09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg verð að gera þá almennu athugasemd þegar í upphafi, að jeg fór svo skyndilega utan síðast, að jeg hafði áður aðeins farið einu sinni í gegnum fjárlagafrumvarpið, og gat því ekki sjálfur samið athugasemdirnar við mína kafla þess. Jeg ætla nú aðeins að minnast stuttlega á nokkur atriði.

Stjórnin hafði lagt til, að skrifstofukostnaður bæjarfógetans í Reykjavík yrði undir sama lið og skrifstofukostnaður annara sýslumanna og bæjarfógeta, þar sem þeir taka allir laun eftir sömu lögum. Kostnaður lögreglustjóra er sjerstaklega tilfærður, enda tekur hann laun eftir öðrum lögum. Annars er stjórninni þetta ekkert sjerstakt kappsmál í sjálfu sjer, og hefi jeg áður skýrt alt þetta mál fyrir nefndinni, og vil jeg hjer aðeins minna á það, að þessi sýslumannaskrifstofukostnaðarfjárlagaliður er aðeins áætlunarliður, þar sem í 11. gr. launalaganna er ákveðið, að dómsmálaráðherra ákveði þennan skrifstofukostnað. Viðvíkjandi því, að stjórnin hafi ætlað sýslumönnum of háan slíkan kostnað, skal jeg taka það fram, að það álit mun einungis sprottið af ókunnugleika, þar sem það hefir þvert á móti oftar komið fyrir, að reikningar sýslumanna hafa sýnt meiri raunverulegan skrifstofukostnað en stjórnarráðið hefir gert þeim. Vil jeg í því efni t. d. benda á sýslumanninn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, sem bæði er sparnaðarmaður og ágætur sýslumaður. Honum voru ætlaðar 2250 kr., en reyndin varð, að hann þurfti að borga í skrifstofukostnað 3380 krónur. Svipað er ástandið í fleiri tilfellum, enda munu sýslumenn margir vera óánægðir í hæsta máta og þykjast bera skarðan hlut frá borði. Það er heldur ekki sanngjarnt nú, þegar þetta á alt að greiðast úr ríkissjóði hvort eð er, að mennirnir þurfi að borga meiri eða minni viðbót úr sjálfs sín vasa eða af launum, sem kannske eru af skornum skamti fyrir.

Jeg er sammála hv. fjárveitinganefnd um það, að 30 þús. kr. til landhelgisgæslu hafi verið of lítið, og álít jeg jafnvel, að 50 þús. sje of lítið líka.

Um fjárveitinguna til Vífilsstaða skal jeg ekki deila, því það er einfalt mál, að ef svo fer, að kostnaðurinn reynist minni en nefndin gerir ráð fyrir, þá sparast aðeins það fje, sem eftir verður.

Einnig get jeg fallist á það að taka frakkneska spítalann á Fáskrúðsfirði á leigu. Um spítalabygginguna á Ísafirði verð jeg hins vegar að segja það, að stjórnin treysti sjer ekki til þess að taka upp fjárveitingu til hennar, þótt vitaskuld sje mikil þörf á henni. En hins vegar er kostnaðurinn mikill, og veit jeg ekki hvort kaupstaðurinn er nú sem stendur til þess fær, að leggja fram sinn hluta. En jeg teldi rjettast, ef á annað borð ætti að fara að veita fje til þessa, að veita það, sem þarf og til er ætlast, sem sje þriðjung. Annaðhvort ætti því að veita allan þriðjunginn eða ekkert.

Loks vil jeg svo þakka hv. fjárveitinganefnd fyrir það, að hún hefir tekið til greina till. stjórnarinnar um styrk til geitnalækninganna, því á honum er hin mesta þörf. — Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta, því jeg mun þegar hafa drepið á þær helstu tillögur, sem mig snerta sjerstaklega, og get því lokið máli mínu.