10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þakka bæði hæstv. stjórn og háttv. þdm. góðar og hlýjar viðtökur á tillögum nefndarinnar, og þarf jeg því ekki að vera langorður eða harðorður í þeirra garð.

Hæstv. forsrh. (SE) tók fram í ræðu sinni í gær, að engin ástæða væri til að sundurgreina skrifstofukostnað bæjarfógetans í Reykjavík frá skrifstofukostnaði annara bæjarfógeta og sýslumanna. Það getur nú verið, að þetta sje rjett að sumu leyti, en það, sem einna helst gerði það að verkum, að nefndin sundurgreindi skrifstofukostnaðinn, eru launakjör starfsmannanna á skrifstofu bæjarfógetans í Reykjavík. Þeir taka laun sín eftir svipuðum reglum og aðrir starfsmenn ríkisins, þ. e. í samræmi við launalögin, hafa t. d. dýrtíðaruppbót eftir sömu reglum o. s. frv. Þegar af þessari ástæðu er heppilegra, að kostnaðurinn haldist sundurgreindur. Ef til vill væri rjettast, að allur skrifstofukostnaður væri sundurliðaður í fjárlögunum, en lagaákvæði er fyrir því, að stjórnin ákveði skrifstofukostnað sýslumannanna, og er því naumast unt að breyta því að svo komnu.

Það mun rjett vera, að hæstv. forsrh. (SE) hafi látið orð falla þannig við nefndina, að hækka þyrfti skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta. En hvers vegna áætlar þá stjórnin svona lágt? Var það aðeins til þess að hafa engan sýnilegan halla? Það er mjög vont fyrir fjvn., þegar stjórnin áætlar of lágt. því þá verður hækkunin skrifuð á nefndarinnar reikning.

Sú yfirlýsing hæstv. forsrh. (SE), að hann standi einn með þá skoðun í stjórninni, að hækka þurfi skrifstofukostnað sýslumanna, er gleðiefni fyrir nefndina. Það gleður hana sökum þess, að í stjórninni er nú maður, sem er þaulreyndur í þessum efnum, þar sem er hæstv. atvrh. (KIJ). Annars væri fróðlegt fyrir Alþingi að fá upplýsingar um það, hvernig skrifstofukostnaður sýslumanna ei reiknaður. Það liggja fyrir reikningar, en aðeins 8 sýslumenn hafa gert tillögur um þetta. Jeg vil því skjóta þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (SE), hvernig sje gerður greinarmunur á skrifstofukostnaði sýslumanna í smærri og stærri sýslum, og eftir hvaða reglum það sje reiknað út. Það væri t. d. gott að fá upplýsingar um það, hvernig á því stendur, að Dalasýsla fær 765 kr., Strandasýsla 1440 kr. og Rangárvallasýsla 1170 kr. Í engri þessari sýslu er ætlast til, að sýslumaðurinn hafi skrifara sjer til aðstoðar, svo að eitthvað annað veldur mismuninum. Þetta myndi alt upplýsast, ef Alþingi fengi öll gögn í hendur.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir hæstv. stjórn, ef meta skal parta úr skrifurum. Þá hlýtur og að vera einhver mælikvarði, er hún metur eftir húsaleigu víðs vegar um landið, því eins og allir vita, er hún mjög misjöfn, eftir því hvar er á landinu.

Þá er næst landhelgisgæslan. Um hana má segja hið sama og um næsta lið á undan, að úr því að hæstv. stjórn gerði ráð fyrir, að sú upphæð mundi fara fram úr því, sem áætlað er í fjárlagafrv., því áætlaði stjórnin þá ekki hærra og nær sanni. Nefndin hefir gert ítrekaðar tilraunir til að fá gögn í þessu máli og upplýsingar hjá hæstv. stjórn, en ekki tekist; en vitanlega hefði átt að fylgja frumvarpinu skýrsla síðasta árs, en það hefir hæstv. stjórn ekki þótt hlýða. En ekki væri ótilhlýðilegt, að Alþingi fengi að vita um fyrirætlanir stjórnarinnar í þessum efnum á mesta ári. sjerstaklega ef það væri fyrirhugað af hæstv. stjórn, eins og ætla mætti af ræðu háttv. þm. Borgf. (PO), og jafnvel skilja á hæstv. forsrh. (SE), að strandvarnir verði auknar mjög á næsta ári. Ef svo væri, að nefndin hefði eigi hitt á rjetta upphæð til þessa liðs, þá er það því ekki hennar sök.

Þá taldi hæstv. forsrh. (SE) skrifstofukostnað landlæknis sambærilegan við skrifstofukostnað sýslumanna. Jeg held það sje ekki rjett, eftir því sem húsnæði og annað, er að því skrifstofuhaldi lýtur, er dýrt hjer í Reykjavík. Jeg hygg, að ef sýslumenn eða bæjarfógetar ættu í hlut, mundi þessi kostnaður vera þriðjungi til helmingi hærri.

Þá kem jeg lítilsháttar að Ísafjarðarspítalanum. Um hann sagði hæstv. forsrh. (SE), að stjórnin hefði ekki treyst sjer til að taka hann upp í fjárlögin. Jeg er ekkert að ásaka hæstv. stjórn fyrir það, en nefndin sá sjer ekki annað fært en gera eitthvað í því máli. Það er að vísu svo, að þetta er fyrst og fremst fyrir Ísafjörð, en það getur einnig orðið fyrir mikið af Vestfjörðum, því enda þótt lítið sjúkrahús sje til á Þingeyri, þá er það alveg ófullnægjandi. Þá er það líka þýðingarmikið, að í sjúkrahúsinu á að verða sjerstök deild fyrir berklaveikt fólk, og enn má nefna fiskiskip, bæði innlend og útlend, sem oft leita þangað inn með sjúka menn.

Um getu sýslu- og bæjarfjelaganna til að taka að sínu leyti þátt í þessu getur nefndin ekki dæmt, en eftir því, sem það mál hefir verið sótt, þá virðist ástæða til að ætla, að þau geti tekist slíkt á hendur. Um hitt atriðið, sem bæði hæstv. forsrh. (SE) og háttv. þm. Ísaf. (JAJ) komu inn á, að rjettara væri að tiltaka alla upphæðina í einu, af því að Alþingi væri ekki treystandi til að halda fjárveitingunum áfram uns fyrirtækinu væri lokið, þá hefi jeg þegar lýst yfir áliti nefndarinnar í þessu efni. Tel jeg víst, að hið háa Alþingi telji sig ætíð skuldbundið til að fullnægja loforðum, sem gefin eru af eldri þingum, líkt og stjórnir telja sjer skylt að halda loforð eldri stjórnar. Vona jeg, að Alþingi reynist ekki ódrenglyndara.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði, sem jeg gleymdi í framsöguræðu minni í gær, en það var viðvíkjandi geðveikrahælinu á Kleppi. Eins og háttv. þm. er kunnugt, voru samþykt lög um það 1905, og er ákveðið í þeim, að meðgjöf með sjúklingum þar sje ein króna á dag, eða 50 aurar, ef um menn er að ræða, sem styrks njóta af sveit. Þessu ákvæði hefir aldrei verið breytt með lögum, en nú er farið að taka upp nýjan sið í fjárlögum og hækka þessa meðgjöf með fjárlagaákvæði einu, og er það nú orðið 2 krónur á dag. Er orðin allmikil óánægja af þessu úti um land, og sjerstaklega sökum þess, að þetta 2 kr. daggjald nemur miklu meiru en sveitarfjelög þurfa að greiða með sjúklingum í öðrum sjúkrahúsum. Þar er hámarkið 400 krónur. Jeg efast um, að fjárlögin geti breytt ákvæðum eins og þessu í öðrum lögum, og út frá mínu leikmannsviti sjeð, hugsa jeg, að ef hreppsfjelög hefðu farið í mál út af þessu, þá hefðu þau ekki þurft að greiða nema 50 aura á dag. Ef svo færi, að þessu yrði breytt, breytist áætlun um tekjur spítalans, og vænti jeg, að þetta verði tekið til athugunar.

Þá held jeg, að ekki sje fleira, sem jeg þarf að svara hæstv. forsrh. (SE). Hæstv. atvrh. (KIJ) tók vingjarnlega í þær brtt. nefndarinnar, sem snerta hans umdæmi. Það var sjerstaklega hækkunin til póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur, er hann vildi ekki samþykkja, og bar hann því við, að flestir póstafgreiðslumenn hefðu þetta að aukastarfi. En þó svo væri, þá er þetta svo lágt borgað, að ekki er hægt að fá góða menn fyrir lægra gjald. Póststjórnin ætti auðvitað að spara útgjöld, eftir því sem hægt er, en hún hefir nú bent á, að fyrir lægju kröfur frá sumum póstafgreiðslumönnum um mikla hækkun. Hæstv. ráðherra (KIJ) gat þess, að máske mætti sumstaðar sameina síma- og póststörf. Nefndin hefir ekkert við það að athuga, en það þarf ekki að vera nein mótbára við brtt. nefndarinnar.

Jeg þekki nú ekki persónulega nema til fárra póstafgreiðslna, en þar, sem jeg þekki til, veit jeg, að launin eru ekki há í hlutfalli við peningaábyrgðina, sem á póstafgreiðslumönnunum hvílir. T. d. hafa póstafgreiðslumenn með 1000 kr. launum 100 þús. kr. veltu á ári, og auk þess þurfa þeir ávalt að hafa hæfa menn við hendina allan daginn, sem afgreitt geta ávísanir og fleira, og sumstaðar, þar sem skipaafgreiðslur eru, er óhjákvæmilegt fyrir þá að fá sjer aðstoð með köflum. Það er óhætt að fullyrða, að ríkið hafi hingað til sloppið ódýrt með þessa starfsmenn. Að öðru leyti var lítið að athuga við ræðu hæstv. atvrh. (KIJ). Hann var sammála nefndinni um verklegar framkvæmdir og aukningar á þeim, en þó sömu skilyrðum bundið og hjá nefndinni.

Hæstv. ráðherra (KIJ) kvaðst heldur hafa kosið, að stjórninni hefði verið sett sjálfdæmi um. hvaða símalínur væru lagðar, en nefndinni þótti samt rjett að láta sinn íhlutunarrjett verða gildandi hjer. Viðvíkjandi þessum lið væri ef til vill rjett, að skilyrðið, sem nefndin annars setur verklegum framkvæmdum, væri ekki látið gilda hjer. Því eins og ríkinu ber skylda til að endurgreiða og borga af lánum, sem það hefir tekið, eins virðist það vera skylda þess að borga af lánum, sem það hefir í raun og veru tekið af því fje, sem verja á til símalagninga samkvæmt símalögunum. Framkvæmdir þessar allar til samans nema eigi meira en um 290000 krónum, og er það ekki eins mikið og áætlað er, að tekjuafgangur landssímans verði samkvæmt þessu fjárlagafrv., eða 300000 kr. Það væri því ekki undarlegt, þótt gerðar hefðu verið hærri kröfur en nefndin hefir gert.

Háttv. þm. Barð. (HK) spurðist fyrir um það, hvort tilætlunin sje, að allir símarnir verði lagðir í einu. Jeg hygg, að ræða mín hafi ekki getað orðið skilin á þann veg, að nefndin ætlist til, að annaðhvort verði allar línurnar lagðar eða þá engin. Þvert á móti telur nefndin sjálfsagt, að stjórnin hagi þessu eftir því, sem ástæður leyfa, því að það væri mjög ranglátt að láta allar línurnar bíða, ef fje vinst ekki til að leggja þær allar. Stjórnin gæti eitthvað hlutast til um, í hvaða röð línumar verða lagðar, en nefndin telur, að þær línur ættu síst að sitja á hakanum, sem fyrir löngu eru ákveðnar í lögum og efni er fyrir hendi á staðnum.

Þá kem jeg að því atriði, sem, þó að undarlegt megi virðast, hefir helst orðið til þess, að fundið hefir verið að gerðum nefndarinnar. Það eru loftskeytastöðvarnar í Grímsey, Flatey og Húsavík. Mjer þótti skrítið, að háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) skyldi byrja ræðu sína á því að segja, að nefndin hefði gert sjer grikk með þessu. Það var undarlegt hljóð úr því horni, að telja það grikk, að fjvn. vill reisa loftskeytastöð í Grímsey. (StSt: Jeg þakkaði líka fyrir hana). Nefndin leit svo á, að stöðina ætti að reisa fyrir Grímseyinga. En eftir ræðum háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) og annara, hljóta menn að álykta, að stöðin eigi að vera til vegna Siglfirðinga. Þetta getur verið misskilningur hjá nefndinni, en svona leit nefndin á málið frá upphafi og hagaði tillögum sínum eftir því.

Háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) vildi bera brigður á, að þetta væri eftir ósk Grímseyinga, og bar fyrir sig orð þeirra sjálfra, til þess að sanna hið gagnstæða. En hann las ekki annað úr brjefinu en það, sem fjell inn í ræðu hans. Jeg skal því hjálpa honum og lesa upp úr brjefi Grímseyinga, með leyfi hæstv. forseta, hvað þeir vildu helst:

„Eftir grandgæfilegar athuganir höfum vjer komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegra verði, að loftskeytastöð, sem standi í sambandi við Grímseyjarstöðina, verði sett á Siglufirði, þar eð vjer höfum fengið glöggar sannanir fyrir því, að samband þangað verður að mun ódýrara en samband við Húsavík, sem vjer annars hefðum frekar kosið vegna viðskifta vorra ýmissa við þann stað, og viljum því eindregið mælast til þess, að loftskeytastöðin verði sett á Siglufirði í sambandi við Grímseyjarstöðina“.

Þeir lýsa því með öðrum orðum hiklaust yfir, að æskilegast væri fyrir þá að fá samband við Húsavík, en af því að það yrði dýrara, vilja þeir ekki fara fram á það, og kjósa þá heldur samband við Siglufjörð. Fjvn. hefir ekki getað skilið orð Grímseyinga á annan hátt, og telur því of mikið sagt af háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), að það sje eindregin ósk þeirra, að stöðin verði á Siglufirði. Þetta er ekki óeðlilegt, ef stöðina á að reisa fyrir Grímseyinga, því að mest öll viðskifti þeirra eru við Húsavík, og einnig læknisvitjanir, sem hljóta að verða miklum mun hagkvæmari, þegar stöðin er komin upp.

Jeg skal geta þess, að mjer fanst það koma einkennilega fram hjá háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) og háttv. þm. Ísaf. (JAJ), er þeir lýstu því, hve ljelegt og gersamlega ófullnægjandi landssímasamband er við Siglufjörð, og töldu það sönnun fyrir máli sínu. Ef stöðin á að koma Grímseyingum að notum, er það mjög óþægilegt fyrir þá, sje landssambandið milli Siglufjarðar og Húsavíkur ljelegt; mætti þá svo fara, að hún yrði þeim gagnslaus mikinn hluta árs

Þá kem jeg að öðru aðalatriðinu í þessu máli, en það er stöðin í Flatey. Sú stöð þyrfti aðallega að hafa samband við Húsavík. En ef fyrst þarf að sækja til Siglufjarðar og þaðan aftur til Húsavíkur, munu allir sjá, hvílík hemdargjöf það er, eftir því, sem sambandinu við Siglufjörð hefir verið lýst. Jeg vil alls ekki mótmæla því, að það væri gott fyrir sjávarútveginn að hafa loftskeytastöð á Siglufirði, en þessi stöð á aðallega að vera fyrir Grímseyinga. En Flatey er líka ágæt veiðistöð, og liggur þar oft fjöldi skipa, sem hefði mikið gagn af sambandi við Húsavík og landssímann, umfram þarfir Flateyinga sjálfra.

Sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu er eindregið meðmælt því fyrirkomulagi, er nefndin leggur til, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp kafla úr fundargerð hennar:

„Út af þessu lýsir sýslunefndin yfir, að hún er eindregið meðmælt því, sem hreppsnefndin í Húsavíkurhreppi leggur til, að loftskeytastöð verði sett í Grímsey, með millistöð í Flatey og landtökustöð í Húsavík, því augljóst er, að með því skipulagi verður sambandið eyjabúum að langhagkvæmustum notum, bæði að því er snertir viðskifti, læknishjálp og fleira“.

Jeg tel sjálfsagt, að jeg geti ekki farið í fullkomna orðasennu við jafnnákunnugan mann sem háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), en þá geri jeg ráð fyrir, að annar nefndarmaður, háttv. þm. SÞ (IngB), sje jafnkunnugur á þessum slóðum og geti hlaupið í skörðin fyrir mig. Jeg þykist vita, að hann muni geta staðfest orð háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) og hv. þm. Ísaf. (JAJ) um það, hve gagnslítið sambandið milli Siglufjarðar og Húsavíkur er á sumrin.

Áður en jeg hverf frá þessu máli, vil jeg benda háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) á, að frá sjónarmiði fjvn. væri miklu skiljanlegra og aðgengilegra, að hann bæri fram tillögu um sjerstaka stöð á Siglufirði. En þessa afstöðu hans get jeg með engu móti skilið, þar sem jeg efast ekki um, að hann vilji Grímseyingum jafnvel sem Siglfirðingum.

Jeg skal þá aftur snúa máli mínu til hæstv. atvrh. (KIJ). Hann mintist á brtt. um hækkun á launum símamanna, og hygg jeg, að hann hafi þar misskilið orð nefndarinnar. Hann virtist skilja ummæli hennar á þá leið, sem hún furðaði sig á því, að stjórnin hefði lækkað þennan lið frá því, sem landssímastjóri lagði til. En það var ekki þetta, sem nefndinni kom kynlega fyrir heldur hitt, að hæstv. stjórn skyldi ekki hafa reiknað launahæðina rjett út eftir skrá þeirri, er landssímastjóri hafði samið. Hæstv. atvrh. (KIJ) virtist einnig skilja till. nefndarinnar svo, að hún vildi bæta við nýjum starfsmönnum, eftir tillögum landssímastjóra. En þetta er misskilningur. Nefndin hefir einungis miðað við þá menn, sem nú starfa við símann, og þær nýju starfskonur, sem nauðsynlega þarf að bæta við, ef aukning bæjarsímans í Reykjavík verður samþykt. Nefndin rak strax augun í það, þegar hún las skjölin frá landssímastjóra, að þar var gert ráð fyrir mikilli breytingu á starfsmannahaldi við símann, og var hún þegar algerlega mótfallin því. Meðal annars var gert ráð fyrir að stofna nýtt skrifstofu stjóraembætti með 5000 kr. stofnlaunum og bæjarsímastjóraembætti með 3500 kr. stofnlaunum. Og auk þess, sem nefndin var mótfallin því að stofna þessar stöður, telur hún algerlega rangt, að það verði gert með fjárveitingu í fjárlögum, í stað þess að breyta launalögun um í þá átt. Vill nefndin skjóta því til hæstv. stjórnar að hafa gætur á, að yfir menn slíkra stofnana laumi ekki nýjum embættum inn í fjárlögum, heldur sjeu þau stofnuð með því að bera fram brtt. við launalögin, svo að þingmenn samþykki þau vitandi vits.

Þá er brtt. frá hæstv. atvrh. (KlJ), um kaup á húsi við Garðskagavita. (Atvrh KIJ: Jeg hefi tekið hana aftur). Nefndin getur ekki tekið afstöðu til till. að svo komnu, en mun fús á að ræða hana í sambandi við fjáraukalögin, þegar þar koma til umræðu.

Um þær 2 brtt. frá háttv. þm., Dala (BJ), er snerta þennan kafla, læt jeg mjer nægja að lýsa yfir, að meiri hl. fjvn. er þeim mótfallinn.

Ræðu háttv. þm. Borgf. (PO) þarf nefndin mjög litlu að svara. Þrátt fyrir það almenna yfirlit, sem hann gaf, skildist mjer, að hann ætlaði ekki að leggjast á móti till. nefndarinnar um verklegar framkvæmdir. Ræða hans var því óþörf, nema hann hafi talið, að fjvn. hafi farið of langt í þessu efni. Það má vel vera rjett, sem hann tók fram, að margir fleiri liðir en þeir, sem teknir eru upp í fjárlögin, komi til útgjalda á næsta ári, bæði samkv. þingsályktunum, fjáraukalögum o. s. frv. En þetta kemur fyrir á hverju þingi, og þingið hefir jafnan talið gott, hafi það getað skilað fjárlögunum hallalausum, og aldrei gert ráð fyrir sjerstökum upphæðum til þessara útgjalda.

Þá mintist háttv. þm. Borgf. (PO) á borðfje konungs, og háttv. 2. þm. Reykv. (JB) á gengisuppbót á launum sendiherrans í Kaupmannahöfn. Jeg vil leyfa mjer að benda háttv. þm. á, að það mun venja hjá hverju ríki, sem hefir sendimenn í öðrum löndum, að greiða þeim uppbót, ef dýrara er að lifa þar, sem þeir eru, heldur en heima fyrir. Þeir, sem eru þessu kunnugri en jeg, hæstv. ráðherrar, geta borið um, hvort jeg fer ekki rjett með þetta.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) hafði það eftir mjer, að jeg teldi skemtilegt verk að vera í fjvn. Þetta er ekki rjett, en jeg hóf mál mitt á því að segja, að það væri vandaverk og vanþákklátt verk. Hafi háttv. þm. ekki ætlað að segja þetta, get jeg fyrirgefið honum strax, og skal ekki fara lengra út í þá sálma.

Af orðum háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um brtt. hans um hækkun á fjárveitingu til berklaveikisvarna, skildist mjer, að tilgangur hans með brtt. væri annar en jeg hafði búist við. Hann kveðst hafa skýrslur, er sanni, að þessi útgjöld verði miklu meiri en búist var við, og þurfi því að hækka liðinn. Jeg verð þó að halda fast við ósk mína um, að hann taki þessa brtt. aftur að sinni og láti hana ekki koma undir atkvæði fyr en við 3. umr. Ef það er rjett, að upphæðin muni ekki hrökkva, þykist jeg vita, að fjvn. muni vilja stuðla að því, að fjárveitingin sje hækkuð, svo að áætlunin verði sem næst sanni. Og sje þetta satt, verð jeg að furða mig á, að hæstv. stjórn skuli ekki hafa lagt þau plögg fyrir nefndina, er sanni það.

Þá var sami háttv. þm. einkanlega að mæla fyrir brtt. sinni, að ríkissjóður greiddi uppbót á kostnaði við vitabyggingar fyrir austan. Fjvn. hefir haft þetta til meðferðar, og þó að háttv. þm. hafi mælt vel fyrir tillögu sinni, hefir nefndin ekki sannfærst um, að þetta sje rjettmæt krafa. Það var gert að skilyrði, þegar ákveðnir vitar voru reistir þar fyrir austan, að hjeruðin skyldu gera hina smærri á sinn kostnað. Og þó að gerð væri áætlun um, hve mikið þessir vitar mundu kosta, fólst engin skuldbinding í því, að þeir yrðu ekki dýrari fyrir hjeruðin. Það var ákveðið skilyrði, að hjeruðin kostuðu þessa vita að öllu leyti, ella fengju þau ekki stærri vitana, og það getur ekki talist þingsins sök, þó að kostnaðurinn færi fram úr áætlun. Háttv. þm. taldi það meðmæli með till. sinni, að sum hjeruð hefðu ekki enn þá endurgreitt ríkissjóði kostnað við samskonar vitabyggingar. Um það er mjer ekki kunnugt; getur verið, að stjórnin hafi lánað sumum hjeruðum fje, en það er þá aðeins óinnheimt, og af þeirri ástæðu kemur ekki til mála að gefa það upp, og hvort það er öll upphæðin eða lítill hluti hennar, skiftir ekki máli. Ef háttv. þm. finst hann hafa orðið fyrir vonbrigðum eða samningsrofum af hálfu Eimskipafjelagsins, er ekki rjett, að hann snúi sjer til fjvn., heldur til þeirra, sem samningana hafa rofið.

Háttv. 2. þm. N.-M. (BH) þarf jeg fáu að svara. Hann hlóð miklu hóli á nefndina, sem mjög er vert að þakka. Jeg verð að taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að það var síður en svo, að hún hefði nokkra tilhneigingu til að láta þann veg, er háttv. þm. ber svo mjög fyrir brjósti, verða útundan. En eins og jeg gat um, fór nefndin algerlega eftir tillögum vegamálastjóra, og í þeim var þessi vegur ekki nefndur til hækkunar. Nú segir háttv. þm., að vegamálastjóri sje hlyntur þessum vegi, og skal jeg síst rengja það. Nefndin getur þó ekki fallist á þessa brtt. að svo komnu, því að hún sjer sjer ekki fært að fara lengra en tillögur vegamálastjóra, en mæli hann með henni, eru atkvæði nefndarmanna óbundin.

Jeg hygg, að jeg hafi nú tæmt það, sem jeg þarf að svara fyrir nefndarinnar hönd, og vildi jeg óska, að umræðurnar gætu snúist um þau atriði, sem fyrir liggja, og helst ekki mörg önnur.