07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil leyfa mjer að þakka háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fyrir það, hversu vel og sanngjarnlega hann hefir tekið í þetta mál, og hygg jeg lýsingu hans á því alveg rjetta. Ný gögn eru líka altaf að koma fram. Nú í þessum svifum rekst jeg t. d. á skeyti, sem jeg hefi sent sýslumanninum í Árnessýslu, og vil jeg leyfa mjer að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til viðtals umbiðst í dag símleiðis yfirlýsing yðar um útborgun til spítala Eyrarbakka frá sýslunni að upphæð svarandi til helmings ríkissjóðsstyrksins“.

Annað skeyti sendi jeg daginn eftir, svo hljóðandi:

„Ákveðið svar óskast þegar símleiðis um það, hvort greitt verður af sýslunni til Eyrarspítala 40 þúsund mót áttatíu þúsund úr ríkissjóði“.

Þessu svaraði sýslumaður með eftirfarandi símskeyti:

„Sakir þess að sýslunefnd hefir ekki haft Eyrarspítalamálið til meðferðar síðan 1920, er ekki unt að gefa ákveðnara svar en felst í samþykt aðalfundar það ár, enda það nægilegt, og má ekki efa, að sýslunefnd efni öll heit sín. Bið athugað, að Eyrarbakkahreppur verður að skoðast laus við spítalann, ef ríkisstyrkur verður ekki greiddur“.

Mundi sýslumaðurinn hafa svarað á þessa leið, hefði honum ekki verið fullkunnugt um það, hvaða skuldbinding til fjárgreiðslu hvíldi á sýslunni? Svarið er raunar nokkuð loðið. En á stjórnin ekki heimting á því, að embættismenn landsins svari stjórninni skýrt og án nokkurra undirmála ?

Það er kunnugt, að í byrjun leit málið þannig út, að sýslunefndarmenn söfnuðu atkvæðum til að fá oddvita til að kalla saman fund og spítalanefndin sneri sjer sömuleiðis til mín í þessu skyni og bað mig að ýta undir oddvita sýslunefndar að kalla saman fund, svo hægt væri að fullnægja þeim skilyrðum, er stjórnin gerði kröfu til. Í símskeyti stjórnarráðsins, sem oddviti ber fyrir sig, eru að vísu ekki nefndar 40 þús. kr. frá sýslunefndinni, en öllum var þó kunnugt, að sú greiðsla var undirskilin.

Það er rjett athugað, að þetta mál muni ekki græða mikið á þessum umræðum hjer í dag. Það er vandræðamál, eins og jeg tók fram í upphafi, og væri nauðsynlegt, að einhverja leið væri hægt að finna út úr því.