11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

134. mál, verslun með ópíum o.fl.

Forsætisráðherra (SE):

Það er vikið að því í athugasemdunum við frv., af hvaða ástæðum stjórnin hefir lagt það fyrir þingið, 23. janúar 1912 var gerður í Haag af allmörgum ríkjum alþjóðasamningur, með þeim tilgangi að berjast gegn misbrúkun ópíums, morfins og kokains.

Var íslensku stjórninni 1912 send fyrirspurn um það, hvort Ísland vildi ganga í þetta samband, og svaraði stjórnarráðið því játandi. Samningurinn öðlaðist eigi gildi fyr en 1921, sakir heimsstyrjaldarinnar, og 21. október það ár fjelst Ísland á yfirlýsingu um það, að samningurinn skyldi ganga í gildi. Samningur þessi leggur þeim ríkjum, sem samningsaðiljar eru, ýmsar skyldur á herðar, til þess að aftra misbrúkun á ópíum, morfíni og kókaini, svo sem að hafa eftirlit með inn og útflutningi og verslun á efnum þessum. Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að jeg mun koma fram með brtt. við 1. gr. frv. Frv. þetta er sniðið eftir danska frv. um sama efni, en í 1. gr. 1. lið er bönnuð framleiðsla á ópíum, en meiningin er á unnu ópíum, og ætti því gr. að hljóða: „Framleiðsla á unnu ópíum er bönnuð“. o. s. frv.

Í 2. gr. er lyfsölum og öðrum þeim, sem dómsmálaráðuneytið hefir veitt sjerstakt leyfi, leyfð framleiðsla, úrvinsla, innflutningur og útflutningur á óunnu ópíum og því ópíum, sem notað er til læknislyfja, í samningnum er gerð grein fyrir því, hvað skilið er með unnu og óunnu ópíum. Unnið er búið til úr hráefni með blöndun og bannað hjer sem annarsstaðar. Óunnið ópíum er vökvi, kallaður mjólk, blandaður jurtahlutum og fluttur inn í kökum, en þegar jurtahlutarnir eru teknir úr kökunni, þá er eftir ópíum sem notað er til lækninga. —Niðurstaðan verður því þessi: Unnið ópíum er bannað að flytja inn eftir frv., en óunnið ópíum má flytja inn undir „kontrolli“, ef það er notað til lyfja. Jeg fer svo ekki fleiri orðum um frv. þetta, en legg til, að því verði vísað til háttv. allsherjarnefndar að lokinni umræðunni, og mun jeg þá leggja fyrir hana plögg þau, sem jeg hefi undir höndum.