02.05.1923
Efri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

83. mál, fræðsla barna

Guðmundur Ólafsson:

Jeg get ekki fallist á það, sem háttv. 4. landsk. þm. (JM) sagði, að það yrði meiri kostnaður fyrir ríkissjóðinn en áður var, ef þetta frv. yrði samþykt. Jeg tel víst, að prestar geri engan ferðakostnaðarreikning, ef þeir eru búsettir í nánd við skólastaðinn. En áður voru 1 eða 2 menn prófdómendur fyrir alla sýsluna, og fór því töluvert f.je til þeirra. því þótt þeir hafi máske ekki haft beinan ferðakostnað, þá höfðu þeir að minsta kosti sama kaup fyrir dagana, sem þeir voru á ferðalagi, og prófdagana; var það fyrst 4 kr. á dag og síðar 6 kr. Það getur ekki komið til mála, að prestar í tiltölulega litlum prestaköllum fái nokkurn ferðakostnað, og er jeg því sannfærður um, að þetta er sparnaður frá því, sem áður var. Auk þess vænti jeg, að ferðakostnaðarreikningarnir verði athugaðir og eftirlit haft með því, að ferðakostnaðurinn sje ekki óhæfilega mikill. Háttv. 4. landsk. þm. er náttúrlega kunnari slíkum reikningum en jeg, en jeg vænti þess, að aðrir reikningar verði ekki teknir til greina en þeir, sem eru sanngjarnir.