07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg get svarað báðum þessum fyrirspurnum hv. þm. Borgf. (PO) strax. Þegar jeg tók við ráðherrastörfum sýndi það sig fljótt, að nauðsyn var að hafa stofu, þar sem fólk gæti hitt mig utan þess tíma, sem ætlaður er til viðtals uppi í stjórnarráði. Bæði er það aðkomumönnum óþægilegt að þurfa kannske að dvelja hjer nóttunni lengur af því viðtalstími er úti, og ekki eru allir fyrir það að arka upp í stjórnarráð, þó þeir raunar hafi fult erindi, og þvílíkt er ástatt um marga daglega. Fyrir mig persónulega væri það náttúrlega fyrirhafnarminst að vísa þessum mönnum frá og njóta næðis, í stað þess að afgreiða þá; en þann tímann, sem jeg er ráðherra, kæri jeg mig ekki um að reka starf mitt þannig. Jeg samdi því um leigu og innrjettingu á herbergi til þessara afnota, og er ekki í neinum vafa um, að jeg hafði fulla heimild til þess og það var ekki svo stórkostlegur samningur, að jeg hjeldi ráðherrafund um hann, enda hefir margfalt stórvægilegri málum fyr og síðar verið ráðið til lykta án þess að vera borin undir alt ráðuneytið. Jeg skal taka það fram, að hefði jeg haft íbúð á opinberan kostnað, eins og forsrh., eða eigin íbúð, eins og atvrh., hefði þessarar ráðstöfunar ekki þurft, en því var ekki til að dreifa, þar sem jeg bjó á hóteli þar tekur maður ekki upp meira rúm en nauðsyn krefur, og jeg hefi hvorki aukið eða minkað mína íbúð meðan jeg hefi gegnt ráðherrastörfum.

Þá er ábyrgðin fyrir láni Reykjavíkurbæjar til vatnsveitunnar. Jeg býst við, að það verði leitað endanlegrar heimildar, þegar fjáraukalög fyrir árið 1923 koma fram. Svo stóð á, að bæjarstjórnin hafði fengið heimild til að leita þessa láns og hafði fengið tilboð um það, sem varð að afgerast strax, en gat þó alls ekki fengið lánið, nema stjórnin lofaði ábyrgð sinni. Það eru auðvitað mörg fordæmi fyrir því, að stjórnin ábyrgist lán fyrir bæjarfjelög. Þetta lán var tekið til viðauka við vatnsveitu bæjarins hjer, og var það full ástæða til þess að stjórnin veitti þessa aðstoð í útvegun lánsins.