21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

24. mál, fjáraukalög 1922

Magnús Jónsson:

Jeg hefi aflað mjer nokkurra upplýsinga viðvíkjandi kirkjugarðinum, því að mjer þótti athugasemdir háttv. fjvn. um kirkjugarðinn dálítið einkennilegar.

Það er ekki rjett, að um ekkert legkaup sje að ræða, heldur hefir verið tekinn upp þrenskonar taxti, sem miðaður er við tímalengd. Fyrir 25 ár skal greiða 4 kr., fyrir 50 ár 8 kr. og um aldur og æfi 16 kr. Þetta gjald rennur til ríkissjóðs, en til endurgjalds ber honum að leggja til sæmilegt land. Um annan kostnað, sem bærinn hefir orðið að bera, er líka að ræða, því að 1918 var lagður 1 kr. nefskattur á báða söfnuðina. Þessi skattur nam það ár 8711 kr., 1919 8894 kr. 1920 hefi jeg ekki getað fengið að vita, hve hár hann var, en 1921 var hann 10137 kr. og fyrir 1922 mun hann verða enn meiri Er þetta talsverð upphæð og um talsverða byrði hjer að ræða. Er hjer og aðgætandi, að þessi kirkjugarður er að nokkru leyti fyrir alt landið. Hefir annar prestur dómkirkjunnar, sem þessu er vel kunnugur, sagt mjer, að þriðji hver maður, sem þar væri jarðaður, hefði verið heimilisfastur utan Reykjavíkur. Er slíkt og skiljanlegt, þar sem þar eru jarðaðir flestir þeir, er deyja hjer í sjúkrahúsum, spítölum og hælum, Kleppi. Holdsveikraspítalanum og Vífilsstöðum. Þessar upplýsingar hefi jeg leyft mjer að gefa, en að öðru leyti skal jeg ekki deila um mál þetta.