09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Jeg hafði raunar búist við, af því framorðið er orðið, að fundi yrði nú frestað; en úr því að jeg er næstur á mælendaskrá, þá mun rjett að nota það. Jeg ætla samt ekki að fara út í neinar eldhúsræður, eins og legið hefir við, að sumir háttv. þm. hafi nú gert. Jeg sinti ekki eldhússtörfum við 1. umr., og því síður finst mjer eiga við að gera það við 2. umr. Jeg kýs að halda mjer við efnið og tala um fjárlögin í heild og þær brtt., sem jeg vil minnast á.

Ætla jeg þá að byrja á því, að jeg lít svo á, að háttv. fjvn. hafi ekki farið neitt ógætilega í till. sínum, þótt jeg hins vegar sje henni ekki sammála í sumum greinum, eins og t. d. þar sem um þessa svo nefndu bitlinga er að ræða. Jeg vil helst engar slíkar fjárveitingar samþykkja.

Mjer finst háttv. nefnd hafa tekið upp rjetta stefnu, með því að reyna að láta ekki allar tekjur ríkissjóðsins ganga upp í laun og önnur slík útgjöld heldur líka til verklegra framkvæmda. Jeg á því hægra með að fyrirgefa henni, þátt hún skili fjárlögunum með 200 þúsund króna tekjuhalla, þegar hann stafar af þessum ástæðum. Enda er þar einn liður, símalagningarnar, sem nefndin bindur því skilyrði, að það verði því aðeins geri, að fje sje fyrir hendi. En til þessara símalagninga eru áætlaðar 220 þúsund krónur. Er það heldur meira en tekjuhallanum nemur eftir áætlun nefndarinnar.

Jeg hefði að vísu kosið, að háttv. nefnd hefði sjeð sjer fært að lækka einn lið; það er útflutningsgjaldið. Jeg hefði helst af öllu viljað afnema það með öllu, eins og jeg hefi áður sagt; en hinsvegar get jeg skilið þau rök hjá háttv. frsm. (MP), að úr því háttv. deild hefði nýlega lækkað tekju- og eignarskattinn, þá hefði ekki verið tiltækilegt að lækka útflutningsgjaldið líka, því ríkissjóðurinn mætti ekki við að tapa svo miklu fje. Jeg er honum sammála í því og vil ekki stuðla að tekjuhalla í fjárlögunum. En jeg var á móti lækkun útflutningsgjaldsins svona mikið. Tel ríkissjóð ekki mega við því, og ófært að lækka svona skattinn af lágu tekjunum. t. d. á lausafólki og vinnufólki til sveita. Þó að sagt sje, að um það muni ekkert í ríkissjóð, þá safnast þegar saman kemur, og jeg tel einmitt rjett, að sem allra flestir borgi tekjuskatt, þótt hann sje ekki hár hjá hverjum einum.

Jeg vildi svo minnast á eina lítilsháttar brtt., sem jeg á á þskj. 292. Sú tillaga fer að vísu ekki í sparnaðarátt, en hún hefir sjer það til afsökunar, að hún miðar til verklegra framkvæmda. Hún er þess efnis, að tillagið til Hróarstunguvegarins verði hækkað að litlum mun. Til þessa vegar hefir verið veitt fje síðan árið 1919: Fyrst 20 þúsund krónur 1920, 10 þúsundir 1921 og 15 þúsundir 1922 og 1923. Þetta verður samtals 60 þúsund krónur. En af þessu eru endurveittar 15 þúsundir. Nú hefir aðeins verið unnið að þessum vegi fyrir 13 þúsund krónur á þessum tíma, og ættu því að vera veittar 32 þúsundir umfram það, sem unnið hefir verið fyrir. Hefi jeg fengið allar upplýsingar hjer að lútandi hjá vegamálastjóra. Nú er ætlast til í stjfrv. að 10 þús. sjeu veittar til þessa vegar, en jeg fer fram á það í brtt. minni, að það sje hækkað upp í 15 þúsundir, eins og er í gildandi fjárlögum. Þetta virðist á fylstu sanngirni bygt, þar sem ónotaðar eru af því, sem veitt hefir verið, 32 þúsundir; yrðu samt eftir 17 þúsundir, þótt þessar 15 þúsundir yrðu veittar fyrir árið 1924.

Þessi vegur hefir altaf að undanförnu setið á hakanum og hefir sáralítið verið unnið við hann undanfarin ár. Kvaðst vegamálastjóri því líka samþykkur, að hækkuð væri upphæðin til hans, þótt hann hinsvegar hefði ekki treyst til að koma fram með till. þess efnis vegna fjárskorts. Jeg veit það vel, að undanfarin ár hefir lítið fengist fyrir hverjar þúsund krónurnar, sem til vega hafa gengið, en þarna hefir líka alveg verið kyrstaða á vegagerðinni og ekkert unnið. Tel jeg því brýna nauðsyn að herða nú á vegagerðinni þarna eystra og neyta þess, að nú er kaup verkamanna heldur að lækka. Auk þess stendur svo á, að vegur þessi endar mitt á milli bæja, þar sem langar eru bæjarleiðir. Verða ferðamenn að taka þar af vögnum sínum og leggja klyfjar á hestbök, og er hið mesta óhagræði að því. Hafa Jökuldælir og aðrir Hjeraðsmenn nógu erfiða aðdrætti, þótt reynt sje að koma þessum vegi sem allra fyrst að Jökulsárbrú. Kemur sá vegur, sem þegar er lagður, ekki að hálfum notum meðan svo stendur, sem nú er, og er því hin mesta nauðsyn að flýta lagningunni sem mest.

Háttv. frsm. fjvn. (MP) skýrði ekki frá afstöðu háttv. nefndar til þessara og annara brtt., sem fyrir liggja. Vildi hann bíða eftir umsögn tillögumanna. Jeg tel nú þessa brtt. mína svo sanngjarna, að jeg vænti þess fastlega, að háttv. fjvn. styðji hana, svo sanngjörnum mönnum, sem hún er skipuð. Vænti jeg þess þeim mun fremur, sem hjer er um verklegar framkvæmdir að ræða, sem háttv. nefnd hefir sýnt, að hún er mjög hlynt. Vona jeg, að háttv. deild fari sömu leið og samþykki þessa till. mína.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þennan kafla fjárlaganna. Tel jeg einfaldast að láta atkvgr. skera úr um hann.