09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. fjvn. hefir fyrst komið með brtt. við 13. gr. viðvíkjandi póstafgreiðslumönnum utan Reykjavíkur, í þá átt að hækka fjárveiting til þeirra um 10 þús. kr. Nefndin færir því til meðmæla, að þeir menn, sem hjer eiga hlut að máli, sjeu ráðnir með samningi fyrir ákveðna þóknun og hún sje lág. Þessu get jeg alls ekki verið sammála. Ef athugaður er listinn yfir póstafgreiðslumennina, sjest, að margir hafa óþarflega há laun, sjerstaklega þegar tekið er tillit til þess, að víða er mjög lítið að gera og að þetta er aukaatvinna hjá flestum. Jeg hafði gert athugasemd við skrána, sem barst fjvn., og jeg skil ekki í öðru en hún sje mjer sammála um, að sumstaðar hafi verið fullhátt áætlað Það var vel ráðið að færa niður launin, því að vitanlega voru þau hækkuð á dýrtíðarárunum, og því var það í fullu samræmi við laun embættismanna og annara starfsmanna, að þau lækki nú. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að um leið og mönnum þeim, sem nú eru í stöðunum, er sagt upp, eigi að halda undirboð á þeim; til þess eru þær of vandasamar. En jeg hygg, að á flestum stöðum megi fá sömu mennina fyrir lægri laun. Líka mætti sameina póstafgreiðslu og síma á ýmsum stöðum; hefi jeg leitað álits aðalpóstmeistara og landssímastjóra um það, og eru þeir því meðmæltir. Liggja þau skjöl nú fyrir háttv. Ed. Slíka sameiningu mætti víða gera og verður bráðlega gerð á einum stað, á Blönduósi.

Þá kem jeg að B-lið 13. gr., flutningabrautunum. Verð jeg að vera háttv. nefnd þakklátur fyrir, hvernig hún hefir tekið í það mál. Hún hefir hækkað tillagið til brauta þeirra, er byggja á á næsta ári. Jeg hafði líka tekið í fyrsta uppkast að fjárlögunum þessa upphæð, en er leið á samningu þeirra, sá jeg fram á, að tekjuhalli yrði mikill. Þess vegna sá jeg mjer ekki annað fært en lækka þetta tillag. Var það gert í samráði við vegamálastjóra, þótt okkur væri það báðum þvernauðugt að hækka svo mikið. Þess vegna þakka jeg nefndinni þessa breytingu og vænti þess, að hún verði samþ. Sama er að segja um nýjan lið, til Vaðlaheiðarvegarins. Jeg ætlaði að taka þennan veg upp í sambandi við brúna á Eyjafjarðará, sem væntanlega verður fullgerð á þessu sumri. Vegur þessi er orðinn um 40 ára gamall og liggur á óhentugum stað. Hann átti að liggja talsvert utar; hann er brattur að vestan og enn þá brattari að austan. Það er enginn vagnvegur, en fjölfarinn á öllum tímum árs, sjerstaklega á sumrum. Jeg vil því mæla sem best með, að þessi liður verði samþyktur. Jeg hygg, að háttv. deildarmönnum muni vera ljúft að greiða atkvæði með samgöngubótum á landi, einkanlega nú, er kyrstaða hefir verið um hríð í þeim efnum, en flestir hafa unað því illa.

Þá kem jeg að 13. gr. D. nýjum símalínum og loftskeytastöðvum. Nefndin segir, að þá er hún hafi verið komin að þessum lið, þá hafi fjeð alt verið gengið til þurðar, sem hún þóttist geta ráðið yfir. Alveg sama máli var að gegna með stjórnina. Hún varð fjárhagsins vegna að hætta við að leggja nokkuð fram í þessu skyni. Nú hefir nefndin tekið upp allar þær línur, er bráðnauðsynlegastar eru, og er mjer það gleðiefni. En gleði mín er samt ekki alveg óblandin, því að þessar framkvæmdir eru bundnar því skilyrði, að tekjurnar reynist nægar til þeirra. Ef fjárhagurinn verður varhugaverður á næsta vori, þá er það skipun þingsins að hætta við þær. Jeg er hálfhræddur við þetta, þó það sje eðlilegur varnagli. Jeg hefði heldur kosið, að þessi athugasemd hefði ekki verið, en það hefði verið gefið á vald stjórnarinnar, hvort hún framkvæmdi það eða ekki, eða henni falið að byggja þær nauðsynlegustu, ef ekki væri hægt að byggja þær allar, og væri þá getið um, hverjar væru nauðsynlegastar. Að vísu má ganga út frá því, að það felist í þeirri röð, sem þær eru settar, hverjar eru nauðsynlegastar, og þessar 4 fyrstu línur ganga þá fyrir.

Þá eru loftskeytastöðvarnar. Nefndin leggur til, að loftskeytastöðvar verði settar í Grímsey, Flatey og á Húsavík. Við þetta er komin fram brtt. á þskj. 292. frá hv. 1. þm. Eyf. (StSt), að í staðinn fyrir Húsavík komi Siglufjörður. Jeg veit, að Siglfirðingar hafa lagt mikið kapp á að komast í loftskeytasamband við Grímsey, en nefndin hefir tekið hina leiðina. vegna þess, að Grímseyingar versla mikið við Húsavík, en lítið við Siglufjörð. Jeg hefi átt tal um þetta við landssímastjóra og hann telur ekki rjett að hafa stöðina á Húsavík, en vill hafa hana á Siglufirði. Kostnaður yrði miklu meiri á Húsavík: og á Siglufirði á ríkissjóður hús, ritsímastöð og tæki, svo kostnaður yrði þar lítill. En ef háttv. deild aðhyllist ekki þetta, þá væri betra að hafa stöðina á Akureyri; þar eru líka tæki til og yrði minni kostnaður. Það er erfitt fyrir Húsavík að ná sambandi við Siglufjörð á sumrin; þá er sú lína mikið notuð. Því yrði hægara um vik fyrir Grímseyinga að ná sambandi við Húsavík, ef stöðin yrði á Akureyri.

Um loftskeytastöð í Öræfum þarf jeg ekki að fjölyrða. Hún er eðlileg eftir að stöð hefir verið sett í Kirkjubæjarklaustri. Um aðrar brtt. nefndarinnar er fátt að segja. Jeg á eina brtt. á þskj. 292. við 13. gr., um það að verja 4 þús. kr. til þess að kaupa hús ásamt lóðarrjettindum, túni og girðingu við Garðskagavita. Vitamálastjóri hefir sent erindi um þetta. Vitavörðurinn á Garðskaga dó í vetur, en hann átti hús og mannvirki og var búinn að rækta 3 dagslátta tún á leigulandi, sem er eign Útskálakirkju. Staðan er illa launuð. 600 kr., frítt hús, kol og olía. Mjer finst eðlilegt, að landið kaupi þessi mannvirki handa hinum nýja vitaverði. Það er virt á 4955 kr., en mun fást fyrir 4 þús. En þar sem í ráði er að semja frv. til fjáraukalaga fyrir 1923, og þar á þetta heima, þá tek jeg þessa brtt. aftur við fjárlögin.