28.02.1923
Efri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

33. mál, verðlaun fyrir útfluttan gráðaost

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta er ekkert stórmál, en frekar má telja það stefnumál.

Eins og flestum mun kunnugt, hafa hjer verið gerðar síðustu 10 árin töluverðar tilraunir með að búa til vandaðan ost, sem nefndur hefir verið gráðaostur. Hefir hann verið gerður eftir fyrirmynd Rochefort-ostsins franska. Ostur þessi hefir verið dýr vara, en er nú ódýr, sökum þess, að Frakkland, sem mest framleiðir af honum, hefir nú mjög lágt gengi.

Það, sem fyrst og fremst mælir með því, að tilraunin sje studd til þrautar, er það, að framleiðsla okkar er að mestu hrávörur, sem fluttar eru óunnar út úr landinu, og hafa því mjög þröngan markað.

En önnur aðalástæðan fyrir því, að menn hafa lagt út í að framleiða þennan gráðaost, er sú, að með því er gerð til raun til að opna sveitabændum aðgang að heimsmarkaðinum.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að verðlauna hvert kg. af úrvalsosti, sem út er flutt, með 50 aurum. Þó má ekki verja til þess yfir 5000 kr. Gæti svo farið, að ekki þyrfti einu sinni að nota alla þessa upphæð.

Nú er aðeins eitt bú hjer á landi, er starfar í þessa átt. Er það í Þingeyjarsýslu. Á það mjög erfitt uppdráttar, og er frv. þetta borið fram eftir beiðni hinna helstu manna, sem að því standa, því að búið verður að hætta, ef það fær engan styrk. En það má telja illa farið, ef búið yrði að hætta áður en fullsannað er, hvort unt er að koma við þessari framleiðslu hjer á landi.

Þó að frv. þetta nái fram að ganga, þá er ekki til þess ætlast, að það gildi nema tiltölulega stuttan tíma, eins og fordæmi eru fyrir, þegar smjörbúum var veittur samskonar styrkur.