07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Jeg hjó eftir því áðan, að hæstv. fjrh. (MagnJ) tók fram í hjá háttv. þm. Borgf. (PO), að hjer væri ekki um húsaleigu að tala, heldur væri þetta eingöngu skrifstofufje. Jeg vil nú leyfa mjer að spyrja: Hyggur hæstv. fjrh. (MagnJ), að þetta og annað eins gangi í nokkurn þingmann, að nokkur taki trúanlegt, að þetta herbergi, sem hann leigir á Hótel Ísland, sje notað fyrir skrifstofu? Öllum er kunnugt, að hann hefir opinbera skrifstofu í stjórnarráðinu. Þar eiga allir aðgang að að finna hann viðkomandi embætti hans. Þeir menn, sem heimsækja hann á Hótel Ísland, hljóta því að heimsækja ráðherrann þar sem prívatmann, og sje jeg ekki, að landið eigi að greiða húsaleigu í því skyni. Jeg get tekið undir það með háttv. þm. Borgf. (PO), að þetta sje í algerðu heimildarleysi gert, og vona jeg, að hæstv. ráðherra sjái sóma sinn í því að skila fjenu aftur. Það hafa áður verið, og er enn ráðherra, sem enga húsaleigu taka úr ríkissjóði, nje til prívatskrifstofuhalds. Því skyldi ekki hæstv. atvrh. (KIJ). eins geta tekið leigu eftir eitt herbergi í húsi sínu, til þess að bjóða mönnum inn í ?

Jeg fór að minnast á þetta af því, að jeg álít öldungis óalandi og óverjandi, að þetta gangi svo til framvegis, að slíkum kostnaði sje komið yfir á ríkissjóð. Ætla jeg, að þetta sje þó ekki neitt einstakt, heldur einn liður í langri keðju, sem sýnir, að hæstv. fjrh. (MagnJ) sje óhafandi og ómögulegur í því sæti, er hann skipar nú.

Það ber raun vitni, að fleira er í ólagi en með landhelgissjóðinn. Jeg trúði því ekki fyr en hæstv. fjrh. (MagnJ) játaði það á sig, að þetta gæti verið satt með húsaleiguna. Álít jeg, að sökin liggi að nokkru hjá hæstv. forsrh. (SE), því hann á að líta eftir, að svona hneyksli komi ekki fyrir innan stjórnarinnar. Jeg trúi því ekki, að hann, sem jeg þekki að mörgu góðu, ljeti slíkt viðgangast í heilt ár, hefði hann haft vitneskju um það. En að hæstv. forsrh. hefir ekki vitað um þetta, verð jeg að telja alls ónógt eftirlit frá hans hálfu á því, sem gerist innan stjórnarinnar.

Jeg ætla mjer ekki að verða neinn syndatínir stjórnarinnar. enda kannske ekki um margar syndir að tala. Samt vildi jeg spyrja hæstv. fjrh. (MagnJ) um söluna á Geysishúsinu, er notað var sem gistihús bæði fyrir útlenda og innlenda ferðamenn, hvort það hafi ekki verið selt fyrir mun lægra verð en hægt hefði verið að fá fyrir það á annan hátt. Eins vildi jeg spyrja um, hvort búsmunir þeir, er húsinu fylgdu, hafi ekki verið seldir fyrir nokkuð lágt verð, og hvort þess hafi verið nægilega gætt að hafa eins mikið upp úr húsinu og búsmununum eins og mátt hefði, ef vel hefði verið á haldið. Jeg ætla svo ekki að fara frekari orðum um þetta að sinni, en vænti, að hæstv. ráðherra gefi mjer svör við þessari fyrirspurn minni, svör, sem sjeu svo greinileg, að mjer og öðrum sjeu fullskiljanleg.