21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

24. mál, fjáraukalög 1922

Jón Þorláksson:

Hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að jeg hefði verið með skæting til sín. Jeg vil nú ekki við það kannast, en jeg get beðið afsökunar á því, að jeg kendi honum úrslit þessa máls, en málsskjölin sýna, að það hefir ekki verið útkljáð fyr en eftir að landritaraembættið var lagt niður. En lengra nær mín afsökun ekki, því að skjölin sýna, að 8. nóv. 1916 hefir hann lagt til, sem landritari, að þetta óhæfa land væri keypt til stækkunar kirkjugarðinum.

Jeg hjelt, að stjórninni mundi þá ekki hafa verið kunnugt um, að landið var óhæft til graftar, en sje nú, að svo hefir ekki verið. Henni var það kunnugt, að það þurfti að bæta mold ofan á, og landritari hefir í apríl 1916 útvegað kostnaðaráætlun um þetta.

Bæjarstjórnin mótmælti þessu, en landsstjórnin gerði það engu að síður, enda þótt hún væri þess vitandi, að hjer var um mikinn kostnað að ræða. Verð jeg að telja, að með aðvörun sinni hafi bæjarbúar gegnum fulltrúa sína þvegið hendur sínar í þessu máli. Er því engin sanngirni að leggja þennan kostnað á herðar bæjarins.