07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. þm. Borgf. (PO) gat þess, að hann hefði nýlega verið uppi í stjórnarráði og sjeð. hve nær símskeyti um ábyrgð fyrir lántöku Reykjavíkur var sent, er jeg gat um áðan. Kvað hann það hafa verið 20. nóv. Þetta getur verið rjett hjá háttv. þm., að mig hafi mismint um þetta. Það eru svo mörg símskeyti send úr stjórnarráðinu daglega, að ekki er að búast við, að maður muni upp á dag, hve nær þau eru öll send. Það er annars svo um mig, að eins og jeg met lítils ranglátar ásakanir, eins ljúft er mjer að játa, ef um einhverja yfirsjón er að ræða af minni hendi. Og skal þá einmitt játa það, að jeg tel það yfir sjón af stjórninni, að hafa ekki leitað heimildar þingsins fyrir þessu — enda skal það gert.

Að því er snertir spurningu háttv. 1. þm. Skagf. (MG) um það, hvaða heimild stjórnin hafi haft til að gefa eftir þetta fje, sem hann gat um, þá vil jeg beina til hans þeirri gagnspurningu, hvaða heimild stjórnin hafi yfirleitt til að gera þetta eða hitt. (MG: Það á að vera nauðsynin, sem heimilar það). Já, hjer var einmitt um slíka heimild að ræða. Svo leit stjórnin á, og því gerði jeg þetta — auðvitað upp á mína ábyrgð. Jeg veit ekki til þess, að ríkisstjórnin geti yfirleitt haft aðra aðferð en þessa, að gera hitt og þetta á sína ábyrgð. Og jeg býst við, ef farið væri að rannsaka hinar og þessar upphæðir, sem þessi hv. þm. veitti á sína ábyrgð meðan hann var fjármálaráðherra, þá finnist einhver þar á meðal, sem er ægilegri og ónauðsynlegri en þessi, annars hefði stjórnin árin 1920–21 ekki farið 51/2) miljón fram úr fjárveitingu. Jeg hefi enn þá ekki viljað ráðast í slíka leit, en jeg veit engu að síður, að þar eru mýmargar heimildarlausar fjárveitingar, sem eru meiri ábyrgðarhluti en þessi, sem hjer er um að ræða, ekki stærri en hún er.

Þá vil jeg víkja að háttv. 2. þm. Skagf. (JS) með þeim formála að benda á það, hve ójafn leikur hjer er háður. Þm. búa sig undir þær spurningar og aðfinslur, oft nauðaómerkilegar, eins og spurningin um Hólabúið, er þeir bera að stjórninni, og koma jafnvel stundum með skrifaðar ræður, en stjórnin er með öllu óviðbúin. Hún hefir ekki hugmynd um það, að hverju hún muni spurð í það og það skifti, og getur því ekki búist til svara. Jeg veit, að þetta eru engin einsdæmi um þessa stjórn, sem nú situr, en þó hefir þetta ekki altaf verið svona. Jeg man t. d., að á einu þingi, 1907, í stjórnartíð Hannesar Hafsteins, þá mœtti jeg sem landritari til svara fyrir stjórnina á eldhúsdeginum, og gat jeg þá samstundis svarað öllu, sem að var spurt. Jeg man, að Magnús heitinn Stephensen kom á eftir til mín og furðaði sig á því, hve greiðlega mjer hefðu gengið svörin. Og sagði jeg honum þá ástæðuna, að mjer hefði verið sagt fyrir fram af því, að hverju jeg mundi spurður. Dáðist hann mjög að þessari nærgætni, en kvaðst ekki hafa átt henni að fagna um sína tíð. Jeg hefi sagt þetta til að benda háttv. deild á, að heppilegt myndi að taka upp þessa venju, að tilkynna stjórninni nokkru fyrir, að hverju hún muni spurð. Þá fyrst geta háttv. þm. með rjettu krafist ítarlegra svara af henni, og það hlýtur þó að vera meiningin, er spurt er, að fá svar, en það er ekki hægt að búast við slíku, ef ráðherra er ekki undir það búinn að svara í einhverju ómerkilegu máli, sem ef til vill hefir gerst fyrir löngu, eins og er um þetta Hólabúsmál, sem auðsjáanlega er kosningarbeita, sem hv. þm. (JS) ætlar að fleyta sjer á í haust.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) spurði, hvað hefði gengið stjórninni til að leggja símalínu að Staðarfelli. Henni gekk það sama til og fyrverandi stjórn að leggja síma til Þorlákshafnar. Hjer er fylgt eldri praksis. Það, sem aðallega kom henni til að gera þetta, var að með því voru sparaðar 4000 krónur fyrir ríkissjóðinn. Úr því að Staðarfell er nú eign landsins og líklegt er, að þar verði bráðlega stofnaður skóli, þá áleit jeg það ekki áhorfsmál að leggja um leið þessa aukalínu og spara með því þetta fje. Þetta var bara sjálfsagður búhnykkur fyrir ríkissjóðinn, að gera þetta nú þegar. Jeg gæti annars farið inn á fleira en símalínuna til Þorlákshafnar, sem fyrverandi stjórn hefir leyft sjer, óátalið af háttv. 2. þm. Skagf. (JS), en tækifæri mun til þess síðar, þótt jeg sleppi því nú.

Þá spurði háttv. 2. þm. Skagf. (JS) að því, hvað hafi valdið því, að skólastjórinn á Hólum hafi sagt búinu lausu, og hvers vegna ekki hefði verið leitað samninga við hann. Jeg get nú ekki vitað það, hvers vegna skólastjórinn hafi sagt lausri stöðu sinni, sem bústjóri, en jeg get ímyndað mjer, hvað honum hafi gengið til, og það mun háttv. þm. líka vera fullkunnugt um, sjálfsagt kunnugra en mjer. Skólastjórinn hafði mælst til þess, að keypt væri af honum kvikfje og annar bústofn, sem hann átti í búinu; en stjórnin neitaði því. Til þess var engin fjárheimild, og jeg sá ekkert frá hendi fyrv. atvinnumálaráðherra að lofað hefði verið í þá átt. Og þar sem engin heimild var fyrir slíku, býst jeg ekki við, að hægt sje að víta mig fyrir, að jeg ljet þetta ógert og framkvæmdi ekki það, sem var heimildarlaust. Því að hefði jeg gert það, vænti jeg, að heyrst hefði hávært hljóð frá sama háttv. þm. (JS); hann hefði þá spurt um heimildina og vítt mig fyrir verkið, og ekki dregið úr.

Þá spurði háttv. þm. (JS), hvort jeg hefði gefið skólastjóra kost á rekstri búsins, þegar komið var til tals að byggja Hóla. Rjett fyrir þingbyrjun bauðst ungur og efnilegur maður að vestan til að taka búið á leigu. Áður en nokkuð var af ráðið um jörðina, sendi jeg honum símskeyti með fyrirspurn um, hvort hann hjeldi enn fast við uppsögnina, en fjekk ekkert svar upp á það, og varð jeg því að líta svo á, að þögnin væri sama sem samþykki. Enda þótt stjórnin gæti haldið sjer við uppsögnina, ætlaði hún samt að gefa skólastjóranum enn einu sinni kost á búsrekstrinum áfram, ef hann hefði kært sig um, og sýnist þetta ekki vera harðneskjuleg meðferð. heldur hið gagnstæða. Hafi því í fyrirspurn háttv. þm. átt að felast ásökun um, að stjórnin hefði farið illa með skólastjórann, þá mótmæli jeg því algerlega, og jeg skal enn geta þess, að hann bað um horn af jörðinni — Grundargerði held jeg það heiti — til afnota, og var honum veitt það og fleiri ívilnanir. Sjálfur hafði hann sagt upp forstöðu búsins, og það ekki á kurteisasta hátt, en fjekk þó þessi skilyrði uppfylt.

Þriðja spurning háttv. 2. þm. Skagf. (JS) var sú, hvers vegna jeg hefði ekki leitað ráða til Búnaðarfjelags Íslands um þetta mál. Það urðu ekki margir til að biðja um jörðina; þó var komin fram umsókn frá einum álitlegum ungum manni, og var honum veitt ábúðin. Síðar heyrði jeg, að einhver annar hefði hugsað til að sækja, en þá var það orðið of seint. Má vel vera, að það hefði verið rjettara að bera þetta mál undir Búnaðarfjelagið, en jeg veit ekki til, að mjer hafi borið nein skylda til þess. Og ekki hefi jeg orðið var neinnar þykkju frá forseta Búnaðarfjelagsins út af því.