05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er eigi stórt að vöxtum, eigi nema 4–5 línur, en það er því miður eigi eins meinlaust að efni til. Menn munu kannast við þau ákvæði í lögunum nr. 43. 1921, þar sem svo er kveðið á, að ríkissjóður skuli greiða 3/5 sjúkrakostnaðarins. en hlutaðeigandi sýslufjelag 2/5 hluta. Nú er komin reynsla fyrir þessu ákvæði, og hún er sú, að það er öldungis óbærilegt fyrir sumar sýslur að rísa undir þessum kostnaði. Er eigi vafi á því, að síðan lögin gengu í gildi hafa menn mjög alment, sem eðlilegt er, farið að nota sjer þau hlunnindi, sem lögin heimila. Það, sem hjer er aðalatriðið, er það, að kostnaðurinn er svo mikill, að t. d. í einu sýslufjelagi, sem jeg veit til, hefir hann numið sem svarar kr. 3.20 á hvert mannsbarn í sýslunni. Og þau sýslufjelög munu fleiri, sem hafa svipaða sögu að segja. Vitanlega er kostnaðurinn minni í öðrum sýslufjelögum, en þar fyrir er ekki ástæða til að amast við þessu frv. fyrir neitt þeirra. Því enginn getur sagt um það, hversu mikið sjúkdómurinn hefir um sig eftir stuttan tíma eða hvar hann verður mestur. Með frv. þessu er farið fram á það, að ríkissjóður greiði það að kostnaði sýslufjelaganna, sem er fram yfir 2 kr. á mann. Vitanlega er eigi hægt að segja, hve miklu þetta muni nema, en það er ástæða til að ætla, að með þessum ráðstöfunum öllum muni heldur draga úr sjúkdóminum. Nefndin leggur því einhuga til, að frv. verði samþykt, og leyfi jeg mjer að mæla eindregið með því.