07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg ætla að byrja með að óska þess, að hæstv. fjármálaráðherra (MagnJ) gefi skýlausa yfirlýsingu um það, að hann ætli ekki að halda lengra út á þá braut að veita sjálfum sjer fje úr ríkissjóði án allrar heimildar. Jeg óska þess einnig, að hann lýsi því yfir, að hann ætli að greiða aftur þessa peninga. Upphæðin er ekki há, en fordæmið er ilt og á ekki að líðast. Ef haldið verður áfram á þessari braut, getur það komið fyrir, að ábyrgðarlitlir ráðherrar leigi heil hús handa sjálfum sjer, og það án þess að spyrja samverkamenn sína um það, hvað þá þingið.

Enn fremur vil jeg spyrja ráðherrann (MagnJ), hvort það hafi verið í erindum stjórnarinnar, sem hann fór, er hann fór til útlanda á síðastliðnu sumri, meðan forsætisráðherra (SE) var þar. Og ef svo ótrúlega vill til, að hann hafi farið í erindum stjórnarinnar, þá vildi jeg vita, hver þau erindi hafi verið.

Þá kem jeg að sölu Geysishússins, og kemur víst flestum saman um, að sú stjórnarathöfn sje lítt verjandi. Ýmsir, sem höfðu áhuga á því, að gistihús væri áfram á staðnum, vildu bjóða meira fyrir húsið en það var selt öðrum fyrir. Sömuleiðis er það á allra vitorði, að innanstokksmunirnir voru seldir langt fyrir neðan sannvirði. Það gengur sú saga, sem hægt mun að færa sönnur á, að kaupandinn, með því að selja lítinn hluta munanna, hafi getað greitt ríkissjóði andvirðið. Jeg vona, að hæstv. fjármálaráðherra láti ekki bíða lengi eftir svörum og skýringum.