12.03.1923
Efri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. síðasti ræðumaður talaði um stefnumun milli mín og hans. Jeg get alls ekki sjeð, að þessi brtt. marki neinn stefnumun. Háttv. þm. vill verja fje til þess, sem stjórnin vill láta gera á annan eðlilegri hátt. Það, sem jeg hafði á móti þessum 1500 kr., var ekki vegna stefnumismunar, heldur vegna þess, að jeg áleit það óþarfan kostnað. Það er hægt að ná sama tilgangi með öðru hægara móti. Það er ekki rjett, að stjórnin vilji ekki auka þekkingu manna á þessu sviði. Það er heil grein í frv. um það. Jeg held aðeins fram, að það sje óþarfi að veita verðlaun fyrir kynsjúkdómaskrif. En frv. mundi geyma í sjer alveg sömu princip og áður, þótt till. yrði samþykt. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) vildi fara að slá á hina og aðra strengi, einnig þá, að sjúkrahúskostnað eigi að greiða fyrir efnaða menn, en það er tekið fram í 6. gr. stjórnarfrv., að hann skuli aðeins veittur þeim, sem ekki hafa efni á að kosta sig sjálfir. Það gefur líka að skilja, að þeim, sem hafa efni á því. dettur ekki í hug að snúa sjer til hins opinbera til að fá styrk.

Jeg slæ því föstu, að eins og frv. er nú er gert ráð fyrir, að leynd sje á því, hverjir ganga með sjúkdóminn, en fræðsla um það, hvernig sjúkdómnum sje háttað.

Jeg verð að segja, að þótt háttv. 5. landsk. þm. hafi talað við Lækna, sem voru honum samdóma, þá er frv. í upphafi runnið frá Læknafjelaginu, og er því rjett að álíta, að meiri hluti læknastjettar landsins sje á sömu skoðun og stjórnin um þetta mál. Læknafjelagið hefir átt frumkvæði að öllum meginatriðum frv.