27.04.1923
Efri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

134. mál, verslun með ópíum o.fl.

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Eins og kunnugt er, var málið tekið út af dagskrá síðast. Síðan hefir nefndin komið fram með brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 456, en þar sem þeim hefir ekki verið útbýtt hjer í deildinni fyr en alveg á þessu augnabliki, eru menn tæplega búnir að átta sig á því, sem þar er á ferðinni. Þó er ástæðulaust að fresta umr. þess vegna, því að þessar breytingar eru smávægilegar. Orðið „ópíum“ skal falla burt í 1. málsgrein 1. greinar, o. s. frv. Eins og menn sjá, eru þetta einföld atriði, en jeg skal geta þess fyrir hönd nefndarinnar, að hún taldi sjálfsagt að birta auglýsingu á sínum tíma í Stjórnartíðindunum, með skýringum þeim, sem við eiga, þ. e. hvað sje unnið og hvað óunnið ópíum o. s. frv.