19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Háttv. deild og hæstv. stjórn kann, ef til vill, að þykja undarlega við bregða, að fjárveitinganefnd skildi nú hafa skrifað talsvert langt nál. um frv., sem hún gerir litlar breytingar við, og um atriði, sem hún hreyfir ekki við. En þetta er ekki gert að ástæðulausu. Sú stefna, sem kemur fram í frv. eins og þessu, að hálfneyða upp á þingið ýmsum fjárveitingum, er svo varhugaverð, að einhvern tíma verður að taka fyrir kverkar á henni, og þá helst áður en henni vex of mjög fiskur um hrygg. Stefnan miðar ekki til annars en að draga fjárveitingavaldið meir og meir úr höndum þingsins, og nefndin heldur fast við, að ástæða sje til að slá varnagla við því. Jeg vil þó engan veginn með þessu beina því frekar til hæstv. núverandi stjórnar, að hún sje að þessu leyti syndugri en ýmsar aðrar stjórnir, því að þetta hefir oft áður viljað við brenna. Og ábyrgðin á þessu frv. og hvernig það kemur eftir á mun hvíla nokkuð jafnt á fráfarinni og núverandi stjórn.

Fjárveitinganefndin vítti það á síðasta þingi, að ekki voru þá lögð fyrir þingið fjáraukalög fyrir það ár, og nú víkur hún að þessu sama. Eins og bent er á í nál., þá er sú aðferð næsta undarleg, og síst af öllu getur fjvn. Nd. tekið með þögn og samþykki nokkru því, sem miðar til þess að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis.

Það, sem enn fremur gefur nefndinni tilefni til að vera margorð um þessi efni nú, engu síður en á síðasta þingi, er það, að stjórnin heldur uppteknum hætti og Lætur engin fjáraukalög koma fyrir þetta yfirstandandi ár. Þó engu minni líkur sjeu nú til þess, að fleiri fjárgreiðslur komi til greina en þær, er í fjárlögunum standa.

Ekki hvað síst verður þessi stefna varhugaverð, ef það verður ofan á að halda þing aðeins annaðhvert ár. því að þá er stjórninni gefið víðtækara vald en áður hefir verið í fjármálum. Það kom greinilegast í ljós undir þinglokin á síðasta þingi, hvað rjettmætt eða jafnvel sjálfsagt hefði verið að koma með fjáraukalög. Fjárveitinganefnd hafði þá til meðferða; ýms erindi, sem áttu við það ár, ræddi um þau á fundum sínum og náðu sum þeirra meðmælum hennar. En það, að fárveitinganefnd hefir mælt með einhverju, hefir jafnan verið talinn svo mikill styrkur, að það nálgaðist að vera heimild fyrir stjórnina. Eitthvað getur verið til í því, að svo sje, en jeg hefi þó áður bent á það hjer í þinginu, og bendi enn þá stjórninni á það, að meðmæli fjárveitinganefndar eru engin fullnaðar ákvörðun í þessu efni, en er aðeins persónulegur stuðningur þeirra, sem ljá því máli, er fyrir liggur, atkvæði sitt. En þetta hefir oft valdið misskilningi, og því full ástæða til að taka það fram nú.

Jeg vil nú leyfa mjer að skjóta því til hæstv. fjármálaráðherra, að svo framarlega sem útlit er fyrir, að til aukafjárveitinga komi, þá skorar fjárveitinganefndin á stjórnina að koma með frv. til fjáraukalaga. Annars er ekki mikil ástæða til þess að fara frekar út í þau atriði, sem nefndin hefir skrifað um, en mig langar þó til þess að víkja dálítið ítarlegar að sumum þeirra. Má til að byrja með minnast á ferðakostnað augnlæknis til Austfjarða; hann hefir reynst nokkuð hár, nærri 1400 krónur, í samanburði við þá upphæð, 700 kr., sem ætluð er í fjárlögunum til ferða augnlæknis alt í kringum landið. Þá er það kirkjugarðurinn hjer í Reykjavík. Þótt slíkt komi ekki til atkvæða hjer í deildinni, þá er þó ástæða til að skora á stjórnina að hefjast handa í því máli frekar en gert hefir verið. Það er ekki rjett til orða tekið hjá nefndinni, þar sem hún bendir á að „taka upp legkaup“. Legkaup hefir verið hjer tekið áður, eins og menn vita, en eftir gömlum taxta, og virðist því geta komið til greina að hækka það að talsverðum mun. Kostnaðurinn við viðhald og stækkun kirkjugarðsins er orðinn gífurlegur og enn mun þurfa 60–80 þús. kr. til fullnustu kirkjugarðsins, fram yfir það, sem áður var gert ráð fyrir. Er það bending um það, að eitthvað verði að gera, til að ná inn fje upp í þessa stórkostlegu upphæð. Og eins og útfararkostnaðurinn er orðinn hjer í Reykjavík, þá mundi það ekki verða mjög tilfinnanlegt, að legkaupið væri hækkað að nokkru. Auk þess eru miklu fleiri í Reykjavík, sem nota garðinn, en þeir, sem eiga rjett til þess að lögum, sem sje þeir, sem eru utan þjóðkirkjusafnaðarins.

Í sambandi við þetta vil jeg skjóta því til stjórnarinnar, hvort ekki geti komið til mála að flytja kirkjugarðinn. En ef nauðsynlegt er að nota þann sama, þá að athuga, hvort ekki verði heppilegra að vinna alt verkið í einu. Mjer hefir verið bent á, að þá mætti nota tækin frá hafnarbyggingunni, til tímasparnaðar og kostnaðarljettis. Vænti jeg, að stjórnin taki þetta alt til athugunar, og mun fjárveitinganefnd telja sjer skylt að veita henni þann stuðning, er hún má.

Brtt. hv. þm. Barð. (HK) kemur nefndinni á óvart, því að þessi hv. þm. var í samráðum við nefndina um þetta atriði, og mun nefndin ekki sjá sjer fært að aðhyllast brtt. Hitt gæti komið til álita, hvort samkomulag milli hans og nefndarinnar um einhverja aðra fjárupphæð gæti ekki átt sjer stað, þó svo, að nær fjelli tillögum nefndarinnar.

Hvað viðvíkur brimbrjót í Bolungarvík o. fl., þá geymi jeg það, uns hæstv. stjórn hefir látið til sín heyra.