10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

1. mál, fjárlög 1924

Þorleifur Jónsson:

Við þennan kafla fjárlaganna eru 2 brtt., sem snerta mitt kjördæmi, og þó að fjvn. hafi einróma fallist á þær, og auk þess háttv. frsm. (MP) stutt þær í framsögu sinni, ætla jeg samt að fara um þær nokkrum orðum. Fyrri brtt. er um að hækka tillag til sýsluvega um 5 þús. kr., og er ætlast til, að sú hækkun. þ. e. þessar 5 þús. kr., gangi til vegarins frá Höfn í Hornafirði. Liggur sá vegur um blaut mýrlendi og er nú víða sokkinn niður í mýrina; enda var og sparað til hans í upphafi og var hann víða of lágur. Ofaníburður er enginn í grendinni og verður að fá hann langt að; er því viðhaldið mjög kostnaðarsamt. Þrátt fyrir það, að sýslusjóður hefir árlega nú síðustu árin veitt nálægt 1000 kr. til viðhalds vegarins, hefir það eigi hrokkið til annars en að gera við verstu ófærurnar. Sýslunefndin sjer því eigi annað fært en að reyna að fá lán til endurlagningar vegarins, sem mun kosta um 10 þús. krónur. Því varð það að ráði, að jeg mæltist til að helmingur þessa kostnaðar greiðist úr ríkissjóði, og bar því fram þessa brtt. við fjárlögin; og er það nú með samþykki vegamálastjóra, sem álítur rjettmætt, að hjer sje hlaupið undir bagga. Sýslan er auk þess ekki betur stæð en svo, að henni er nauðsyn að fá styrk til að standast þennan kostnað, og svo er hitt, að í raun og veru ætti þessi vegur fremur að vera flutningabraut en sýsluvegur, þar sem hann liggur frá kauptúni upp á þjóðveginn; er hann í þessu efni t. d. alveg hliðstæður Hvammstangabrautinni í Húnavatnssýslu. Hefði ef til vill verið rjettara að bera fram brtt. þess efnis, að taka þennan veg upp í tölu flutningabrauta, en jeg hefi þó horfið frá því að sinni og læt mjer nægja, ef fæst þessi fjárveiting, sem brtt. fer fram á, gegn auðvitað jafnmiklu framlagi úr sýslusjóði.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, loftskeytastöðinni í Öræfum. Í símalögum frá 1917 er að vísu ákveðið, að sími skuli lagður milli Hornafjarðar og Víkur í Mýrdal. En þar sem búast má við, að langur tími líði áður en öll þessi lína verði lögð sunnan um landið, munu menn verða að sætta sig við loftskeytastöðvar á nauðsynlegustu stöðunum í bili. Nú hefir þegar verið reist stöð á Síðunni; en engu minni nauðsyn er að fá loftskeytastöð í Öræfum, vegna þess, að þetta hjerað er með þeim allraafskektustu á landinu og nær einangrað frá samneyti við öll önnur hjeruð. Þurfi að vitja læknis þaðan, fara t. d. 2 dagleiðir til þess, og svo er um fleira. Þarna er því hin mesta þörf á firðsambandi við næstu hjeruð.

Verslunarviðskifti hafa Öræfingar mest í Vík í Mýrdal og fá vörur fluttar með „Skaftfellingi“. Myndi firðsamband geta greitt mjög fyrir slíkum flutningum, þar sem hægt yrði að síma til Víkur um það, hvenær lægi er við sandana, og með því sætt bestu tækifærunum að koma flutningi á land. Þetta er svo augljóst, að ekki þarf frekari skýringar við.

Ýmislegt fleira má telja því til gildis, að stöð verði reist í Öræfum. Fram undan söndunum eru ágæt fiskimið, og er alkunnugt, hversu togarar eru þar nærgöngulir, skafa þar svo að segja daglega botninn alveg uppi í landsteinum. Ef nú loftskeytastöð væri þarna austur, mundi oft auðveldara að hafa hendur í hári sökudólganna. Þá eru skipströnd alltíð við sandana, og liggur þá í augum uppi, hversu mörgum það gæti orðið til hjálpar, ef hægt væri að koma fregnum um það þegar í stað þangað, sem hjálpar væri að vænta. — Það hefir enn þá ekki verið nefnt, hvar stöðin ætti að vera í Öræfunum. Jeg vil geta þess nú, að jeg hygg hana langbest setta á Fagurhólsmýri. Ari hreppstjóri Hálfdánarson og synir hans bygðu ágæta rafmagnsstöð á síðasta sumri; er afl hennar notað til suðu, ljósa og hitunar á báðum heimilunum á Fagurhólsmýri, en samt er þar nægilegt afl afgangs til framleiðslu raforku þeirrar, sem loftskeytastöðin þarfnast. Mundu því sparast þau útgjöld, sem leiða af því að framleiða raforkuna með olíuvjelum.

Háttv. þm. V.-Sk. (LH) gat um það í gær, að stöðin á Síðunni ætti aðeins að vera til bráðabirgða. Jeg er alveg sömu skoðunar um þetta atriði; það verður að leggja símalínur síðar sunnan um landið, til að bæta hið ófullkomna símasamband milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar eða Austurlands yfir höfuð. Þrátt fyrir það, þó að loftskeytastöðvar sjeu betri en ekkert í þessu tilliti, er talsímasambandið miklu þægilegra heldur en skeytasendingar aðeins, sem eru miklu erfiðari til afnota. Hitt er annað, að ef á að hlíta við loftskeytastöðvar um langan tíma, þá tel jeg nauðsynlegt, að loftskeytastöð verði einnig reist á Austurlandi. Vænti jeg þess, að háttv. deild fallist fúslega á þessar brtt. mínar, ekki síst er fjvn. hefir samþykt þau báðar, og tef jeg svo ekki umræðurnar í þetta sinn með lengri ræðu.