19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

24. mál, fjáraukalög 1922

Jón Þorláksson:

Mjer virtist á ummælum háttv. frsm. (MP) og háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) um kirkjugarðsaukann og hvernig vinna ætti upp kostnað þann, sem af honum hefir leitt, sem þessum háttv. þm. væri ekki allskostar kunnugt það mál. Vil jeg því skýra frá sögulegum tildrögum þess og á hvern hátt það varð, að ráðist var í þá stækkun kirkjugarðsins, sem hefir reynst svo kostnaðarsöm. Það mál kom til bæjarstjórnar Reykjavíkur, ekki að því er snerti beint stækkunina, heldur af því, að þessi stækkun fór í bága við gatnaskipun, sem bæjarstjórnin hafði ákveðið þarna með annað fyrir augum en að þessi blettur yrði notaður fyrir grafreit. Bæjarstjórnin áleit þetta land nefnilega algerlega óhæft til slíkrar notkunar. Hjeraðslæknir hafði rannsakað það og komist að þeirri niðurstöðu. Var hún því þess vegna algerlega mótfallin að gera þennan blett að grafreit, er ríkisstjórnin stakk upp á því, en var borin ráðum í málinu. Ekki man jeg gjörla, hver ráðherra sat þá að völdum, en núverandi atvrh. (KIJ) var þá landritari, og honum var alment um kent, að í þetta var ráðist.

Vegna þessa sögulega aðdraganda gat jeg ekki talið rjett að leggja þessar gömlu syndir landsstjórnarinnar á herðar Reykjavíkurbæ, heldur sje ríkinu skyldast að hlaupa hjer undir sinn eigin bagga.