10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það eru nokkrir hv. þingmenn, sem jeg þarf að svara, og get jeg ekki gert að því, þó þeir sjeu ekki allir viðstaddir. Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) virtist ætla að fara að vekja upp aftur eldhúsdagsumræður, er hann fór að tala um kolakaup landsstjórnarinnar. Það mál skýrði jeg á laugardaginn eð var og fer ekki að endurtaka það aftur nú. Hann virtist álíta, að slík kaup til landsins þarfa ættu að ganga gegnum Landsverslunina. Jeg lít svo á það mál, að eftir þingsályktun, sem samþykt var á síðasta þingi, vanti alveg heimild til þess. En geti háttv. þm. (JB) sannfært mig um, að það sje eindreginn vilji þingsins nú, að þannig skuli vera farið að, skal jeg fúslega taka það til greina og hegða mjer samkvæmt því eftirleiðis.

Hv. þm. V.-Sk. (LH) varpaði til mín þeirri spurningu, hvort jeg væri horfinn frá því ráði að strengja síma um Suðurland. Vitanlega hefir mjer aldrei komið það til hugar, enda þarf lagabreytingu til þess að hætta þeirri símalagningu, þar sem hún er lögskipuð. Hitt þykir mjer líklegt, að loftskeytastöðin, sem nú er komin á Kirkjubæjarklaustri, og væntanleg önnur loftskeytastöð í Öræfum, verði til þess að seinka framkvæmdum í því máli. Og með það fyrir augum, að alllangt verði þess að bíða, að símasamband komist á um Skaftafellssýslurnar, finst mjer ekki nema sanngjarnt og rjettlátt, að sýslubúar verði ekki látnir bíða þess miklu lengur, að reist verði hjá þeim önnur loftskeytastöð. En auðvitað má gera ráð fyrir, að sími verði lagður þangað einhvern tíma síðar.

Þá lagði hv. þm. Barð. (HK) þá spurningu fyrir mig, hvort það væri ætlunin, að fylgt verði þeirri röð um símalagningar, sem nefndin gerir ráð fyrir. Jeg býst við, að stjórnin verði að hlíta því. Raunar finst mjer, að 4. liðurinn t. d. ætti að komast ofar. Hitt tel jeg ekki geta komið til mála, að þó fje verði ekki fyrir hendi til allra þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir, að þá verði engin lína lögð. Og þá mun engum blandast hugur um það, að rjett sje að taka fyrst fyrir þann eða þá, sem efstir eru.

Jeg hefi ekki ástæðu til að svara hv. frsm. (MP) mörgu, þar sem enginn verulegur ágreiningur hefir orðið milli mín og fjárveitinganefndar um þann lið, þó hann sje annars sá liður í fjárlögunum, sem helst heyrir undir mig. Háttv. frsm. hjelt því fram, að þó lækka mætti laun einstakra póstafgreiðslumanna, væri ekki hægt að lækka liðinn yfirleitt. Jeg býst við, að ýmsir póstafgreiðslumenn muni krefjast launahækkunar, en geri ekki ráð fyrir, að þær kröfur verði teknar til greina. En þar sem fyrir getur komið, að fjölgað verði póstafgreiðslumönnum, hefi jeg ekkert á móti því, að liðurinn haldist óbreyttur. Hv. frsm. (MP) hjelt því fram, að þessar stöður væru yfirleitt ver launaðar en aðrar sambærilegar stöður, og taldi því til sönnunar, hversu mikil peningaábyrgð hvíldi á póstafgreiðslumönnunum. Þetta er líka satt um suma þeirra, en aðra mætti nefna, sem fullhátt munu vera launaðir, án mikillar peningaábyrgðar. Gæti jeg tilnefnt nokkur dæmi, án þess þó, að jeg vilji draga fram nokkur nöfn. Einn þeirra hefir t. d. 1500 kr. í laun, en þar er póstávísanafjeð um 16000 kr. á ári; annar hefir 800 kr. í laun, með 11000 kr. ábyrgð, og sá þriðji, sem hefir 600 kr. í laun, hefir ekki ábyrgð á einum einasta eyri. Jeg vil ekki tilgreina fleiri, en finst sýnilegt að spara megi nokkuð á þessum liðum. Og þar sem þessir menn hafa sennilega fengið hærra kaup vegna dýrtíðarinnar, er það engin sanngirni gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins, að þeir einir fái halda fullum launum, þar sem aðrir embættismenn fá dýrtíðaruppbótina talsvert lækkaða.

Þá var það loftskeytastöðin í Grímsey. Hún er aðallega bygð fyrir Grímseyinga, og því eðlilegt, að sambandið verði við Húsavík, þar sem þeir hafa mikla verslun og viðskifti við þann kaupstað, en ekki við Siglufjörð. Jeg ætla samt að láta þetta afskiftalaust, þótt mjer dyljist ekki, að skýr rök liggi til þess að hafa stöðina á Húsavík. En landssímastjóri talaði rjett nú við mig í síma og tjáði mjer þá skoðun sína, að óheppilegt eða jafnvel meiningarlaust væri að hafa móttökustöðina í Húsavík. Kostnaðurinn, sem af því leiddi, væri afarmikill, en hins vegar lítill, eða jafnvel enginn, ef stöðin yrði reist á Siglufirði, því þar væri bæði hús og mannafli nógur fyrir hendi. Og ef hún yrði ekki þar, þá var það hans tillaga, að hún yrði sett á Akureyri, því þar væri líka alveg kostnaðarlaust að hafa móttökustöðina og samband þaðan altaf greiðlegt til Húsavíkur og ábyggilegt. Annars væri vafalaust heppilegt, ef fje væri fyrir hendi, að fá fjórðu stöðina á Siglufirði. En fyrst stöðin í Grímsey á að byggjast með hag eyjarskeggja fyrir augum, verður að sjá til þess, að hún komi þeim að gagni.

Þá held jeg, að ekki sje fleira, sem jeg hafi ástæðu til að athuga við ræðu háttv. frsm. (MP), en vildi leyfa mjer, áður en jeg lýk máli mínu, að fara snöggvast út fyrir verksvið mitt og leggja liðsyrði einni brtt. minni hluta fjvn. (BJ). Hann virðist hvort sem er standa þar einn uppi. Þetta, sem mig langaði til að minnast á, var viðvíkjandi útgáfu manntalsins frá 1703. Það er tiltölulega stutt síðan mönnum var alment kunnugt um þetta stórmerkilega heimildarrit. Hafði það um langan aldur verið geymt í leyndarskjalasafninu í Kaupmannahöfn, en er nú lánað hingað upp, og er því sem stendur hjer. Þó er víst, að einstaka eldri sagnfræðingar hafa vitað um það, því þeir hafa ekki ósjaldan vitnað í það, en síðan það var uppgötvað, hafa ættfræðingar og sögumenn sótt mjög að því. Ritið er mjög nákvæm og merkileg skrá yfir alla íbúa landsins 1703. Þeir eru tilgreindir með nafni, aldri, stöðu og heimili. Þar er tilgreindur ómagafjöldi og niðursetninga í hreppum og á heimilum, o. s. frv. Jeg þykist þess fullviss, að hvert einasta land, sem væri svo heppið að eiga slíkt rit sem þetta, fullra tvö hundruð ára gamalt, mundi kosta kapps um að gefa það út. Það er fyrst og fremst hrein gullnáma fyrir ættfræðina, þá fræðigrein, sem hjer hefir orðið þjóðlegust og mest verið stunduð frá fornu fari og heita má, að sje grundvöllurinn undir allri sögu vorri. Þá fær maður af riti þessu nána vitneskju um, hver nöfn hafi verið algengust á landi voru um þetta leyti. Auk þess gefur ritið ljósa hugmynd um efnahag landsins og afkomu á árunum áður en bólan tók að geisa, því bæði eru þurfalingar og niðursetningar tilnefndir, og gefur því glögga hugmynd um sveitarþyngslin þá, og þar að auki víða nákvæmt framtal búfjenaðar manna. Það er því sýnilegt, að handritið er hið ágætasta heimildarrit, ekki aðeins að sögu vorri og ættfræði, heldur einnig fyrir hagfræði vora. Jeg býst ekki við, að þessu riti, með nauðsynlegum skýringum, verði komið út í fljótu bili, en vænti þess þó af háttv. deild, að hún sjái það sóma sinn að byrja á því að veita styrk til útgáfu þessa gagnmerka safns.