09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg skal játa það, að ef hagur landsins er eins þröngur og látið er hjer innan þessara veggja, þá er það synd af mjer að bera fram þessar 2 smábrtt., sem jeg er hjer með. En hjer mun vera sá sami siður og í sveitum, að sá er eigi talinn búmaður, sem ekki kann að berja sjer; og hagur landsins er og verður betri en haft er á orði hjer. Því hefi jeg gerst svo djarfur að bera þessar brtt. fram, ekki til þess að steypa fjárhag landsins, heldur til þess að auka þægindi landsmanna og til þess að veita einstaklingi sanngjarnar bætur fyrir tjón, er hann beið við ráðstafanir, er gerðar voru til að tryggja hag landsins. Önnur brtt. er um það að veita fje nokkurt til þess að gefa úr manntalið frá 1703. Þetta er ný gullnáma fyrir alla ættfræði, og er nú komin heim, og er eigi gerandi að láta hana liggja í skjalasafni, þar sem fáir eiga aðgang að henni. Jeg býst við því, að allir háttv. þm. muni sammála um það, að ættfræði sje þjóðleg fræðigrein og mikils virði fyrir sögu landsins og þekkingu á þjóðinni. Og Íslendingar skara fram úr öðrum í þessari ment. Jeg hefi nefnt hjer 1000 kr.: vænti jeg þess, að háttv. þm. samþykki þessa litlu upphæð, til þess að hægt verði að byrja á útgáfunni. Það er svo um alt, sem þingið gerir, sem um aðra menn, að verkið lofar meistarann; og ef landsmenn sjá, að þingmenn vilja gera þeim þessi þægindi. Þá mun það mælast vel fyrir og þykja viturlega gert.

Hin brtt. er um það að bæta Kristjáni Jónassyni í Borgarnesi tjón, sem hann hefir beðið, og er sú till. sjálfsögð. Svo er mál með vexti, að sjúklingur kom til Borgarness og þurfti að fá inni, en eigi var auðið að útvega honum náttstað. Læknirinn, sem þá var settur þar, bað Kristján, sem er gestgjafi, að hýsa manninn og fullvissaði hann um, að af honum stafaði engin hætta. Þetta var fyrirgefanlegt af lækninum, því hann var ekki æfður læknir, og ekki er altaf gott að ákveða, hvort taugaveiki er eða ekki. En þarna lagðist maðurinn og barn veiktist hjá Kristjáni og húsið var einangrað í 2 mánuði. En Kristján hafði greiðasölu, svo sem fyr er sagt, og var því sviftur atvinnu sinni um þennan tíma. Það skal viðurkent, að hann mun ekki geta sótt mál þetta að lögum; það hefir enginn gert honum lagalegan órjett, en hann hefir beðið þetta tjón af ráðstöfunum heilbrigðisstjórnarinnar til þess að aðrir hlytu ekki meira tjón af. Jeg hefi nefnt hjer 1500 krónur af því, að Kristján er fátækur maður og munar um það, en ekki af því, að það sjeu nægar bætur fyrir skaða þann, er hann hefir beðið. Jeg þarf ekki að fjölyrða meira um þetta lítilræði. Allir góðir drengir sjá, að maðurinn þarf að fá bætur, og jeg býst við, að hjer sje gnægð drengskapar til þess, að þessi litla tillaga nái fram að ganga. (HK: Það er alveg rjett; það er mikill drengskapur hjer). Það er gott; það mun þá sýna sig við atkvæðagreiðsluna.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Jeg geri ráð fyrir því, að háttv. frsm. fjvn. (MP) svari því. er með þarf fyrir nefndarinnar hönd. Það verður ef til vill ýmislegt, sem jeg vil athuga við ræðir þær, er fram koma, en jeg bíð með það þar til síðar. Það gladdi mig að heyra svona góðar undirtektir af þingbekkjunum.