17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

83. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Það er gott, að háttv 4. þm. Reykv. (MJ) hefir rekið sig svo tilfinnanlega á sjálfan sig í þessu máli, að hann hefir nú farið að lesa fræðslulögin. En getur hann nokkursstaðar bent mjer á ákvæði í fræðslulögunum um, að hin gamla konunglega tilskipun sje úr gildi numin? Þessi upplestur háttv. þm. úr fræðslulögunum hafði ekkert að þýða, því að tilskipunin stendur eftir sem áður óhögguð, nema hann geti þetta, en það ætla jeg, að verði eftir af honum. Það er því gagnslaust, þótt hann lesi fræðslulögin spjaldanna á milli; hann fær ekkert það út úr þeim, sem ljettir þessari skyldu af prestunum, þó það hafi leitt til vanrækslu af þeirra hendi á þessu starfi.

Hvað snertir það, sem háttv. 1. þm. N.M. (ÞorstJ) sagði um mig, að jeg væri áttaviltur í fræðslumálum og að mjer færist þar eins og villumanninum í þjóðsögunni, þá held jeg nú áreiðanlega, að þetta eigi miklu betur við hann sjálfan en mig, en hann er bara svo áttaviltur í þessu máli, að hann sjer það ekki.