17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

83. mál, fræðsla barna

Lárus Helgason:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að benda á það, að frá því að fræðslulögin gengu í gildi 1907 og þangað til lögunum var breytt í fyrra var prestum ávalt greidd þóknun fyrir prófdómarastörfin. Þessari skyldukvöð þeirra var skotið inn með lögunum í fyrra. Jeg var þá mjög á móti þessari breytingu og er enn þá. Furðar mig á því, ef háttv. deild verður svo ósanngjörn að neita prestum að fá ferðakostnað borgaðan við slík störf sem þessi. Það mætti næstum eins vel leggja samskonar skyldu á hjeraðslækna og fleiri embættismenn hvað ferðakostnaðinn snertir.

Jeg vænti þess, að brtt. á þskj. 274 verði samþykt.