07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera örfáar athugasemdir út af ýmsu, sem hjer hefir orðið að umtalsefni. — Það hefir verið gerð fyrirspurn um húsaleigu hæstv. fjrh. (MagnJ), og skal jeg hvorki bera í bætifláka nje álasa hæstv. ráðherra út af því máli. Hvort húsaleigustyrkur þessi er rjettmætur eða saknæmur, læt jeg liggja á milli hluta. Finst mjer hjer koma fram, sem oftar, að þegar hönd festir á lágum, en ákveðnum upphæðum, eru hv. þm. oft mjög kvikusárir, en miklu síður í stórmálum, sem eru ekki skráð greinilega á pappírinn. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg telji ekki sjálfsagt að gæta fullrar varúðar í smærri atriðum, en miklu meiri þörf er þó að hafa gát á hinum stærri. (PO: Á mjóum þvengjum —). Jeg var búinn að slá þann varnagla líka.

Nú stendur svo á, að sumir ráðherrar verða að sætta sig við leiguíbúð, en einungis einn ráðherranna býr í ráðherrabústaðnum. Væri æskilegast, að öðru jöfnu, að ráðherrabústaðurinn væri sem mest notaður handa þeim ráðherrum, sem ekki eru húseigendur. Áður bjuggu þar 2 ráðherrar, og hygg jeg, að þeir hafi haldið fullum veg og sóma. Þó að þeir byggju dálítið þrengra en nú er. Jeg býst við, að það myndi fremur auka sátt og samlyndi með ráðherrunum, að þeir gengju á undan með góðu eftirdæmi og flyttu saman, heldur en að upp þurfi að koma vafaatriði um leigu ráðherra úti í bæ. (HK: Er nokkur ósátt þar á milli?) Samkomulagið seint of gott.

Þá var minst á sölu hússins við Geysi Jeg álít það mál ekki með öllu óviðkomandi mjer, þar sem þetta gerðist í Árnes- sýslu og mjer er málið kunnugt. Það mun rjett, að því hefir verið hreyft bæði í blöðum og af einstökum mönnum, að óviðeigandi hafi verið að rífa húsið og selja. En heima fyrir í hjeraði, þar sem gistihúsleysið ætti að vera tilfinnanlegast, hefir þetta mál legið mjög í láginni og lítið verið um það rætt. Ber tvent til þess. Í fyrsta lagi er það á allra vitorði, að húsið var algerlega ófullnægjandi sem gistihús fyrir ferðamenn, sjerstaklega á undan konungskomunni, og í annan stað, að rekstur hússins var svo arðlítill, að menn hjeldust þar ekki við til að sinna ferðamönnum. Þó að húsið væri nauðsynlegt, miðað við þarfir ferðamanna, var enginn hagur af því að reka það, svo að bæri sig. Þetta tvent veldur því, að mönnum þar eystra er ekki svo mikill söknuður að húsinu. Gestir leituðu á bændaheimili til gistingar hvort eð var.

Jeg skal játa, að fyrir sumargesti væri mjög heppilegt að hafa gistihús í Biskupstungum ofanverðum; en það er ekki einungis við Geysi, sem slíkt hús þyrfti að vera, heldur einnig víðar. Á leiðinni austur frá Þingvöllum til Heklu þyrftu að vera gistihús með hæfilegu dagleiðamillibili, t. d. í Biskupstungum austast og svo í Gnúpverjahreppi. Slík gistihús eru því miður ekki til. Þetta veldur mjög tilfinnanlegum vandræðum fyrir ferðamenn og íbúa sveitanna.

En úr því að húsið var rifið og flutt, verð jeg að halda því fram, að því hafi verið vel varið, þar sem það, var notað hálft í hvoru til opinberra þarfa. Það var sem sje selt til læknisseturs og sjúkraskýlis í Laugarási, en það eru einmitt samskonar byggingar, sem eru venjulega styrktar af því opinbera. Ættu menn að íhuga, að þetta er mikil mýking í málinu, og ólíkt verra, hefði húsið verið selt einhverjum prívatmanni. Þetta veit jeg, að háttv. þm. muni fallast á.

Jeg skal játa, að um húsmunina gegnir öðru máli heldur en um húsið sjálft. Það getur verið, að þeir hafi verið seldir of ódýrt: mjer er ókunnugt um það, og skal því ekkert um það segja. Þessir húsmunir munu hafa verið seldir hjeraðslækni, og má hann, sem er ungur kandidat, fult svo vel njóta þeirra fyrir sanngjarnt verð sem einhver annar. En víst er um það, að læknishjeraðið á þar engan hlut að máli. Jeg hygg, að stjórnin hafi ráðstafað þessum munum betur og sanngjarnlegar, þó að hún hafi ef til vill orðið af nokkrum skildingum, miðað við hæsta verð, sem kynni að hafa fengist á uppboði, heldur en mörgu öðru, sem ekki hefir verið minst á hjer. Mætti þá t. d. drepa á hrossahald stjórnarinnar, sem hefir reynst dýrt og virst með öllu óþarft.

Þá var drepið á annað mál, sem á vettvang austur í Árnessýslu, en það er um Eyrarbakkaspítala. Þegar fjárlögin voru afgreidd með 80000 kr. fjárveitingu til spítalans, skal jeg taka það fram, að jeg greiddi einungis atkvæði með þessum lið, en talaði alls ekkert fyrir honum. Þessi fjárveiting var borin fram til sigurs af alt öðrum mönnum en þingmönnum Árnesinga, þó að hinn fyrirhugaði spítali ætti stað í kjördæmi þeirra.

Hæstv. stjórn hefir að svo vöxnu máli neitað að greiða þessar 30000 kr., sem eftir standa af fjárveitingunni. Það má vel vera, að stjórnin hafi altaf miðað fjárveitinguna við, að sýslufjelagið legði fram 40000 kr. En mjer er vel kunnugt um afstöðu sýslunefndarinnar til spítalamálsins frá upphafi. Fyrst þegar umtal reis um þessa spítalabyggingu, var jeg settur sýslumaður í Árnessýslu, og síðar átti jeg sæti í sýslunefndinni um eitt skeið.

Þegar fyrst var farið fram á, að spítali yrði reistur þarna, og sýslunefndin hjet stuðningi sínum, var miðað við lítið sjúkrahús eða skýli, í mesta lagi með 12 rúmum. Þetta sjest í fundargerð sýslunefndar, og þó að oft hafi verið rætt um málið síðan, hefir jafnan verið haldið fast við það skilyrði um stærð spítalans. En nú er spítalinn hálfkominn upp, með alt annari gerð en gert var ráð fyrir og meira en helmingi stærri, alt að 30 rúmum, án þess að sýslunefndin veitti á nokkurn hátt nokkru sinni samþykki sitt til styrktar svo ofvöxnu fyrirtæki. Hún var altaf á móti honum svona stórum.

Maður fær nú víða að heyra það, og verður því miður ekki mótmælt, að fjárhagur sýslufjelags Árnesinga sje ekki glæsilegur, og ætti því fremur að vera auðskilið, að sýslunefndin vill og hefir altaf viljað gæta varúðar, er um fjárframlög til þessarar spítalabyggingar ræðir. Það verður því að takast skýlaust fram sem verulegt atriði, að það er ekki sýslunefnd Árnesinga, heldur spítalanefnd Eyrbekkinga að kenna, að ráðist hefir verið í svo stórt sem raun er á. Sú nefnd er sá eini rjetti aðili þar eystra, sem komið hefir spítalamálinu í þetta horf. Hún ber ábyrgðina, en ekki sýslufjelagið. Og ekki er hægt að liggja sýslunefndinni á hálsi fyrir það, að hún neitar að greiða þá upphæð, sem er í algerðu ósamræmi við loforð hennar og skyldur.

Þá kemur þetta spursmál, sem hæstv. forsrh. (SE) mintist á, hvað ætti að gera, ef sýslunefndin vildi ekki borga 40 þúsundirnar. Á þá að heimta fjeð til baka, sem þegar er greitt? Er það mögulegt? Jeg hygg ekki. Mestur hluti þess er nú orðinn að eyðslufje, sem ekki verður skilað aftur, komið í hússkrokkinn. Það gladdi mig að heyra þá skoðun koma fram áðan, að úr því að svo miklu fje væri búið að verja til þessa húss, þá væri rjett að láta það verða til nytsemdar. Vona jeg fastlega, að ríkisstjórnin sjái um, að gert verði svo gott úr sem kostur er á.

Þetta, sem jeg hefi nú sagt, er til þess að girða fyrir allan misskilning um. hvernig afstöðu Árnessýslu er varið í þessu máli. Jeg skal játa, að það hefir komist óskipun á þetta spítalamál, sem veldur því, að það er komið í svona ilt horf, en það er ekki Árnesingum yfirleitt að kenna nje sýslunefnd þeirra; hún hefir altaf áskilið, að húsinu yrði komið upp skuld- laust og ekki stærra en svo, sem jeg hefi fyr skýrt frá, og ekki lofað fjárstyrk úr sýslusjóði fyr en ástæður leyfðu. Gerðir sýslunefndarinnar eru þessu til sönnunar. Árnesingar hafa því að engu leyti vanrækt skyldur sínar í þessum efnum.