07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Sigurðsson:

Hæstv. atvrh. (KIJ) bar sig mjög illa, er hann byrjaði að svara fyrirspurnum mínum, því að hann taldi, að það væri að vega að vopnlausum mönnum, er verið væri að spyrja hæstv. stjórn. Þetta þykir mjer of mikill barlómur; við, sem höfum verið að spyrja, höfum spurt um stjórnarráðstafanir, sem við þekkjum ekki nema af afspurn, en hæstv. stjórn hefir að sjálfsögðu rannsakað og er nýlega búin að afgreiða; geta því allir sjeð, að hún hlýtur að standa miklu betur að vígi en við, sem erum nýkomnir frá búum okkar. Út af þessum launum sínum tók hæstv. ráðherra það fram, að erlendis væri venja, að slíkar fyrirspurnir sem þessar kæmu fram nokkru áður en þeim ætti að svara, til þess að stjórnin gæti verið undirbúin. Þetta hygg jeg ekki vera rjett; á erlendum þingum. t. d. enska þinginu, verður stjórnin að vera viðbúin að svara hvenær sem er.

Við fyrstu spurningu minni, um heimild stjórnarinnar til að láta leggja símalínuna til Staðarfells, fjekk jeg það svar hjá hæstv. ráðherra, að það hefði verið sama heimild og fyrverandi stjórn hefði haft til þess að láta leggja línuna til Þorlákshafnar, og hefði jeg sem fylgismaður hennar ekkert fundið að því. Bauðst hann jafnframt til að koma með fleiri dæmi, þessu lík, frá tíð fyrverandi stjórnar, sem jeg hefði verið samþykkur. Ef hæstv. stjórn hefði haft sömu heimild og fyrv. stjórn til þess að leggja Þorlákshafnarsímann, þá væri hún betur á vegi stödd í þessu máli en hún er, því Þorlákshafnarsíminn var í símalögunum. En það get jeg sagt hæstv. ráðherra, að hann veit ekkert um, hvort jeg hefi verið samþykkur öllum gerðum fyrv. stjórnar, þó að jeg hafi ekki gert það að umtalsefni á hinum svokallaða eldhúsdegi.

Það eina, sem jeg því fjekk, sem átti að heita svar við fyrirspurninni, var, að við það að taka upp þessa línu nú hefði sparast um 4 þús. kr. Það er vitanlega gott og blessað, ef svo er, og ætti jeg síst að lasta hæstv. stjórn fyrir sparnað. En þá vaknar hjá mjer önnur spurning, og hún er sú, hvort það muni líka vera sparnaðarráðstöfun hjá hæstv. stjórn að láta staurana til línunnar Fáskrúðsfjörður — Reyðarfjörður liggja eitt til tvö ár enn þá. Þeir eru nú búnir að liggja á þriðja ár fyrir austan, og er ekki ólíklegt, að þeir fari að feyskjast. Hefði því ekki verið eins hyggilegt að láta leggja þessa línu, sem er 2. flokks lína og í símalögunum? Jeg er ekki í minsta efa um það, og verð því eindregið að halda því fram, að slík ráðstöfun, sem þessi, sje brot á rjetti þeirra hjeraða, sem komin eru með síma inn í símalögin, hvort heldur sem hún er gerð af fyrverandi eða núverandi stjórn, því til hvers eru þá ákvæði símalaganna, ef ekkert má fara eftir þeim. Og hjer stendur einmitt svo á, að upp er tekin lína, sem ekki er í símalögunum og engin fjárveiting er til, hvorki í fjárlögum eða fjáraukalögum, og engin ósk er um frá viðkomandi hjeraðsbúum. Því jeg veit, að háttv. þm. (Dala. (BJ) hefði ekki látið undir höfuð leggjast að bera slíkar óskir fram, ef þær hefðu einhverjar verið til. Lítur því út fyrir, að þetta hafi ekki einu sinni verið áhugamál heima í hjeraðinu, heldur knúð fram af ofurkappi einstakra manna, þvert ofan í lög og gildandi reglur. Síðasta þing feldi niður fjárveitingu til allra símalína, og sparnaðurinn á því sviði gekk svo langt, að jafnvel sumir þingmenn greiddu atkvæði á móti línum í sínum eigin hjeruðum, og var jeg einn af þeim. Bæði fjárveitinganefndir og meiri hluti þingmanna sýndu hæstv. stjórn það traust að leggja það í hennar vald, hvort eða hverjar línur skyldu lagðar á þessu ári, og vitanlega var það samróma álit allra, að ef nýjar línur yrðu lagðar, þá gætu ekki aðrar línur komið til greina en þær, er stóðu í frv. stjórnarinnar og voru feldar niður. En hvernig hefir hæstv. stjórn farið með það vald, er henni var gefið í þessu efni? Því er fljótsvarað; hún hefir misbrúkað það, eins og áður er sagt, og því gersamlega brugðist þeim vonum, er jeg og aðrir gerðu sjer um framkvæmdir hennar á þessu sviði. Tillögur fjárveitinganefndar nú, um að taka símalínurnar upp í fjárlögin, eru fyrst og fremst bygðar á þessari reynslu; nefndin mun ekki hafa treyst sjer til að leggja það til, að slíkt einræði verði veitt hæstv. stjórn aftur, sökum þeirrar reynslu, sem þegar er fengin.

Annað atriðið, sem jeg óskaði svars hæstv. atvrh. (KIJ) um, var um byggingu skólabúsins á Hólum.

Hæstv. ráðherra gat þess, að skólastjóri hefði farið fram á, að landið keypti nokkurn búsauka og að fyrverandi atvinnumálaráðherra hefði veitt ádrátt um það, Það getur ekki talist ástæðulaust, þó að skólastjóri hafi farið fram á þetta, því að búið er lítið, og geta allir sjeð, hvort 4 brúkunarhross. t. d., sjeu ekki of lítið fyrir búið. Auk þess sem líka hefir verið mjög dýrt að hleypa upp búi.

Hæstv. ráðherra gat þess, að þessi búsauki myndi hafa kostað um 3–4 þús. kr., og ásaka jeg hann ekki fyrir það, þó að hann gæti ekki tekið þessa kröfu til greina þegar í stað. En jeg tel það ámælisvert að leitast ekki eftir frekari samningum við skólastjórann. En hæstv. ráðherra taldi það ekki hafa verið skyldu sína. En það verð jeg aftur að segja honum, að ef enginn gerði annað en það, sem lagaskyldan byði, þá yrði margt ógert, og situr illa á ráðherra að viðhafa slík ummæli. Og um þetta mál tel jeg, að alveg hafi verið sjálfsögð skylda að leita frekari samninga en gert var, því að það skiftir alls ekki svo litlu, hvernig búskapurinn á bændaskólunum er rekinn. Hefði stjórninni líka átt að vera innan handar að leita til Búnaðarfjelags Íslands eða landbúnaðarnefnda þingsins, þegar þingið var einmitt að koma saman um það leyti, sem búið var leigt, því að hún hefir oft leitað til þingsins um ómerkilegri mál.

Þegar breyta skal einhverju, eru það tvær spurningar, sem liggja fyrir. Fyrst. hvort breytingin sje til bóta, og ef það er vafasamt, þá er hin spurningin sú, hvort sá fjárhagslegi hagnaður, sem af henni kann að verða, vegi á móti þeim óþægindum, sem af henni kann að leiða. Ef hvorugt er fyrir hendi, hvorki umbótin nje fjárhagslegur gróði, er breytingin órjettmæt. Skal jeg nú leiða rök að því, að hvorug þessi ástæða lá fyrir.

Aðalvinningurinn við það skipulag, sem nú er á Hvanneyri og verið hefir á Hólum, að skólastjóri sje jafnframt bústjóri, er fyrst og fremst sá, að honum gefst tækifæri til að sýna í verkinu það, sem hann kennir. Og er eitt vel unnið verk meira virði en 5–10 fyrirlestrar. Einnig er skólastjóri stöðu sinnar vegna skyldugur að reka fyrirmyndarbú og tilraunabúskap, eftir því sem ástæður hans frekast leyfa, í búnaðarskólunum eða í sambandi við þá á að gera tilraunir með vinnusparandi vjelar og önnur praktisk viðfangsefni, og hverjum ætti að vera betur treystandi en skólastjórum bændaskólanna að afla innlendrar reynslu handa okkur bændunum? Því að okkur vantar hana tilfinnanlega á fjölmörgum sviðum. En bændur eru því miður fæstir svo efnum búnir, að þeir geti lagt út í þann kostnað, sem slíkar tilraunir hafa í för með sjer; reynslan er að vísu góður kennari, en hún er líka dýr kennari. Eru þá líkur til, að bústjóri, óviðkomandi skólanum, inni þessi hlutverk af hendi eins og skólastjóri myndi gera. Jeg segi nei. Skólinn er honum alveg óviðkomandi og bústjóri hefir engar skyldur við hann. Má því ganga út frá því með fullri vissu, að allar búnaðartilraunir og öll nýbreytni verði lögð á hilluna og búskapnum hagað einungis eftir þeirri grundvallarreglu að græða sem mest fje, en ekki þekkingu og reynslu, sem verður þó að vera meginatriði fyrir slíkan skóla. Verða því allar tilraunir, sem byrjað kann að vera á, kyrktar í fæðingunni um óákveðinn tíma og komið á fullkominni kyrstöðu.

Maður sá, sem veitt hefir verið búið á Hólum, getur vel verið duglegur, — jeg þekki það ekki — en jeg geri mjer enga von um, að hann sjái sjer fært að reka búið eins og vera ber um skóla- og tilraunabú; það mundi reynast honum fjárhagslegt tjón, en í það má skólastjóri ekki horfa, enda hefir hann þá laun sín við að styðjast.

Jeg skal svo að endingu geta þess að töluverð hreyfing er nú um það að setja upp fyrirmyndarbú austur í Árnessýslu, og því er einmitt fylgt fram af sumum stuðningsmönnum stjórnarinnar í Framsóknarflokknum. En það finst mjer allundarlegt, ef hæstv. stjórn er í vitorði um þetta og styrkir það, á sama tíma, sem hún sviftir okkur Norðlendinga hinum litla vísi, sem við höfðum af tilraunabúi.

Nú hefir hinn nýráðni bústjóri tjáð hæstv. stjórn, að hann treystist ekki til að flytja í bæinn á Hólum. nema því aðeins, að talsverðu fje yrði varið þar til aðgerðar. Það virðast því mestar líkur til, að greiða verði eins mikið fje- eða meira úr ríkissjóði en þótt keyptur hefði verið búsaukinn, sem skólastjórinn fór fram á. Jeg get því ekki komið auga á nokkrar málsbætur hæstv. atvrh. (KIJ) til handa í þessu máli. Skólanum er gert tjón og ríkissjóði sömuleiðis með þessari flaustursráðstöfun, og hygg jeg, að flestir Norðlendingar muni gjalda hæstv. stjórn óþökk fyrir.