07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg held, að háttv. þm. Barð. (HK) hafi ekki heyrt vel til mín í dag, er jeg mintist á, hversu langt frá því að vera auðvelt það væri fyrir stjórnina að svara ýmsum spurningum viðvíkjandi skjölum og þess háttar án þess að hafa nokkurn fyrirvara. Jeg tók þá fram, að slíkar óviðbúnar fyrirspurnir væru ekki praksís í öðrum löndum, nema ef vera kynni í Danmörku. En í Englandi er það t. d. ekki praksis; það veit jeg. Þar kemur ekki fyrir, að lögð sje fyrirspurn fyrir ráðherra, nema hún hafi áður verið prentuð. Enda segir þetta sig sjálft. Svo framarlega sem þingmenn vilja fá svör við fyrirspurnum sínum, og það hlýtur þó að vera meiningin, þá er það ekki altaf hægt og aldrei vandalaust fyrir ráðherra að gefa þau þegar í stað, og það er ekki von á því, að þeir muni út í æsar það, sem stendur í gömlum skjölum. Annað er það, að þótt einhverjum þm. þyki þetta og þetta merkilegt mál, einkum ef það snertir kjördæmi þeirra, getur það verið ómerkilegt í augum ráðherra. Með þessu hefi jeg þá líka svarað háttv. 2. þm. Skagf. (JS) út af ummælum hans um þetta atriði.

Þá ætla jeg að snúa mjer að háttv. 2. þm. Reykv. (JB) Hann lagði fyrir mig tvær fyrirspurnir. Í fyrsta lagi, hvers vegna stjórnin hefði keypt kol frá Englandi síðastliðið sumar, í stað þess að fá þau hjá Landsversluninni. Honum fanst það skakt að farið og spurði, hvernig á því hafi staðið og hvað kostnaðurinn hafi verið mikill. Hvað því viðvíkur, að stjórnin hefði átt að fá kolin hjá Landsversluninni, þá get jeg í raun og veru verið honum sammála um það, en gallinn var sá, að hún hafði ekki heimild til þess að kaupa kol. Háttv. þm. man sjálfsagt, að á síðasta þingi komu fram tvær till., þar sem gengið er út frá, að Landsverslunin hafi ekki eftirleiðis sölu á öðrum vörum en hún hafði fengið rjett til einkasölu á. þ. e. tóbaki og steinolíu. Í umr. um það mál er skýrt tekið fram, að ekki sje ætlast til, að Landsverslunin hefði kola- og kornvöruverslun. Það gekst stjórnin undir. Sú leið var því útilokuð. Svo stóð á í júlí og í ágústmánuði, er kaupa átti kol handa ríkisstofnununum, þá kostaði hver smálest heimflutt 85 kr. Þetta þótti náttúrlega gífurlegt, og sendi því stjórnin fyrirspurn til allra kaupmanna, sem líklegastir þóttu til að geta útvegað kol með betri kjörum, um það, hvar þau reyndust ódýrust. Eftir talsvert umstang og trúkk fjekst loks tilboð frá kaupmanni einum hjer í bænum um að selja ríkinu kol á 60 kr. tonnið á staðnum. Þessi kjör voru stórum mun betri en hægt var annarsstaðar að fá, og keypti stjórnin því þegar 1060 tonn. Við flutning heim lögðust 2 kr. á hvert tonn, svo að hvert tonn heimfluttra kola kom til að kosta 62 kr. Kol þau, er skyldu fara til Vífilsstaða, tók Lagarfoss með til Hafnarfjarðar, að því er mjer hefir skilist aukreitis og án þess að sjerstakur kostnaður hafi orðið af þeim flutningi. Þá voru þau flutt þaðan til Vífilsstaða og kostuðu þangað komin 61 kr. pr. tonn. Með þessu kolaverði held jeg því fast fram, að landið hafi grætt mikið á þessari ráðstöfun stjórnarinnar, um 25 kr. á hverju tonni, og er því síður en svo, að hún sje ámælisverð fyrir, heldur þvert á móti. Hvað kolin sjálf snertir, þá hjetu þau „Large Yorkshire hard Steamcoals“ — ágæt kol og viðurkend af öllum, sem þau hafa notað. Með þessu hygg jeg, að jeg hafi svarað fyrri fyrirspurninni nægilega.

Þá fann sami háttv. þm. að því, að stjórnin hafi autoriserað kaupmenn, sem höfðu farið út í heim í eigin verslunarerindum. Jeg man að vísu eftir, að skömmu eftir að jeg tók við ráðherraembættinu í fyrra, kom einn merkasti kaupmaður þessa bæjar til mín og tjáði mjer, að hann ætlaði utan til þess að leitast fyrir um betri markað fyrir íslenskar afurðir. Sjálfur hefir hann altaf verslað með afurðir landsins. Hann sýndi mjer meðmæli, sem Pjetur heitinn Jónsson ráðherra hafði gefið honum árið áður, og höfðu þau ekki að geyma neina autorisation. Hann spurði mig nú, hvort jeg vildi ekki gefa sjer samskonar meðmæli, og af því að jeg þekti manninn að öllu því besta, sem vandaðan og duglegan mann, þá blandaðist mjer ekki hugur um að gefa honum þau. Sjerstaklega hafði hann ætlað sjer að komast fyrir, hvort hægt væri að flytja lifandi fje til Belgíu. Starf hans í því efni hefir ekki kostað landið einn einasta eyri.

Hvað snertir, að hann hafi sjálfur haft gagn af ferðinni, skal jeg ekkert um segja, því að jeg veit það ekki; en hafi svo verið, sem er ekki ólíklegt, þá hefir landið hafi það líka. Þar með tel jeg síðari fyrirspurninni svarað, svo sem þörf er á.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir aftur ítrekað þessar 2 spurningar, sem hann beindi til mín í gær, sjerstaklega út af Staðarfellssímanum. Hann sagðist ekki hafa fengið svar, en rifjar þó upp í ræðu sinni með mörgum orðum svör mín. Jeg lít svo á, sem margt sje óþarflegra framkvæmt en að leggja síma til staðar, er landið á og er sýslumannssetur, auk þess sem það verður væntanlega innan skamms skólasetur: en auk þess er þessi lagning uppfylling á gömlu loforði. Sýslumaðurinn í Dalasýslu sagði mjer, að hann hefði átt tal við Pjetur sál. Jónsson um þetta 1920, og hafi hann gefið málinu góðar undirtektir. Frekara vildi hann ekki fullyrða. Auðvitað hefir Pjetur sálugi sjeð það sama og jeg nú, að öll sanngirni mælti með því, að þessi lína væri lögð um leið og Króksfjarðarsíminn, sjerstaklega þegar við það má spara um 4–5 þús. kr. Hv. þm. gat þess, að nær væri að nota símastaura þá, sem nú lægju undir skemdum fyrir austan, án þess, að við þeim hafi verið hreyft í háa tíð, og hafi þannig verið borinn fyrir borð rjettur þeirra hjeraða, sem samkvæmt símalögunum hefðu þegar átt að hafa fengið síma. Það er að vísu leiðinlegt, að þeim línum hefir ekki enn verið komið upp, en fjárskortur hefir gersamlega hamlað því til þessa. En nú getur hv. þm. sjeð í fjárlagafrv., að mín meining er að koma þeim í framkvæmd, jafnvel á næsta ári. Jeg er ekki úrkula vonar um, að það takist. Háttv. sami þm. (JS) álítur, að jeg hafi verið of fljótur á mjer að semja við nýja ábúandann á Hólum. Það get jeg alls ekki viðurkent. Staðan var auglýst laus með löngum fyrirvara, en enginn gaf sig fram. Rjett fyrir þingbyrjun kom loks efnilegur maður til mín og bauðst til að taka að sjer búið. Jeg skýrði honum frá skilmálum öllum, og bauðst hann til að ganga inn á þá, en þóttist þó þurfa að fara norður fyrst til þess að skoða sig um á staðnum. Þá fjell heppileg skipsferð norður, og tók hann sjer þá far þangað. Það er rjett, að þing var þá að byrja, og hefði verið hugsanlegt að setja málið í þingnefnd. t. d. landbúnaðarnefnd. En einn hv. þm., 3. þm. Reykv. (JÞ. var um daginn að kvarta yfir því, með hve mörgum störfum stjórnin ónáðaði þingnefndir. Jeg gat að vísu ekki tekið það til mín, því að jeg legg það ekki í vana minn að snúa mjer til nefnda til að biðja þær um að aðstoða mig í embætti mínu. Jeg hefi aldrei gert það og aldrei komið í nefndir, nema eftir beiðni þeirra. En þetta sýnir, hversu skiftar skoðanir manna eru um þetta mál. Annar þm. segir, að stjórnin hafi átt að setja þetta mál í nefnd, en hinn, — og á það get jeg vel fallist, — að ekki beri að ónáða nefndir að óþörfu. (JS: Það er enginn vansi). Það er satt, en hvað segir þá háttv. 3. þm. Reykv.?

Þar sem sami háttv. þm. (JS) segir, að jeg hafi ekki tjáð mig skyldan til að leita samninga við skólastjóra, þá er það blátt áfram ósannindi. Því það hefi jeg aldrei sagt, en jeg sagði, að mjer hefði ekki verið skylt að bera málið undir Búnaðarfjelagið, og við það stend jeg.

Jeg þekki lítið til þess fyrirmyndarbús í Árnessýslu, sem háttv. þm. gat um. Jeg hefi heyrt, að menn hefðu í hug að stofna slíkt bú í sambandi við áveiturnar, en jeg hygg, að málið komist ekki skjótt í framkvæmd. Síst má draga þá ályktun af þeirri fyrirætlum, að það eigi að eyðileggja Hóla fyrir Norðurland á kostnað Sunnlendinga. Að endingu gat hv. þm. (JS) þess, að húsrúm væri svo lítið á Hólum, að nauðsynlegt væri að hressa upp á gamla bæinn. Jeg get ómögulega skilið, að húsakynni á Hólum sjeu svo lítil, að nokkur vandræði sjeu fyrir bónda að fá húsnæði, nema því aðeins, að kennarar heimti miklu stærri íbúð en þörf er á. Jeg held, að engin vandræði verði að þessu, ef menn vildu sýna dálitla tilhliðrunarsemi, en ef því er ekki að fagna, þá er náttúrlega öðru máli að gegna, og þá verður að taka til annara ráða, til þess að kennarar sýni tilhliðrunarsemi í húsaskiftingunni.

Annars hafði jeg hugsað mjer að skipa háttv. þm. sjálfan, fyrir hönd stjórnarinnar, til þess að vera við úttekt Hólabúsins í vor og afhenda það í hendur þessa nýja bónda, og treysti jeg honum fyllilega til að sjá svo um, að þeim nýja bónda verði trygt sæmilegt húsnæði.