09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg skal ekki vera langorður. Vildi þó gjarnan fá nánari skýrslur um einstök atriði hjá hæstv. stjórn.

Hæstv. forsrh. (SE) skýrði frá ferða- lagi augnlæknis til Austfjarða, en jeg er ekki vel ánægður með þá skýrslu. Mjer fanst það ekki koma nógu greinilega fram, hvers vegna ekki var hægt að nota það fje til þessarar ferðar, sem veitt var í fjárlögunum.

Þá virtist mjer hæstv. forsrh. líta svipuðum augum og jeg á það, að legkaup yrði tekið upp til að standast þann kostnað, er af uppfyllingu kirkjugarðsins leiðir. Vænti jeg þess vegna, að stjórnin geri eitthvað í því efni. Hann tók það fram, að landinu bæri skylda til að leggja til land í grafreitinn. Það er rjett, en um uppfyllinguna gæti frekar verið vafi.

Þá er það húsagerðameistari. Mjer fanst eigi koma fram næg skýring á því, hvort hann hefði gert uppdrætti fyrir einstaka menn, og hvort sú borgun, er hann hefði tekið fyrir það, hefði verið notuð til að bera upp kostnað ríkissjóðs á þessum lið Vil jeg gera ráð fyrir, að það hafi verið gert og það, sem inn hefir komið, látið ganga upp í skrifstofukostnað. Það er rjett, sem hæstv. atvrh. (KIJ) tók fram, að það er farið orðum um það í nál., að nefndin hafi eigi fengið í hendur þau skjöl og skilríki, sem nauðsynlegt var, að fylgdu frv. En þó að nefndin kveði svo að orði um greinargerðina, að hún sje eigi fullkomin, þá er eigi þar með sagt, að hún sje eigi sæmileg eftir ástæðum. Greinargerðir eru tæplega nokkurn tíma svo skýrar sem skjölin sjálf, sem þær eru bygðar á. Nefndin sneri sjer til nefndar þeirrar, er um málið hafði fjallað í háttv. Nd., viðvíkjandi einstaka skjölum, sem fylgja áttu frv., en fjekk það svar, að Nd.-nefndin hefði engin slík skjöl og hefði aldrei fengið þau. Hafði því Ed.-nefndin eigi annað sjer til stuðnings en greinargerðina.

Þá mintist hæstv. atvrh. á ágreining þann, er væri á milli nefnda Ed. og Nd. út af orðum, er fjellu í nál. Nd. um styrk til Verslunarráðsins. Var nefnd þessarar hv. deildar í vafa um, hvernig skilja bæri ummæli hv. nefndar Nd., og sló varnagla í nál. við því, að stjórnin setti upp sjerstaka utanríkismálaskrifstofu til þess að afla þekkingar á markaði og markaðshorfum erlendis. Álítur nefndin, að hægt sje að láta við það sitja, sem nú er, enda mun sendiherra vor í Kaupmannahöfn geta látið í tje upplýsingar þær, sem nauðsynlegar eru um slík mál. Ef háttv. fjvn. Nd. ætlast til, að hæstv. landsstjórn leggi fram sjerstaklega fje til þessa, þá hefði betur átt við, að hún hefði komið fram með till. um það við fjárlögin. En það hefir nefndin eigi gert, og þegar af þeirri ástæðu er Ed.-nefndin þessu mótfallin, því hún álítur eigi rjett, að hæstv. landsstjórn láti upp á sitt eindæmi fje út í þessu skyni.

Þá kem jeg að Skeiðaáveitunni og brimbrjótnum í Bolungarvík. Jeg mintist á þessi mál áður, til þess að fá frekari upplýsingar um þau. Mál þessi eiga í rauninni margt sammerkt. Þau ætla bæði seint að taka enda. Hafa áveiturnar austanfjalls yfirleitt fengið endalausar fjárveitingar, enda eru þær komnar langt fram úr áætlun. Er mikil ástæða til að fara gætilega, er um slík fyrirtæki sem þessi er að ræða, og hafa þau sem traustust og vanda sem best til þeirra þegar í upphafi. Er hið sama um brimbrjótinn og flestar hafnargerðir vorar að segja. Þar virðist alt fje fara í sjóinn. Segi jeg þetta eigi til þess að ásaka hæstv. landsstjórn, en aðeins til þess að benda á, hve nauðsynlegt það er að vanda til slíkra fyrirtækja, bæði hvað snertir hæfa menn og góðan undirbúning.

Um mómýrarnar skal jeg eigi fjölyrða, úr því að loforð hefir legið fyrir um kaup, enda þótt nefndin hafi eigi trú á því, að þessir uppdrættir komi nokkurn tíma að liði.

Að endingu skal jeg taka það fram, að bólað hefir á því undanfarin ár, að landsstjórnir vorar. — eigi sjerstaklega sú stjórn, sem nú situr að völdum. — Hafa leitað um ýms mál álits og tillagna fjárveitinganefnda Alþingis, og veitt fje til ýmsra manna og fyrirtækja með álit nefndanna í bakhöndinni. Ættu fjárveitinganefndir Alþingis sem minst að gera af slíkum tillögum, eða láta uppi álit sitt þannig, án þess að þinginu gefist kostur á að fjalla um málin.