07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Ottesen:

Það ætti að vera kveðið nógu ríkt að orði, svo að hæstv. fjrh. (MagnJ) geti skilið og tekið sjer til inntektar, að hann hefir tekið fje það, sem um var rætt, í fullkomnu heimildarleysi. Í stjórnarráðinu tekur hann vitanlega á móti þeim gestum, er þurfa að finna hann vegna embættis hans. En handa þeim gestum, er sækja hann heim, ber ríkinu engin skylda að sjá honum fyrir viðtalsherbergi. Þetta hlýtur hæstv. ráðherra að hafa verið fullljóst, þegar hann tók við ráðherraembættinu. Hinir ráðherrarnir hafa þegar þvegið hendur sínar af því, að þeir hafi verið í vitorði með fjármálaláðherra um þetta gerræði. Mjer skildist, að þeir hefðu ekki vitað um þetta fyr en jeg mintist á það nú. Annars hygg jeg, að þeir hefðu skilið stöðu sína svo, að þeir hefðu afstýrt þessu hneyksli. Það er því ekki nema rjett og sjálfsagt, að hæstv. fjrh. (MagnJ) skili aftur því fje, sem svona er til fengið.

Hæstv. atvrh. (KIJ) var að leita að fordæmum fyrir líkri ábyrgð, sem stjórnin hafði gengið í fyrir Reykjavíkurbæ í vetur, og vísaði í því efni til sýslumanna sem oddvita sýslunefnda. Kvað hann altítt, að þeir gengju í ábyrgð fyrir hönd sýslusjóða fyrir hreppsfjelög, án þess að leita samþykkis sýslunefnda fyr en eftir á. Jeg hygg, að hæstv. atvrh. (KIJ) blandi þarna saman. Eftir sveitarstjórnarlögunum mega hreppsfjelög ekki taka lán, þó á eigin ábyrgð sje, án samþykkis sýslunefnda, og ætla jeg, að hæstv. ráðherra hafi átt við, að sýslumenn hafi oft gefið slíkt samþykki á sitt eindæmi, upp á væntanlegt samþykki sýslunefndar eftir á. (Atvrh. KIJ : Ekki eingöngu ; hvorttveggja hefir átt sjer stað). Jeg hygg, að mjög fá dæmi sjeu þess, að sýslunefndaroddviti hafi gengið í ábyrgð án þess að hafa áður fengið samþykki sýslunefndar. Það gæti þá helst verið með þeim hætti, að leita samþykkis hvers eins sýslunefndarmanns, líkt og t. d. gert var árið 1920, þegar stjórnin gekk í ábyrgð fyrir rafveituláni Reykjavíkurbæjar, eftir að hún hafði leitað álits þingmanna, hvers í sínu lagi. Að vísu geta ef til vill verið undantekningar í þessu efni, en þær munu fáar og ekki sjerstaklega eftirbreytnisverðar. Hitt er og fullljóst, að þetta má ekki vera fordæmi fyrir stjórnina að ganga í ábyrgð fyrir lánum, án þess að hafa áður leitað samþykkis þingsins, annaðhvort formlega, með sjerstakri lagaheimild, eða með því að tryggja sjer fyrirfram samþykki meiri hluta þingmanna. Þetta er eina rjetta leiðin, og verður að girða fyrir, að út af henni sje brugðið.

Hæstv. atvrh. (KIJ) mintist á, hve bráðan þetta hefði borið að og að stjórnin hefði þurft að gefa lokasvar fyrir 20. okt. En eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið — og jeg hefi sjálfur sjeð svarskeytið — sendi stjórnin ekki skeyti með bindandi loforði um ábyrgð fyr en 20. nóv. Jeg hygg því, að þetta hafi ekki borið svo bráðan að, að ekki hefði mátt vinnast tími til að leita álits þingmanna. Og því fremur, sem hæstv. stjórn hefir hvorki í fjárlagafrv. sínu fyrir næsta ár nje í fjáraukalagafrv. fyrir 1922 leitað samþykkis þingsins um þessi efni, verð jeg að álíta, að þetta sýni alt of mikið einræði stjórnarinnar og beinlínis virðingarleysi fyrir þinginu.