10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

1. mál, fjárlög 1924

Sigurður Stefánsson:

Jeg get að mörgu leyti tekið undir þakklæti til háttv. nefndar. Jeg veit, að hún hefir átt í vök að verjast og hefir neyðst til að hækka gjöldin, en þó álít jeg, að hún hafi farið ríflega í það. Jeg vil hjer minnast á eitt atriði, styrk til sjúkrahúss á Ísafirði. Þetta snertir mitt kjördæmi líka, því sjúkrahúsið er líka handbendi Norður-Ísafjarðarsýslu Nefndin hefir tekið til greina ósk Ísfirðinga í þessu efni, og er það síst að lasta, en jeg held, að það sje efasamt, hvort þessi upphæð kemur að tilætluðum notum. Hjer er aðeins um byrjun að ræða, og jeg get tekið undir það með hæstv. forsrh. (SE), að varla sje næg trygging fyrir framhaldinu, þó að við samþykkjum þessa till. Það er víst, að margir okkar heltast úr lestinni, og óvíst er, hvort þing, sem er öðruvísi skipað, lítur eins á þetta mál. Það getur líka verið, að fjárhagurinn verði svo þröngur, að ekki verði fært að halda verkinu áfram.

Jeg skal upplýsa það, að þó að sýslunefndin hafi samþykt að kosta að hálfu þessa byggingu, þá er hún alls ekki vel við því búin að leggja nú þegar út í þennan kostnað, því að nú sem stendur eru fjárhagsástæður sýslufjelagsins svo þröngar, að sýslan þyldi naumast að henni væri bundinn svo stór baggi fjárhagslega.

Jeg skal vitanlega ekki segja um Ísafjarðarkaupstað, hvað hann getur og vill gera í þessu efni, en þó er mjer nær að halda, að fjárhagsástæður hans sjeu ekki svo glæsilegar, að hann þurfi ekki að hugsa sig vel um áður en hann leggur út í svona stórfyrirtæki.

Þá vil jeg geta þess, að nauðsynin á þessari sjúkrahúsbyggingu virðist ekki vera mjög brýn, því að við höfum gamlan spítala, sem bætir allmikið úr bráðustu nauðsyn hjeraðsins og gerir mikið gagn. Er því víst, að hann dugir nú fyrst um sinn, að minsta kosti á meðan við höfum eins duglegan og góðan lækni við hann og nú er.

Þá er eitt atriði, sem hlýtur að vaka fyrir sýslufjelögunum, og það er, að með hverju ári, sein bygging þessi dregst, hlýtur hún að verða ódýrari. Og skal jeg í því sambandi benda á, að fyrst var áætlað, að hún myndi kosta 340 þús. krónur, en nú er áætlað, að hún muni kosta 220 þús. kr. Þarf því engan að iðra, þótt ekki hafi verið lagt út í hana, þegar alt var sem dýrast, þegar kostnaðurinn hefir nú þegar lækkað um 120 þús. kr. Og jeg get vel ímyndað mjer, að lækkunin haldi áfram enn þá. Það er því þessi lækkun, sem mest vakir fyrir mjer, að jeg vil láta doka við með þetta fyrirtæki, og mun engan undra það um mig.

Annars held jeg helst, að þessi fjárveiting yrði ekki notuð nú, eins og sakir standa, þó aldrei nema hún kæmist inn í fjárlögin. Það er alls ekki ætlun mín með þessu að reyna að spilla fyrir þessu máli, en fyrir hönd sýslunefndar Norður-Ísafjarðarsýslu vil jeg geta þess, að jeg býst við, að hún eigi mjög erfitt með að leggja fram fje til þessarar byggingar að svo komnu.