12.03.1923
Efri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Jónas Jónsson:

Jeg tók fram við aðra umr. þessa máls, að jeg vildi koma fram með vatill. við frv. Hún hefir komið svo seint, að það hefir orðið að veita afbrigði frá reglunni, til þess að hún kæmi til mála.

Ástæðan til þess, að jeg kom fram með till., er sú, að í meðferð málsins hjá nefndinni er gert ráð fyrir að fara með þessa sjúkdóma öðruvísi en önnur veikindi. Hvaða ástæða er til þess að fara í launkofa með þessa sjúkdóma fremur en aðra, þegar þeir einmitt eru hinir varhugaverðustu, vegna þess hvað þeir eru smitandi. Það er bersýnilega rangt, og þess vegna greiddi jeg atkvæði á móti frv. við 2. umr.

Það er líka fásinna að ætla sjer að útrýma sjúkdómum eins og sárasótt og lekanda. Til þess yrði fyrst og fremst að gerbreyta hugsunarhætti fólks. Það, sem hægt er að ætlast til, er að sjúkdómum þessum sje haldið í skefjum, ekki gefið svigrúm til að breiðast út. Það, sem getur komið til greina, er að kosta lækningar að einhverju leyti af landsins fje og gera alt, sem unt er, til að fræða fólk og vara við þessu böli.

Jeg skil vel, hvað mjer og háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) ber á milli. Við lítum á þetta mál frá mismunandi hliðum. Jeg álít ekki einungis nauðsynlegt að lækna sjúklingana, heldur líka að varna því, að þeir smiti aðra. En öll leynd gerir einmitt það atriði svo hættulegt. Margir læknar gera ekkert til að halda í skefjum tóbaksnautn og fleiri hættulegum óvenjum; þeim nægir að lækna þau mein, sem orðin eru. Það er tvent, sem um er að gera:

1) að fyrirbyggja útbreiðslu sjúkdómanna með fræðslu og þekkingu.

2) að lækna.

Hvers vegna á að hafa þessa leynd í frammi með kynsjúkdóma? Jeg skil það ekki. Jeg átti tal við landlækninn um þetta mál, og sagði hann, að svona hefðu menn litið á fyr um aðra sjúkdóma. t. d. tæringu, en svo væri ekki lengur.

Jeg geri ráð fyrir, að styrkur yrði veittur til að gefa út árlega pjesa um þessi efni, til að berjast á móti útbreiðslu kynsjúkdóma og til að halda mönnum vakandi. Því að þótt einu sinni hafi verið skrifað um þetta, þá er það ekki nóg. Og hvað margir lesa bæklinga, sem komnir eru alveg út úr umferð ? Nei, það, sem nær til fólks, eru ekki slík rit, heldur kvikmyndasýningar, dagblöðin og nýjar bækur. Jeg legg því áherslu á, að menn sjeu látnir fylgjast vel með og að alt gerist í fullu ljósi almennrar vitundar.