19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

24. mál, fjáraukalög 1922

Lárus Helgason:

Mjer nægja örfá orð, því að hv. 1. þm. Skagf. (MG) tók svo rækilega fram það, sem jeg ætlaði að segja. Hann tók það fram, að úr því þessi læknir hefði haft full laun allan tímann, þá væri honum skylt að greiða þennan kostnað. Þetta virðist svo ljóst, að illfært er að mótmæla því. Alt öðru máli hefði verið að gegna, ef ríkið hefði ekki borgað honum laun á meðan hann var fjarverandi. Þá hefði þetta hvorki verið rjett nje sanngjarnt. Jeg get sömuleiðis undirstrikað hvert orð, sem háttv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði um sanngirniskröfu þá, sem hjeraðsbúar ættu á að fá þennan kostnað greiddan, og var það sem talað úr mínu hjarta. Það er augljóst, til hvers það gæti leitt, ef embættismenn þyrftu ekki annað en að fá leyfi hjá yfirboðurum sínum, stinga svo af og láta þá menn, sem þeirra eiga að njóta, fá að bera allan kostnaðinn og óþægindin, sem af þessu leiðir.