21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

24. mál, fjáraukalög 1922

Jakob Möller:

Háttv. frsm. fjvn. (MP) sagði, að ríkinu bæri ekki skylda til annars en sjá dómkirkjusöfnuðinum fyrir garðstæði. En þetta breytir ekki mikið, Ef legkaup er hækkað, er með því komið gjöldum yfir á söfnuðinn, er ríkið á að bera. Hefir söfnuðurinn líka haft margskonar kostnað af garðinum, girðingarkostnað o. fl.

Er garðurinn heldur ekki ókeypis fyrir dómkirkjusöfnuðinn, því að allir verða að greiða legkaupið, í hvaða söfnuði sem þeir eru. Einnig er legkaupið nokkru hærra en hjer hefir verið talið. Er taxtinn þrenskonar, eftir tímalengd.

Álít jeg ekki sæmandi að leggja gjald þetta á þennan eina söfnuð landsins. Skatturinn á að koma á alt landið jafnt. Kostnaðurinn við þennan kirkjugarð hefir orðið mikill, og mest hefir það verið stjórninni að kenna, því að full vitneskja lá fyrir henni um það, hvernig til hagaði og hverju til þurfti að kosta. Var það rjett hjá hv. samþingismanni mínum (JÞ), að bæjarstjórnin hefði æ verið mótfallin þessu garðstæði, enda þótt sóknarnefndin legði með því.

Mótmæli jeg því bæði legkaupinu eins og það er, og þá því fremur allri hækkun á því.