21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

24. mál, fjáraukalög 1922

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg held, að það hefði verið betra fyrir háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) að gera afsökun sína rækilegri. Jeg las till. mína upp orði til orðs. Háttv. 3. þm. Reykv. sagði, að landsstjórninni hefði verið vitanlegt, að landið var óhæft til graftar. En þetta er ekki rjett. — 1916 ljet hún grafa 10 holur; 5 þeirra náðu fullri dýpt. 2 voru 2 álna djúpar og 3 1–11/2 alin. Landið var því alls ekki alt ónothæft. — En síðari stjórn varð þetta enn kunnara, hvernig landið var, og hún ber ábyrgðina.

Hann sagði, að bæjarstjórnin bæri enga ábyrgð á þessu. Jeg vil ekki mótmæla því. En jeg vildi þó leyfa mjer að spyrja hann, hvenær skjal borgarstjóra hafi komið fram. Mig minnir, að það sje í maí 1917, og hvernig verður mjer þá kent um þetta, þar sem jeg er þá fyrir nokkru hættur? Hvernig á jeg að bera ábyrgð á því, sem gert var fullu ári eftir að jeg fór úr stjórninni? Hygg jeg, að rjettast hefði verið fyrir háttv. þm. (JÞ) að láta þessu atriði óhreyft.