09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Forsætisráðherra (SE):

Þegar jeg sleppi þessum síðustu orðum háttv. frsm. (SHK), þá hefi jeg ástæðu til að þakka háttv. nefnd fyrir meðferð hennar á frv., því að hún hefir þó haldið sjer við kjarna þess.

Brtt. nefndarinnar tel jeg sumar til bóta, sumar til skemda og sumar tel jeg litlu máli skifta.

Um hinar almennu athugasemdir háttv. þm. (SHK) get jeg verið stuttorður. Þó er sjálfsagt rjett, að skýrslurnar um útbreiðslu sjúkdómsins hjer eru ekki nákvæmar, því að tilhneigingin er auðvitað mikil til þess að leyna sjúkdóminum. En nákvæmari skýrslur en þessar, sem hjer er um að ræða, verða ekki fengnar.

Sjálfsagt er það rjett, að ekki sje hægt að útrýma sjúkdóminum alveg, en um það getur hins vegar ekki verið vafi, að það má stöðva útbreiðslu hans að miklum mun.

Aðalmismunurinn á skoðunum stjórnarinnar og háttv. nefndar um þetta mál er fólginn í því, að nefndin vill ekki, að legukostnaður sjúklinga, sem ekki hafa efni á að greiða hann sjálfir, sje ókeypis heldur aðeins lyf og læknishjálp. Þetta er að vísu til sparnaðar, en dregur auðvitað um leið úr vörnunum gegn sjúkdómunum. Jeg fyrir mitt leyti verð því að vera með tillögum Læknafjelagsins, þó aldrei nema þær auki útgjöld, í þeirri von, að takast mætti að sporna á móti vágesti þessum.

Þá skal jeg víkja að brtt., en þar stend jeg töluvert ver að vígi en háttv. frsm. (SHK) með sína læknisþekkingu; en jeg hefi borið mig saman við Guðm. prófessor Hannesson um sum atriðin.

Fyrsta brtt. er við 2. málsgr. 1. gr. Þar stendur:

„Smitandi eru sjúkdómar þessir taldir meðan þess finnast merki, að smitunarhætta stafi af sjúklingnum.“

En þar bætir nefndin við:

„eða ætla má, að þau komi síðar í ljós.“

Þessi viðbætir er til bóta.

Önnur brtt. er orðabreyting, og því ekki ástæða til að fjölyrða um hana.

Þriðja brtt., við 3. gr., er efnisbreyting, því í frv. stendur, að öll börn, sem sjeu undir eftirliti læknis, skuli skrá með fullu nafni og heimilisfangi. Get jeg vel fallist á það, sem háttv. frsm, sagði, að sama leynd með þau væri nauðsynleg eins og aðra sjúklinga.

Þá kem jeg að 4. brtt. Hún er við 5. gr. frv. Jeg skal taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti hefði viljað, að ákvæði stjfrv. hefði haldist, því að með því hefði baráttan móti sjúkdómunum haldist kröftugri. Þó er eitt atriði, sem jeg get alls ekki fallist á, og það er, að borgun til sjerfræðinga skuli fara eftir gjaldskrá hjeraðslækna. Ef sjerfræðingarnir fá ekki meiri borgun en eftir gjaldskrá hjeraðslækna, má búast við, að þeir vildu alls ekkert við þessar lækningar fást. Gæti því svo farið, að hið fátækara fólk færi alveg á mis við læknishjálp þeirra, sem hinir efnaðri vitanlega hagnýttu sjer. Jeg vildi leyfa mjer að beina því að hv. nefnd og hv. frsm. (SHK), hvort hann sje því eigi samþykkur, að ákvæðið sje látið standa óbreytt eins og það er í stjfrv., þó að það vitanlega hafi meiri kostnað í för með sjer.

Þá vildi jeg leyfa mjer að vekja athygli á 5. brtt. nefndarinnar, við 6. gr. frv., þar sem yfirlýsingar sjúklinganna um það, að þeir hafi eigi efni á að greiða sjálfir læknishjálpina, eiga eftir brtt. að sendast með reikningi læknanna. Álít jeg mjög hætt við, að leyndin hyrfi úr sögunni, ef sú krafa yrði gerð.

Þá kem jeg að 6. brtt. nefndarinnar. við 8. gr. stjfrv. Í frv. er gert ráð fyrir því, að læknar sjeu eigi, undir sjerstökum kringumstæðum, skyldir til þess strax að skýra sjúklingnum frá því, hvað að honum gangi, en þó eigi síðar en eftir mánuð. Það, sem fyrir stjórninni vakti með ákvæði þessu, er það, að hún áleit það einn lið til þess að verjast útbreiðslu sjúkdóma þessara, að sjúklingarnir fengju sem fyrst að vita, hvað að þeim gengi, því að ef samviskusamur maður á í hlut, þá mun hann, að fenginni vitneskju, gæta allrar varúðar, en það getur hann auðvitað ekki, ef honum er ókunnugt um sjúkdóminn.

Jeg þóttist skilja það á hv. frsm. (SHK), að hann vildi eigi láta ákveða það, hvenær segja ætti sjúklingnum frá sjúkdómnum, og skil jeg það vel, að hann, sem er læknir sjálfur, vilji, að læknar hafi óbundnar hendur í því efni. En eins og jeg tók fram, var þetta sett í frv. aðeins sem ein ráðstöfun af mörgum til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómanna. Jeg fyrir mitt leyti mun eigi leggja svo mikla áherslu á þetta atriði, því að jeg er sannfærður um, að læknum er algerlega trúandi í þessum sökum, og af þeim ástæðum sje óþarfi að hafa ákvæðið svo strangt.

Þá kem jeg að 7. brtt., við 10. gr. frv. Í stjfrv. stendur, að læknir skuli senda þeim, sem talið er, að valdið hafi smitun, skrifleg tilmæli um að koma til rannsóknar, en nefna þó ekki nafn þess, er til hans sagði. Jeg legg enga sjerstaka áherslu á það, að nafn þess, er frá sagði, sje eigi nefnt, enda býst jeg við, að hjeraðslæknir muni í flestum tilfellum hliðra sjer við að nefna það. Jeg get því alveg fallist á, að ákvæðið falli burt.

Þá er 8. brtt., við 12. gr., um að greinin falli niður. Jeg er því samþykkur, eftir aths. hv. frsm.

Þá er það 10. brtt., við 14. gr. stjfrv. Í frv. stendur, að sjúklingar með smitandi syfilis megi ekki fóstra heilbrigð börn. Jeg skal játa, að þetta er illa orðað, því að ef ætti með ákvæðinu að leyfa þeim að fóstra veik börn, þá væri það vissulega vond löggjöf, eins og háttv. frsm. (SHK) tók fram, enda vakti hið sama fyrir stjórninni sem honum. Hv. frsm. fann að því, að sjúklingur með smitandi syfilis mætti eigi fóstra heilbrigð börn og eigi starfa að matsölu, matreiðslu eða veitingum, nema með sjerstöku leyfi læknis. Fanst honum undarlegt að veita slíkt leyfi. En stjórninni fanst hart, ef tekinn væri „radikal kur“, að eigi væri veitt undantekning, þó eigi væru liðin 2 ár, ef læknir áliti, að „kúrinn“ hefði komið að notum og sjúklingurinn væri undir umsjón.

Jeg get einnig fallist á, að orðið „tæki“ í 16. gr. stjfrv. falli burt, en þá verur auðvitað að fella í burtu orðið „og“, en það er aðeins breyting, sem forseti getur gert.

Jeg vil svo að endingu þakka háttv. nefnd fyrir það, að hún hefir bætt við frv. sektarákvæðinu. Stjórnin var búin að gera till. um sektir, eins og hv. nefnd mun hafa sjeð, því jeg sje, að hún hefir tekið till. upp með litlum breytingum, en með einhverjum óskiljanlegum hætti hafa till. fallið úr við prentun frv. Jeg hefi fyrir mjer till., og eru þær nálega þær sömu og till. nefndarinnar, nema að sektin er kr. 500 hjá nefndinni, en kr. 1000 í stjfrv. Eftir till. stjórnarinnar var eigi ákveðið um brot gegn 14. gr. frv., en nefndin hefir ákveðið 200 kr. sekt. Í raun og veru þyrfti breytingu á hegningarlögunum, 182. gr. Hefir stjórnin athugað þetta og jafnvel orðað breytingu á greininni, en í raun og veru þyrfti að endurskoða hegningarlögin öll frá rótum, og því kynokaði stjórnin sjer við að koma með þá breytingu. Í hegningarlögunum er aðeins til ákvæði um syfilis, en þyrfti einnig að vera um hina sjúkdómana.

Jeg vil svo enda mál mitt eins og jeg hóf það, með því að þakka hv. nefnd fyrir það, að hún hefir í aðalatriðunum verið sammála stjórninni og sjeð nauðsynina á því að gera ráðstafanir til að stemma stigu fyrir sjúkdómum þessum, eftir því sem hægt er. En það, sem á milli ber, er aðeins það, hvort ganga eigi svo langt, sem stjórnin vill, um greiðslu sjúkrakostnaðarins eða ekki. En úr því sker þessi hv. deild á sínum tíma. Jeg kysi helst, að greiddur yrði spítalakostnaðurinn, en þó að það yrði eigi, þá tel jeg frv. þó til stórra bóta.