09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki tefja umr. um tekjubálkinn eða brtt. við hann. Læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort þær verða samþyktar, því hjer er að nokkru leyti verið að deila um keisarans skegg, og skiftir mestu um hvernig útkoman verður.

En jeg vildi geta um hvers vegna jeg neyðist til að greiða atkvæði á móti einum liðnum; á jeg þar við hinn nýja lið, tekjur af vínfangaversluninni, sem nefndin hefir áætlað 300000 kr. Eins og kunnugt er, bárum við hv. þm. Borgf. (PO) fram frv. um það að verja ágóða af þessari verslun til sjerstaks augnamiðs.

Vonast jeg eftir, að þótt hv. fjvn. hafi tekið þetta upp, þá liggi ekki í því nein yfirlýsing, hvorki frá nefndinni í heild sinni eða neinum sjerstökum í henni. um það, að þeir ætli sjer að greiða atkvæði á móti þessu frv.

Þykist jeg vita, sem líka háttv. frsm. (MP) lýsti yfir í öðru sambandi, að nefndin vilji eingöngu byggja á því, sem nú er í lögum, en miða ekki við frv., sem óvíst er um, hvernig fara. Að vísu er ekkert reikningslega skakt í því að taka þessa fjárhæð inn tekjumegin í fjárlögin og setja svo tilsvarandi upphæð gjaldamegin, ef frv. yrði samþykt, en jeg er á móti því, að þessi liður verði settur tekjumegin meðan ekki er hægt að setja sömu upphæð gjaldamegin.

Það hafa komið fram fleiri frv. hjer á þinginu viðvíkjandi þessum tekjum, hvernig þeim skuli verja. Bendir þetta á, að nokkur almennur vilji sje um það, að þær renni ekki til almennra þarfa ríkissjóðs. Legg jeg því til, að þessi brtt. verði feld, því fari svo, að frv. okkar verði felt, þá sakar það ekki, þótt ríkissjóður fái þetta án þess að það standi í fjárlögum.