08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefði ekki staðið upp, ef deilan hefði aðeins staðið um brtt. Mjer er í raun og veru alveg sama, hvort hún verður samþykt eða ekki. En það var út af ummælum hv. 2. þm. S.-M. (SHK), að ef till. Ed. yrði ekki samþykt, þá gæti það orðið frv. að falli. Jeg vil leyfa mjer í þessu sambandi að minna á það, að þetta frumvarp er runnið frá Læknafjelagi Reykjavíkur. Það tók málið á dagskrá hjá sjer, setti nefnd í það og hún bjó til frv. þetta, sem stjórnin lagði fyrir Ed. Ástæðan til þess að Læknafjelagið fór að taka hjer í taumana, var sú, að það áleit, að sjúkdómar þessir væru hjer svo lítið útbreiddir enn, að takast mætti að hindra þá. Jeg vona, að það sjáist, hvílíkir vágestir þessir sjúkdómar eru, og býst við, að hið háa Alþingi taki vel í kröfu lækna um þetta efni. Þótt í frv. sjeu kannske einhver atriði, sem hv. þm. geta ekki felt sig við, þá má ekki láta slíkt verða góðu máli að falli. Ef einhver ákvæði skyldu reynast miður vel, þá má altaf breyta því síðar. Mestu máli skiftir að frv. nái fram að ganga, og vænti jeg þess, að það verði afgreitt sem lög frá þessu þingi.