10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Háttv. frsm. (MP) óskaði þess, að jeg frestaði til 3. umr. brtt. minni um hækkun framlagsins til berklavarna. Jeg get svarað því, að jeg er ekkert mótfallinn þeim fresti, til þess að nefndinni gefist kostur á að athuga það mál. Býst jeg við því, að hún komist þá að þeirri niðurstöðu, að ekki einu sinni 120000 kr. geti talist fullnægjandi til þessa. Í orðum háttv. frsm. (MP) virtist liggja vefenging á því, að jeg hafi farið eftir sönnum heimildum við áætlun upphæðarinnar, og vil jeg í tilefni af því geta þess, að jeg hefi leitað mjer skýrslna úr sex sýslum, um, hvað mikið fje hafi verið greitt í þessu skyni á næstliðnu ári. Taldist það hafa verið 54000 kr. úr þessum sýslum. Annars vil jeg ekki orðlengja þetta frekar; brtt. er borin fram til að benda háttv. fjvn. á þennan lið, sem er bersýnilega of lágt áætlaður, en það hefir áhrif á tekjuhallann, og því nauðsynlegt að það komi ekki of seint í ljós.

Þá vil jeg fara nokkrum orðum um brtt. mína viðvíkjandi greiðslu úr ríkissjóði á aukakostnaði við byggingu innsiglingarvitanna við Berufjörð. Hv. frsm. lýsti yfir því, að hann teldi ekki sanngirni mæla með henni, og furðar mig þó á því, að nefndin skuli telja það ósanngirni, þar sem það er kunnugt, að á síðasta þingi voru veittar í fjárlögunum 3000 kr. til Vatnsnesvitans í Keflavík. Stóð þó líkt á með hann og vitana austur frá; hvorir tveggja áttu í upphafi að byggjast af hjeruðunum einum, án hjálpar ríkisins. Og þar sem endurgreiddur hefir verið úr ríkissjóði 1/3 kostnaðar við byggingu þess vita, á Vatnsnesi, þá sýnist full sanngirni mæla með því, að byggingarkostnaður Berufjarðarvitanna verði endurgreiddur að 1/6, eins og farið er fram á. Að þessir vitar urðu svo dýrir, stafar eingöngu frá atvikum, sem hjeraðinu voru ósjálfráð og reyndar með öllu óviðkomandi. Mikið af kostnaðinum lá í því, að ekki varð bygt úr sementi, sem flytjast átti frá Danmörku til Berufjarðar fyrir ákveðinn dag, en kom eigi fyr en nokkrum vikum síðar. Varð því að byggja úr sementi, sem varð nær þriðjungi dýrara og fengið frá Reykjavík og ýmsum stöðum eystra. En að vísu kom ódýra sementið síðar og varð að liði við aðrar byggingar ríkisins. Hitt er líka hjeraðinu óviðkomandi, að sett voru upp dýrari ljóstæki í Hrómundareyjarvitann en ráðgert var, þegar hjeraðið tók að sjer kostnaðinn við bygginguna, til að spara rekstrarkostnaðinn. Og þó háttv. frsm. (MP) telji enga sanngirni að endurgreiða nokkurn hluta byggingarkostnaðarins, þá munu flestir aðrir álíta, að full sanngirni mæli með því, að fjárhæðin verði greidd, enda eru fordæmi fyrir slíku, þar sem síðasta þing veitti fje til Keflavíkurvitans, og hafði áður veitt fje að öllu til tveggja annara innsiglingarvita. Ekki þarf heldur að telja þessa fjárveitingu ósanngjarnlega af því, að Suður-Múlasýsla þiggi svo mikið fje úr ríkissjóði til annara hluta eða greiði honum svo lítið í tekjur. Hlutfallið er hjer einmitt öfugt, svo sem jeg áður hefi sýnt. Sýslan er eitt allra tekjuauðugasta lögsagnarumdæmi landsins, en nýtur minna styrks af ríkissjóði til vega og annara framkvæmda en flest önnur hjeruð. Vil jeg þó ekki orðlengja þetta meira, því að allir geta glöggvað sig á því í landsreikningi og fjárlögum.

Að öðru leyti ætla jeg hvorki að lofa nje lasta háttv. fjvn. og hennar verk; veit jeg, að hennar starf hefir verið erfitt nú, ekki síður en áður, og ekki við öðru að búast en skiftar verði skoðanir um hinar einstöku fjárveitingar. En jeg vildi skjóta því til nefndarinnar áður en jeg lýk máli mínu, að fyrst hún leggur svo mikla áherslu á, að auknar verði verklegar framkvæmdir frá því, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, þá virðist rjett að athuga það nákvæmlega, hverjar af þessum verklegu framkvæmdum eru vaxtabærar og miða landinu til þrifa. Svo er nefnilega mál með vexti, að sum þessara fyrirtækja eru ekki aðeins arðlaus og til þæginda fáum mönnum, heldur jafnvel stórbyrði á þjóðinni. Mörg okkar verklegu fyrirtæki eru þannig vaxin, að sýnilegt er, að þjóðin í framtíðinni ræður ekki við að viðhalda þeim. Hlýtur óðum að reka að því, að vita, brýr, vegi, síma og fleiri mannvirki samskonar verði að endurreisa. Jeg man eigi í svip, hvað margar miljónir hafa þegar gengið til símabygginga alls, en hitt veit jeg, að viðhald þeirra hlýtur að verða mjög tilfinnanlegt, þegar fram í sækir. Á tveim næstu áratugum fyrnast og falla flestar þær gömlu stauraraðir, og þá endurtekst allur byggingarreikningurinn. Þess vegna verður það að teljast tvíeggjað sverð að leggja svo mikið kapp á að auka slíkar framkvæmdir. Raunar er það hart og lítt viðunandi, að ríkissjóður skuli vera etinn svo upp árlega af opinberu starfsmannahaldi, skólum, námsstyrkjum og bitlingum, að litlu eða engu fje verður hægt að verja í aðrar þarfir þjóðarinnar. En hæpið er, að á því verði bót ráðin að þessu sinni; nema svo eigi böl að bæta að bíða annað meira, og getur útkoman á fjárlögunum þá orðið sú, að sjeð verði eftir síðar.