09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg geri ráð fyrir því, að nefndinni verði ekki borið það á brýn, að hún hafi ekki athugað frv. það, sem hjer liggur fyrir, þar sem hún hefir gert 14 brtt. við 17 greinar. Þetta frv. er vitanlega fram komið vegna þess, að menn þykjast finna það, að sjúkdómar þeir, er það ræðir um, fari í vöxt á landi hjer. Þó verður að játa það, að skýrslur þær, sem bygt er á, eru ófullkomnar. Í athugasemdunum við frv. eru tilfærðar tölur um 2 þessara sjúkdóma, er benda í þá átt, að þeir hafi farið í vöxt hjer á landi síðan 1906. Við tölurnar á undan er ekki hægt að miða, því að þar er hlaupið yfir 5 ár. Þó er ekki hægt að segja, að þetta sje algild sönnun þess, að vöxturinn sje verulegur frá 1906, því að það er eigi fullkomlega hægt að byggja á þessum tölum; þær geta tvöfaldast og margfaldast. Kemur það af því, að það er engin sjerstök bókfærsla um þessa sjúkdóma, og þeir eru langvinnir og sumir sjúklinganna leita til fleiri en eins læknis. Því er ástæða til að vona, að tölurnar sjeu hjer of háar. En hvað um það, það er þó ástæða til að gera alt, sem hægt er, til að draga úr útbreiðslu þeirra. En jeg skal játa það, að jeg er ekki eins bjartsýnn og stjórnin, er hún í aths. sínum við frv. gerir ráð fyrir því, að hægt sje að byggja þessum sjúkdómum algerlega út úr landinu. Jeg hefi enga trú á því. Jeg býst við því, að samgöngur aukist hjer að miklum mun á næstu árum, og því miður standa sjúkdómarnir að nokkru leyti í sambandi við auknar samgöngur alstaðar í heiminum.

Í aths. er áætlun um, hvað kosta muni að framkvæma lögin eftir frv. því, sem hjer liggur fyrir. Jeg held nú, að ef stofnað verður til þess kostnaðar, sem þar er ráðgerður, þá verði fjárframlagið meira en búist er við í aths. Því hefir nefndin ekki treyst sjer til að fara eins langt og þetta frv. Hún vill veita styrk af opinberu fje til læknishjálpar og lyfja, en hefir ekki getað fallist á að veita sjúklingunum ókeypis sjúkrahúsvist og ekki heldur umbúðir. Það er enginn vafi á því, að hjer verður mikill munur á um fjárframlög ríkissjóðs, ef fallist verður á tillögur nefndarinnar. Þá fer ekki hjá því, að þetta tillag verður lítt tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. við einstakar greinar. Jeg skal þá fyrst geta þess, að í 1. málsgrein 1. greinar er prentvilla, : (kólon) á eftir orðinu „syfilis“ í stað kommu, en þessu verður væntanlega breytt af skrifstofunni. Við seinni málsgr. 1. greinar er þýðingarmikil breyting. Þar stendur svo:

„Smitandi eru sjúkdómar þessir taldir meðan þess finnast merki, að smitunarhætta stafi af sjúklingnum.“ En þessi skilgreining í frv. á sjúkdómnum er ekki nægileg. Því hefir nefndin bætt þessu við:

„eða ætla má, að þau komi síðar í ljós“.

Sjúklingurinn getur haft sjúkdóminn á smitunarstigi án þess, að þess finnist merki. Því var hin fyrri skilgreining ófullnægjandi. Sænsku lögin, sem frv. þetta er sniðið eftir, hafa líka þessa viðbót, sem nefndin hefir sett inn.

Um 2. brtt. er lítið að segja. Það er máls-, en ekki efnisbreyting. Þá er brtt. við 3. gr. Fyrri breytingin er í því fólgin, að orðinu „spjaldskrá“ er skotið framar í setninguna, með því að betur þótti á því fara, málsins vegna. Síðari breytingin er efnisbreyting. Í 4. gr. frv., 4. málsgrein, stendur:

„Börn, sem standa undir lækniseftirliti, skal þó skrá með nafni og heimilisfangi.“

Þetta lítur nefndin á sem ósamræmi og fellir það burtu. Lögin gera ráð fyrir leynd, og hjer er undantekning óþörf. Ef skráð er barn með erfðasyfilis, nafn þess og heimilistang, þá er þar með sagt til um þann, er sjúkdómurinn stafar frá. Nú eru eigi nema sárfáir menn með þessum sjúkdómi, og því eiga ekki tvær reglur við, önnur fyrir börn og hin fyrir fullorðna.

Þá er 4. brtt., við 5. gr. 2. málsgr. Hún er um kostnaðaratriðið, sem jeg hefi áður talað um. Þá er 5. brtt. við 6. gr. í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að krefja megi af sjúklingum vottorðs um það, að þeir hafi ekki efni á að greiða læknishjálpina. Nefndin segir, að það skuli gera, og því bætt við, að þessar yfirlýsingar eigi að senda með reikningum læknanna. Þessi ráðstöfun miðar enn til þess að draga sem mest úr tilkostnaði ríkissjóðs.

Þá kem jeg að 6. brtt. nefndarinnar, sem er við 8. gr.

Tillögur stjfrv. fara í þá átt, að læknir megi ekki leyna sjúkling því, hvort hann er sjúkur eða ekki, nema undir sjerstökum kringumstæðum, og þá aðeins um tiltölulega stuttan tíma.

En hjer er alveg brotið í bága við grundvallarreglur lækna, og myndi það í mörgum tilfellum geta valdið meiri óþægindum fyrir sjúklinginn heldur en það, sem hann gæti haft upp úr því, að honum væri sagt það strax.

Um undanþáguna frá þessu, sem getið er í 2. málsgr. 8. gr. frv., er það að segja, að hún gæti tæplega annað talist en pappírslög, því að læknar gætu ekki í mörgum tilfellum greint í símskeyti, hvað að sjúklingi gengi. Yrði hann því að skrifa heilbrigðisstjórninni. Tæki þetta því miklu meira en mánaðar tíma að komast í kring. Tel jeg því rjettast, að læknum sje alveg í sjálfsvald sett, hve nær þeir segi sjúklingi frá sjúkdóminum og hve nær ekki.

Annars væri líklega rjett að skjóta hjer

1. málsgr. fram fyrir 2. málsgrein, en jeg veit ekki, hvort háttv. meðnefndarmenn mínir eru nú tilbúnir að taka afstöðu til þess.

Þá kem jeg að 7. brtt., sem er við 10. gr.

Í 10. gr. er gert ráð fyrir tilfelli, sem jeg myndi kveinka mjer við að gera og jeg tel nær því óframkvæmanlegt. Þar segir:

„Ef sá býr innan hjeraðs, sem talið er, að valdið hafi smitun, skal læknir senda honum tafarlaust skrifleg tilmæli að koma til sín til rannsóknar, en nefna þó ekki nafn þess, er til hans sagði. Vanræki hann það, skal senda honum, áður en vika er liðin, skriflega áminningu og taka fram, hverju varði, ef óhlýðnast er. Beri hún engan árangur, skal tilkynna það lögreglustjóra, og sjer hann þá um, að hinn grunaði sje lagður á sjúkrahús eða á annan hátt skoðaður af lækni“.

Vilji sjúklingur nú ekki verða við tilmælum læknis, getur læknirinn eftir þessu gert sjúklinginn óskaðlegan með aðstoð lögregluvaldsins. En jeg tel rjett að fara varlega í þessum efnum, því að fyrir gæti það komið, að óhlutvandir menn gætu á þennan hátt fengið lækna og lögreglustjóra til þess að gera mörgu fólki ýmisleg óþægindi, er þeir sjálfir geta látist hvergi við koma.

Nefndin treysti sjer þó ekki til þess að fella þetta ákvæði alveg í burtu, en vildi mýkja það sem hægt væri, og lætur því ákvæði greinarinnar standa að nokkru leyti.

Áttunda brtt. nefndarinnar er að fella 12. gr. alveg niður.

Jeg skal geta þess, að mjer þótti undarlegt, að þessi grein skyldi vera í frv., þar sem verið er að gera ráð fyrir stórfeldri útbreiðslu sjúkdómsins eftir að lög þessi eiga að vera gengin í gildi. Og þar er svo kveðið á, að hægt sje að banna fólki að giftast, nema það sanni með læknisvottorði, að það hafi ekki smitandi kynsjúkdóm. En því er nú svo varið, að auðvelt er að sanna, að einn maður hafi kynsjúkdóm, en aftur mjög örðugt að sanna, að maður hafi hann ekki.

Annars vil jeg biðja háttv. deildarmenn að athuga það, hvernig þeim myndi falla það, ef þeir þyrftu að láta dætur sínar ganga undir kynsjúkdómarannsókn af þeirri einföldu ástæðu, að til stæði að þær gengju í hjónaband. Jeg ímynda mjer, að flestum þætti það óviðkunnanlegt. Jeg tel því greinina mjög óhyggilega, enda mjög vel hægt að fara kringum hana á margan hátt.

Við 14. gr. er það að athuga, að hún virðist óheppilega orðuð, því að þar stendur, að sjúklingur með smitandi syfilis megi ekki fóstra heilbrigð börn. Þar er annað meint, að sjúklingurinn megi ekki fóstra önnur börn en þau, sem veik eru af syfilis, að sjálfsögðu ekki börn, sem eru sjúk af öðrum sjúkdómum. Þá virðist ekki rjett, að sjúklingur með smitandi kynsjúkdóm (syfilis) megi starfa að matsölu, matreiðslu eða veitingum með læknisleyfi. Því að þeir, sem kynnu að smitast af þeim, eru engu bættari, þó að þeir smitist „með læknisleyfi“, og því vill nefndin fella burtu heimildina til þessarar undantekningar.

Þá er 12. brtt., við 16. gr., um að fella burtu orðin „og tæki“. Þessi tæki, sem hjer er talað um, geta verið mjög yfirgripsmikil. Og ætti að banna að selja þau, mætti ekki selja svo mikið sem venjulega skolkönnu, að jeg ekki tali um allskonar sprautur, sem notaðar eru við fleira en að lækna með þeim lekanda. Það er því alveg óþarft að banna sölu á þessum tækjum, af því líka, að nægilegt er að banna sölu á lyfjum, sem notuð eru við lækningar á kynsjúkdómum. Hefði því sá, er vildi káka við að lækna sig sjálfur, engin not af tækjunum, þegar hann getur ekki fengið nein lyf.

Þá eru brtt. nefndarinnar búnar, nema þær, er snerta viðurlögin. Nefndin ber einungis fram viðurlög að því er snertir embættismenn og lækna, sem ekki eru í embættum, en þagnarskylda hvílir á, en hefir ekki komið fram með viðurlög að því er snertir sjúklingana sjálfa, af þeim ástæðum, að nefndinni fanst það eiga heima í hegningarlögunum, því að í þeim er tekin fram hegning að því er snertir syfilis, en ekki um aðra sjúkdóma. Er því nauðsynlegt að breyta þessu, en nefndin taldi það ekki hlutverk sitt að bera fram breytingu á hegningarlögunum, en leggur hins vegar til, að stjórnin taki þetta til athugunar.

Hefi jeg svo eigi meira um þetta að segja, en vona, ef lögin verða samþykt með þessum breytingum, sem nefndin leggur til, að þá verði þau að gagni fyrir þjóðfjelagið og málefnið, þótt jeg hins vegar teldi það enga ógæfu, að þetta mál hvíldi sig eitt þingið enn.