og 4–5 tíma, ef hann fer sjóveg, til barnaprófs í fjarlægustu sókn sinni. Að leggja þessa kvöð á prestana, án nokkurrar þóknunar eða endurgreiðslu á ferðakostnaði, er mjög ósanngjarnt. Mörgum prestum er þess vegna sama sem bægt frá eftirliti með barnafræðslunni við prófin. Hvort prestar muni vilja losna við að vera prófdómarar, er mjer ekki fullkunnugt; en jeg álít, að flestir þeirra vilji það ekki. Jeg held, að þeir hafi einmitt mikinn áhuga á því að kynnast uppfræðingu barnanna, ef þeim væri gert það kleift. Jeg held því, að það sje ekki ósanngjörn krafa, sem hjer er farið fram á, að þeir fái dálitla uppbót fyrir útgjöld sín á þessum ferðum, en sje ekki ætlað að starfa þær vikur þóknunarlaust, þar sem aðrir, er vinna við prófin, fá fult kaup.

Jeg er alveg sammála háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) um, að úrskurður háttv. deildarmanna um þetta frv. þýði blátt áfram það, hvort þeir vilja hafa prestana við prófin eða ekki.

Með allri virðingu fyrir barnakennurunum, verð jeg þó að segja, að jeg álít kensluna ekki svo fullkomna, að vanþörf sje á því, að prestarnir kæmu þar nærri og gætu með eftirlitinu haft afskifti t. d. af kenslunni í kristnum fræðum.

Jeg ætla ekki að hefja kappræður um þetta mál persónulega; en mjer er kunnugt, að margir af stjettarbræðrum mínum eru mjög óánægðir yfir þessum útgjöldum vegna barnaprófanna.