09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Þar sem jeg sje engan úr hæstv. stjórn staddan hjer, þá vil jeg geta þess, að enda þótt jeg ætli mjer ekki í þessari framsöguræðu minni að snúa mjer mikið að hæstv. stjórn, þá hefði jeg þó talið betur viðeigandi, að hún hefði verið viðstödd, er 2. umr. fjárlaganna fer fram.

Það hefir nú lengi viljað við brenna, að vanþakklátt verk væri að sitja í fjárveitinganefnd, og býst jeg við, að háttv. þm. þykist ekki hafa mikið að þakka þeirri fjárveitinganefnd, sem nú er, fremur en venja hefir verið til áður. En jeg vil benda háttv. þm. á, að störf nefndarinnar hafa síst verið vandaminni nú en áður.

Það hefir gengið svo á undanförnum árum, að látið hefir verið í veðri vaka, bæði utan þings og innan, að háttv. neðri deild bæri ábyrgð á fjárlögunum og vald fjvn. væri orðið svo víðfaðma, að hún væri orðin nokkurskonar yfirstjórn, og að stjórnin þyrfti jafnan að styðjast við hana viðvíkjandi tillögum um fjárveitingar. Nefndin hefir nú auðvitað ekkert við því að segja, þótt stórt sje litið á hana, en henni hefir fundist, að hæstv. stjórn hafi oft og tíðum ekki veitt henni þá aðstoð, sem þörf var á. Margt er það, sem nefndin hefir þurft að fá betri upplýsingar frá frá hæstv. stjórn, og nefndin hefir sent ýms erindi til hæstv. stjórnar, en upplýsingar hafa verið af skornum skamti, sem hæstv. stjórn hefir veitt, og er það óheppilegt, því hún á oft hægt með að afla upplýsinga, og auk þess gæti það haft áhrif á nefndina að heyra álit hæstv. stjórnar á ýmsum málum, og stuðningur hennar getur haft mikið að segja fyrir nefndina.

Það má segja, að það er ekki sjerstakt vandamál fyrir hæstv. stjórn að skila fjárlögunum tekjuhallalausum. Jeg er ekki að segja það sjerstaklega til núverandi hæstv. stjórnar, en það hefir oft litið svo út, sem hæstv. stjórn hafi skotið inn eða klipið af upphæðum, einungis í þeim tilgangi að fá fjárlögin án tekjuhalla. Þær hafa treyst því, að fjvn. og Alþingi bættu úr aftur áður en fjárlögin væru samþykt, en þar með átti öllum vandanum að vera komið af stjórninni.

En hitt er líka óhætt að segja, að það er ólíkt meiri vandi fyrir fjvn. að taka við slíku fjárlagafrv., sem stendur alveg í járnum og því nær engar verklegar fram kvæmdir standa í. Og þar sem undanfarin ár hefir jafnan verið klipið af þeim, til þess að fá jöfnuð á fjárlögin, liggur í augum uppi, að erfitt er að halda þessari vanrækslu áfram. Nefndinni var því ljóst frá upphafi, að svo búið mátti ekki standa og að hún gæti ekki skilað frv. í sama formi, sem það kom frá stjórninni, nema auðið væri að hækka tekjurnar að mun. En aðalmarkmið nefndarinnar var þó að stuðla að því, að fjárlögin færu tekjuhallalaus eða tekjuhallalítil út úr deildinni.

Þetta kann að þykja undarlegur formáli fyrir tillögum nefndarinnar, sem fara fram á að hækka gjöldin um á 7. hundrað þúsund. En á hinn bóginn hefir nefndin lagt til, að tekjuáætlunin hækki um 382 þús. Og af þeim fjárveitingum, er nefndin vill bæta við, leggur hún til, að 56 þús. verði geymdar þangað til rætt verður um fjáraukalög fyrir 1923, en 219400 kr. ætlast nefndin til, að verði bundnar því skilyrði, að þau verk verði ekki framkvæmd, nema trygging sje fyrir, að nægilegt fje sje fyrir hendi, nægilegur tekjuafgangur. Þegar hvorttveggja þetta er dregið frá, kemur í ljós hækkun, er nemur 373 þús., en tekjuhækkunin er 382 þús., svo sem jeg skýrði frá, og verður því nokkur jöfnuður á þessu. Nefndin vill gera það, sem stendur í hennar valdi, til þess, að verk þau, sem bundin eru áðurnefndum skilyrðum, verði framkvæmd, og hefir í því skyni samið og borið fram frv. til tekjuauka, er háttv. þm. hafa sjeð.

Þá skal jeg snúa mjer að tekjubálkinum. Skal jeg ekki vera fjölorður um brtt. nefndarinnar. því að fyrir þeim er gerð full grein í nál. Nefndin hefir þar farið eftir því, sem tekjurnar hafa reynst síðustu árin, og vænti jeg því, að hæstv. fjrh. (MagnJ) geti fallist á till. hennar yfirleitt.

Tekjuskattur og eignarskattur er áætlaður í frv. jafnhár sem í gildandi fjárlögum. Nefndin hafði gert sjer vonir um, að hún gæti hækkað liðinn. Þar sem þessi skattur 39 reyndist 1516 þús. kr. síðastliðið ár. Það voru því mikil vonbrigði fyrir nefndina, þegar Alþingi samþykti breytingu á tekjuskattslögunum. Fjvn. þykist hafa sýnt við atkvgr. um það mál, að hún þættist í vanda stödd, ef breytingin yrði að lögum. Jeg hygg, að menn hafi ekki gert sjer fyllilega ljóst, hve miklu þessi lækkun mundi nema. Því ef það er satt, að svo muni reynast, sem sagt er, að skattur af lægri tekjum muni lækka um 40% frá því, sem var, hygg jeg, að þingmenn hefðu hugsað sig betur um, ef þeir hefðu vitað þetta áður. En það fór eins fyrir nefndinni sem öðrum háttv. þm., að hún gat ekki gert sjer fyllilega ljóst, hve miklu þessi lækkun mundi nema. Nefndin gerði þó ráð fyrir, að óhætt mundi að áætla skattinn 1 miljón, en jeg skal láta ósagt, hvort það muni reynast rjett; það er einungis ágiskun. En hitt þykist nefndin viss um, að ekki megi búast við hærri tekjum af þessum lið.

Aukatekjur leggur nefndin til, að verði hækkaðar um 40 þús. kr., og miðar hún þar við reynslu síðustu ára. Minstar voru þær 1920. eða 258 þús., 1921 264 þús. og síðastliðið ár 324 þús. kr. Virðist engin ástæða til að ætla, að þessar tekjur muni lækka svo, að þær nemi ekki 300 þús.

Smærri liðina er lítið að athuga við; þeir hafa einnig verið ákveðnir eftir því, sem reynsla undanfarinna ára hefir sýnt.

Þá skal jeg minnast á þá miklu lækkun, um 150 þús., sem nefndin hefir áætlað á útflutningsgjaldinu. Það reyndist árið 1920 800 þús., 1921 655 þús. og 1922 793 þús. kr. Nefndinni finst því ekki óvarlegt að áætla það 700 þús. og sjer enga ástæðu til að ætla, að framleiðslan muni minka svo eða falla í verði, að gjaldið nái ekki þeirri upphæð.

Tóbakstollinn vill nefndin lækka, og er það gert í samráði við tóbakseinkasöluna. Nefndin er jafnvel dálítið smeyk um, að liðurinn sje enn þá of hár. Síðustu árin hefir tollurinn verið nokkuð lægri, sjerstaklega 1922, er hann nam 305 þús. kr. En ríkiseinkasalan gerir sjer von um, að innflutningur verði talsvert meiri á næsta ári, því að nú er verið að selja birgðir, sem áður voru fluttar inn og munu uppseldar um nýár. En það er ljóst, að mjög er óvarlegt að áætla tollinn 450 þús., svo sem gert er í stjfrv.

Þá skal jeg minnast á vörutollinn. Getur verið, að hv. deildarmenn búist við, að hækkunartillaga nefndarinnar sje miðuð við frv. það, sem nú er á ferðinni í þinginu og fer fram á mikla hækkun á tollinum, og að nefndin ætlaði strax að nota sjer þá hækkun. En nefndin hefir eingöngu miðað við núgildandi lög. Meðaltal vörutollsins síðastliðin 3 ár hefir verið 1337 þús kr., og telur nefndin því varlega farið að áætla hann 1200 þús. kr. Jeg vil sjerstaklega vekja athygli deildarinnar á þessu, svo að hún ætli ekki, að nefndin ætli að reyna að hafa hagnað af þessu frv. fyrirfram.

Símatekjurnar hafa verið lækkaðar í samræmi við tillögur landssímastjóra. Hann taldi jafnvel þörf á að áætla tekjurnar enn lægri, ef ekki yrði tekin upp fjárveiting til bæjarsímans í Reykjavík. Nefndin tók því upp í tillögur sínar 50 þús. kr. fjárveitingu til bæjarsímans, og gerir landssímastjóri ráð fyrir, að af þeirri aukningu yrðu 25 þús. kr. tekjur þegar fyrsta árið. Vil jeg biðja menn að athuga, að verði þessi fjárveiting feld, mun nefndin jafnskjótt koma með tillögu um að lækka þennan tekjulið enn um 25 þús. kr.

Þá kemur hinn mikli liður, er nefndin vill skjóta inn í tekjuáætlunina, en það er hagnaðurinn af víneinkasölunni. Nefndin fær ekki sjeð, hvers vegna má ekki taka upp í fjárlögin hagnað af þessum rekstri, eins og af tóbaks- og steinolíueinkasölunni. Jeg geri ráð fyrir, meðan annað kemur ekki fram, að ríkið noti þessar tekjur til þarfa sinna, eins og hvert annað fje. Um upphæðina er það að segja, að kunnugir menn telja hana síst of háa og gera sjer von um, að tekjurnar verði drjúgum meiri. Það má því telja þetta varlega áætlað af nefndinni.

Jeg vil þá geta um eitt atriði, sem tekið er fram í nál. og stjórninni er fullkunnugt um. Nefndin vill ýta undir, að teknar sjeu inn á tekjuáætlunina allar tekjur af öllum ríkisrekstri, en ekki einungis hreinn ágóði, eins og nú er gert. Þrátt fyrir undirtektir stjórnarinnar og stofnana þeirra, sem hlut eiga að máli, hefir nefndin ekki breytt skoðun sinni, og telur hún það miklu þægilegra og gleggra, að þessi siður sje tekinn upp. Það er miklu aðgengilegra fyrir þingmenn að fá glögt yfirlit í fjárlögunum yfir rekstur þessara stofnana, eins og nú er um síma og póstmál. Að vísu má segja, að þingmönnum sje hægurinn hjá að athuga reikninga þessara stofnana. En menn þekkja, hve miklu þægilegra er að hafa alt slíkt í fjárlögunum og gleggra til yfirlits. Og þó að borið sje fyrir, að erfitt sje að áætla slíkt fyrirfram, hygg jeg, að ekki sje torveldara að áætla allar tekjur öðrumegin og gjöldin hinumegin heldur en að giska á hreinar tekjur af slíkum rekstri. En það verða stofnanir þessar og stjórnin að gera, og þurfa þær þá hvort sem er að gera sjer uppkast og áætlun um tekjur og gjöld.

Nefndinni fanst óþarfi að taka tekjur af skipum upp í tekjuáætlunina. Því miður gerir nefndin sjer litla von um hreinan ágóða af þeim rekstri, og ef nokkur yrði, telur hún heppilegast, að hann yrði notaður til að færa verð skipana niður, svo að virðingarverð þeirra yrði nær því, sem nú má telja hæfilegt. Vona jeg, að hæstv. stjórn sætti sig við og fallist á, að þessi liður verði feldur niður.

Jeg hygg, að jeg geti látið þetta nægja um tekjubálkinn. Vænti jeg, að háttv. deild taki vingjarnlega í brtt. nefndarinnar, því að jeg ætla, að þær megi ekki teljast óvarlegar.