27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Jón Þorláksson):

Háttv. Ed. hefir gert eina breytingu á þessu frv. eftir að það fór hjeðan, þannig, að feld hafa verið niður niðurlagsorð 1. liðs 10. greinar, þau, að sjúklingar væru skyldir til að láta lækni í tje skýrslu um það, hvar þeir hefðu tekið sjúkdóminn. Allsherjarnefnd hefir nú aftur borið sig saman um þetta efni, og kom okkur saman um að gera þá breytingu að setja þetta aftur inn í frv. Hún sjer ekki, að ástæða hafi verið til að fella þetta burtu, og formaður nefndarinnar í Ed., sem hafði þetta mál þar til meðferðar, sagði í viðtali við mig, að þetta hefði verið gert af því, að engin refsiákvæði væru í frv., ef út af þessu væri brugðið. Þetta er ekki allskostar rjett: sektarákvæðum 17. gr. var breytt þannig, að þau næðu til afbrota við 10. gr. En nú er ekkert eftir í 10. gr., sem 17. gr. á við, ef þetta verður felt burtu, og er því komið fram ósamræmi í frv. Hins vegar telur nefndin rjett að hafa þessa skyldu í lögunum. Telur nefndin það ekki viðurkvæmilegt að leggja þá kvöð á lækna að grenslast eftir því, hvar sjúklingurinn hafi smitast, en heimila sjúklingnum að verjast allra upplýsinga. Það er svo mikilsvert að fá sem nákvæmastar upplýsingar um útbreiðslu veikinnar, að það má á engan hátt fella úr lögunum þessi ákvæði, því það mundi gera alla eftirgrenslan miklu erfiðari.