09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

24. mál, fjáraukalög 1922

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. fjvn. byrjar álit sitt á því, að hún hafi ekkert haft sjer til stuðnings í starfi sínu, nema greinargerð stjórnarinnar, sem verið hafi harla ófullkomin. Jeg hefi borið frumvarp stjórnarinnar saman við greinargerðir frv. undanfarin ár, og sje ekki annað en að greinargerð sú, er fylgir þessu frv., sje fult eins glögg og áður hefir verið, og að minsta kosti sæmileg. En það er satt, að síðan um 1911 hefir greinargerðum með frv. hrakað mjög. Gildir það bæði stjórnarfrumvörp og ekki síður þingmannafrumvörp. Hvers vegna það er, skal jeg ekki frekar minnast á, en þetta er nú svo. Jeg viðurkenni, að það er nauðsynlegt, að hverju frv. fylgi ítarleg greinargerð. Og jeg get lofað fyrir mitt leyti, að ef jeg á nokkurn þátt í því að undirbúa fjárlagafrv. aftur, þá skal jeg taka þetta til greina. En það er einkennilegt, að Nd. sendir ekki til Ed. þau skjöl, er snerta málin, eða þá að Ed. gengur ekki eftir þeim hjá Nd. Er þar einhver rígur á milli, eða hvað? Það hefði verið nauðsynlegt, að þau skjöl, sem fjvn. Nd. fjekk með þessu máli, hefðu gengið til fjvn. Ed., svo hún gæti betur áttað sig á hinum einstöku liðum frv.

Út af þessum 2000 kr., er veittar höfðu verið til frjettastofunnar áður en jeg tók við, skal jeg geta þess, að jeg fjekk ítrekuð tilmæli um að veita á ný 2000 kr. til hennar, en jeg taldi rjett að vísa til þingsins þeirri umsókn, er nú liggur fyrir. Svo er að sjá, eftir ummælum fjvn. Nd. og Ed., að þær greini mjög á um þetta atriði. Fjvn. brýnir fyrir stjórninni að hafa til sem nákvæmastar skýrslur um markaðshorfur, en fjvn. Ed. er því algerlega ósamþykk og vill ekkert láta gera. Ef báðar nefndirnar halda fast við þessi ummæli sín. hvorri á stjórnin þá að hlýða? Það mun venjulega litið svo á, að Nd. eigi að hafa meiri áhrif í þessum efnum, og „faktiskt“ hefir hún það. En jeg býst þó við, að Ed. þykist vera jafnrjetthá og Nd. En í þessum efnum skal jeg fara að ráðum fjvn. Ed. og veita ekkert fje til þessarar frjettastofu. En skýrslur þær, sem sendiherra vor í Kaupmannahöfn sendir stjórnarráðinu, má halda áfram að senda verslunarráðinu, og koma þannig nokkuð á móti óskum fjvn. Nd.

Þá vil jeg minnast nokkuð á einstök atriði þessa frv.

Það er þá fyrst Skeiðaáveitan. Þegar farið var að grafa í fyrravor, það sem eftir var af skurðinum, kom það þegar í ljós, að það verk myndi verða mjög erfitt og dýrt, þar sem eintóm klöpp var fyrir. Vegamálastjóri taldi, að verkið yrði dýrt, en þennan 600 metra skurð, sem eftir var, yrði þó að grafa, því annars væri alt verkið ónýtt. Var því ekki um annað að gera en ljúka við verkið.

Um brimbrjótinn í Bolungarvík get jeg sagt hið sama hjer og jeg sagði í Nd. Brimbrjótur þessi varð miklu dýrari en upphaflega var búist við. Hann varð víst 57 þús. kr., en hafði áður verið áætlaður 38 þús. kr., og þó víst enn minna upphaflega. Stjórnarráðinu bárust skeyti frá forstjóra verksins, dönskum manni, er til þess hafði verið ráðinn af Krabbe vitamálastjóra. Enn fremur frá Hólshreppi og frá vitamálastjóra. Sögðu þeir, að verkið myndi stöðvast, ef ekki væri veitt meira til þess. Stjórnin sá sjer því ekki fært að neita um fjeð og veitti til þess 8000 kr.

Tel jeg mjög heppilegt, að hún gerði það, eins og komið er, því að garðurinn brotnaði niður, og hefði stjórnin neitað fjárveitingu, svo garðurinn hefði ekki orðið fullgerður, þá hefði því verið um kent og stjórnin sökuð um það, að hafa ekki veitt fjeð.

Það er hart, að svona þurfi að fara um dýr mannvirki, en það er því miður ekki nýtt, að svona fari hjá verkfræðingunum. Höfum vjer orðið sorglega reynslu fyrir því. Má, auk brimbrjótsins í Bolungarvík, nefna fyrirhleðsluna hjá Hvanneyri við Siglufjörð. bæjarbryggjurnar á Akureyri o. fl. Sem sagt, þessi fjárveiting var talin óhjákvæmileg, og því veitti stjórnin hana.

Þá spurði hv. frsm. fjvn. (EA) um það, hvers vegna stjórnin hefði keypt uppdrættina af mómýrunum. Jeg skal svara því, þó það reyndar sje skýrt í athugasemdum stjórnarinnar við frv. Einar Benediktsson hafði fengið enskan verkfræðing til að gera þessa uppdrætti. Vildi svo Einar selja þá og fullyrti, að fyrverandi atvrh., Pjetur heitinn Jónsson. hefði gefið sjer vilyrði fyrir því, að þeir yrðu keyptir. Þetta komst þó ekki í framkvæmd áður en atvrh. Pjetur Jónsson dó, en talsverðar líkur fyrir því, að Pjetur sál. hefði gefið þetta loforð. Þetta kom svo til fjvn. Nd., er ljet það álit sitt í ljós, að ef Pjetur heitinn hefði lofað þessu, þá væri sjálfsagt að efna það. Þessi upphæð var því borguð út, þó jeg gerði það nauðugur, því jeg býst varla við því, að af þessum uppdráttum geti orðið neitt verulegt gagn.

Þá er það viðaukatill. frá mjer á þskj. 301. er jeg vil fara um nokkrum orðum.

Á henni stendur svo, að vatnsveitan hjer í bæ hefir reynst mjög ófullnægjandi, svo bæjarstjórnin hefir ákveðið að auka vatnsleiðsluna að mun. Gerði hún síðan út mann til að fá lán, og vildi svo vel til, að bærinn átti kost á láni í „Bikuben“, og það með tiltölulega góðum kjörum, eða 51/2% vöxtum og greiðslu á 20 árum. Eru þetta betri kjör en bærinn og jafnvel landið hefir mátt sætta sig við á síðustu undanförnum árum. En skilyrðið fyrir því, að lán þetta fengist, var það, að ríkið ábyrgðist það. Fjekk svo stjórnin beiðni um það frá bæjarstjórninni. Stjórnin taldi hag bæjarins svo góðan, að engin ástæða væri til að neita um ábyrgðina, og veitti hana því. Þetta gerðist í nóvember. En það gleymdist að leita samþykkis fyrir þessari ábyrgð í fjáraukalögunum fyrir árið 1922. En stjórnin var mint á það í Nd. við framhald 1. umr. fjárlaganna, og er því samþykkis leitað nú. samkvæmt gefnu loforði. En þar sem fjvn. hefir ekki haft tækifæri til að athuga það, má atkvgr. um það bíða til 3. umr., og óska jeg eftir því, að það verði gert.