07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg ætla fyrst að svara háttv. þm. Ísaf. (JAJ) og gefa honum skýlausa yfirlýsingu, en ekki þá, sem hann bað um. Jeg er sannfærður um, að ráðstafanir mínar hafa verið rjettmætar og jeg sje ekki, að þær þurfi að gefa neitt ilt fordæmi. Það er engin hætta á því, að ráðherrar fari síðar að leigja heil hús fyrir sjálfa sig, þó að eitt herbergi hafi verið leigt til stjórnarþarfa.

Háttv. þm. (JAJ) hjelt því fram, að jeg hefði getað látið forsætisráðherra eða sendiherra sinna erindum ytra og þurft að fara sjálfur. Þetta er hvorugt rjett, þegar af þeirri ástæðu, að báðir þessir menn voru hjer heima á Íslandi meðan jeg dvaldi í Kaupmannahöfn.

Þá kom hv. þm. (JAJ) að Geysishúsinu og átti þar samleið með hv. þm. Barð. (HK). Jeg get því svarað þeim báðum í einu. Það var óþarfi af háttv. þm. Barð. (HK) að afsaka afstöðu sína til þessa máls, eða gera játningu — ranga þó — hjer framan í deildinni um hvatir sínar. En ummæli hans sýna, að hann hefir tilfinningu fyrir því, að hann og hans fylgdarpeð vinna hjer óheilt verk og lítilmannlegt og í alt öðrum og verri tilgangi en þeir láta í veðri vaka. Þetta mun koma á daginn og „skal þess bíða“. Yfirleitt þurfa þeir ekki að afsaka það, hverjum vopnum þeir beita gegn mjer, því aursletturnar lenda eingöngu á þeim sjálfum; jeg hefi enga tilhneigingu til þess að gjalda líku líkt í því efni. Hinu kann jeg síður, að samherjar mínir tefli þremur peðum af þessu tægi fram til þess að vega aftan að mjer, og mun jeg því snúa mjer við eftir því.

Háttv. þm. (HK og JAJ) gerðu mikið úr innanstokksmununum í Geysishúsinu, og til þess að þeir renni ekki blint í sjóinn með það, þá skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lista yfir þessa muni. Jeg skal lesa hægt, svo að þeir geti skrifað upp það helsta. Listinn hljóðar þannig:

„Skrá yfir búshluti og innanstokksmuni, sem geymdir eru frá síðastliðnu sumri í húsi ríkissjóðs við Geysi:

82 grunnir diskar, 66 djúpir diskar, 50 eggjabikarar, 12 ávaxtaskálar, 4 kartöfluföt, 22 brauðbakkar, 32 kökudiskar, 1 kökufat, 2 glerkönnur, 6 leirkönnur, 2 sósurjómakönnur, 74 vatnsglös, lítil 46 vatnsglös, stór, 10 föt, stór (leir), 8 föt, lítil, 1 fat, stórt (em.), 1 leirskál, stór, 3 tepottar, 5 tesigti, 1 kjötkvörn, 1 hakkajárn, 2 skurðarbretti, 2 blikkbalar, 1 búrhnífur, 2 smjörspaðar, 1 fiskspaði, 1 trjesleif, 3 ausur, 1 pönnukökuhnífur, 1 panna, 1 kökuform, 2 þeytarar, 1 kjötöxi, 1 rifjárn, 1 sósusigti, 3 dósahnífar, 7 pottar, 1 mjólkurfata, 1 olíuofn, 2 kaffikönnur (önnur stór), 1 ketill, 2 prímusar, 10 leirskálar, 25 bollapör, 4 þvottastell (leir), 5 þvottastell (em.), 9 þvottaskálar, 10 vatnsfötur, 8 öskubakkar, 20 smádiskar (gler), 2 smáföt, 24 sængurver, 24 koddaver, 24 lök, 4 beddar, 2 vattteppi, 6 vattdýnur, 48 serviettur, 3 borðdúkar, 36 handklæði, 36 þurkur, 6 sængur, 18 koddar, 54 rúmteppi, 3 fataburstar, 3 skóburstar, 2 áburðarburstar, 4 búnt eldspýtur, 8 ediksglös, 5 saltker, 24 borðhnífar, 24 gaflar, 24 skeiðar, 24 dessert skeiðar, 24 dessert gaflar, 12 dessert hnífar. 24 teskeiðar, 1 blómvasi, 5 speglar. 3 kjötgaflar, 4 járnrúm, 2 trjerúm, 4 þvottaborð, 4 þvottaborð með grind, 2 borð, 1 divan, 1 divanteppi, 1 fatasnagi, 1 fataskápur, 1 þvottaborð með marmaraplötu, 1 spegilborð, 5 stólar (stoppaðir), 27 birkistólar, 13 stangdýnur, 21 stígvjelaþræll, 1 tappatogari, 29 vatnsflöskur, 1 fægiskúffa, 1 fægikústur, 5 gólfmottur, 2 gólfskrúbbur, 1 gólfkústur, 1 lakkdós og kústur, 1 hamar, 1 sög, 1 öxi, 1 lóðhamar, 1 nafar.

Skráin samin af Jóni Jónssyni frá Flatey, ráðsmanni við Geysi“.

Þá er nú listinn búinn, og geta háttv. fyrirspyrjendur skemt sjer við að rýna í hann fyrst um sinn.

Tilboðin, sem komu í þetta, voru tvö, jafnhá, og var tilboðinu frá Laugarási tekið, því að ekki þótti tiltækilegt að flytja þetta hingað suður. (HK: Var þetta ekki selt prívatmanni?). Maðurinn, sem keypti, var læknirinn við sjúkraskýlið.

Þá var háttv. þm. Barð. (HK) að tala um, hvers vegna hærra tilboðinu í Geysishúsið hefði ekki verið tekið. En þar um er háttv. þm. því til að svara, að þetta yfirboð, sem var 500 kr., kom ekki fyr en svo seint, er samningar við læknishjeraðið um kaup á húsi þessu voru gerðir, enda bar tilboðið með sjer, að það var gert með vitund um það, og hefði því átt að sendast læknishjeraðinu, en ekki stjórninni.

Háttv. þm. hefir stundum nefnt húsið „gistihús“. Mjer vitanlega hefir þarna aldrei neitt gistihús verið og engin heimild til að fara að reka þarna „ríkishótel“. Jeg veit ekki betur en að húsið lægi þarna eiginlega í algerðu reiðileysi. Enn fremur skal jeg taka það fram, að eignarheimild ríkisins fyrir húsinu var ekki í lagi. Það hafði verið selt eftir fyrri konungskomuna. 1908, að mig minnir, án þess að þeir samningar nokkurn tíma hafi verið kláraðir. Var því frekar um kröfu en eignarheimild að ræða. Einnig, lágu fyrir meðmæli frá landlækni, um að vera læknishjeraðinu innan handar með að eignast húsið, því að annars hefði sjúkraskýlið ekki orðið reist í bráð. Jeg sje því ekki annað en að farið hafi verið rjett að þessu máli.