02.05.1923
Efri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

83. mál, fræðsla barna

Jón Magnússon:

Jeg vil leyfa mjer að gera stuttlega grein fyrir því, hvers vegna jeg get ekki greitt frv. þessu atkvæði. Jeg geri ráð fyrir, að það sje fram komið af sparnaðarástæðum að láta prestana vera prófdómendur við barnaprófin, svo og til að gefa þeim tækifæri til þess að hafa hönd í bagga með barnafræðslunni. Jeg viðurkenni, að það er ósanngjarnt að heimta af prestum að vera prófdómarar þar, sem erfiðar og dýrar ferðir eru; en þá mun að vísu gert ráð fyrir því, að þeir geti afsakað sig og fengið aðra. En eigi að síður get jeg búist við, að það kunni að verða í einstökum tilfellum dýrara ríkissjóði að borga ferðakostnað presta en að borga prófdómendum lögmælta dagpeninga; nú mun greitt 6 kr. á dag. Það er af þessum ástæðum, að jeg get ekki greitt frv. þessu atkvæði mitt.