10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

1. mál, fjárlög 1924

Stefán Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð. Sjerstaklega ætla jeg að svara háttv. frsm. nefndarinnar (MP) nokkrum orðum.

Jeg vona, að háttv. deildarmenn hafi tekið eftir því, að þegar jeg mintist á málið í gær, þá byrjaði jeg með því að þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir góðar undirtektir á málinu. Jeg verð að taka það fram um leið, að jeg var samþykkur nefndinni um, að nauðsynlegt væri að reisa líka stöð í Flatey, svo að um þetta þurfti ekki háttv. þm. S.-Þ. (IngB) að fara mörgum orðum. En það verð jeg að vona, að háttv. nefnd fyrirgefi, þótt jeg gæti ekki þakkað henni eða borið sjerstakt lof á hana fyrir að hún setti Húsavík í stað Siglufjarðar, því það er sannarlega að gera málinu mikinn óleik, sje alment á það litið. En þar sem háttv. frsm. (MP) sagði, að jeg hefði lesið of skamt í brjefi Grímseyinga, og kvaðst ætla að hjálpa mjer til með lengri lestri, og gaf þannig í skyn, að jeg færi með blekking eða gæfi rangar upplýsingar um afstöðu Grímseyinga í málinu, þá ætla jeg ekkert að segja um það, hvorum okkar er fremur trúandi til þess að fara með blekkingar eða villandi upplýsingar, en til að sýna, hvort jeg hafi verið að dylja það, að viðskifti Grímseyinga væru að miklu leyti við Húsavík, þá hefi jeg fengið hjá skrifurunum það, sem jeg sagði í gær um þetta mál. Ætla jeg að leyfa mjer að lesa það upp, en það er svo hljóðandi:

„Enn fremur hafa Grímseyingar, eftir nákvæma athugun, látið það álit sitt í ljós, að stöðin yrði betur sett á Siglufirði. Er þeim það þó sjálfum síst í hag, því að þeir hafa miklu meiri viðskifti við Húsavík en Siglufjörð“.

Þegar litið er til þess, á hverju það byggist, að háttv. frsm. (MP) gaf í skyn, að jeg væri að leyna viðskiftum Grímseyinga við Húsavík, þá sjest, að jeg hefi ekki verið að leyna neinu til styrktar því, að stöðin yrði frekar á Siglufirði. Jeg held því, að það, sem jeg sagði um málið, hafi verið í fylsta máta rjett. Háttv. þm. S.Þ. (IngB) mintist líka á, að Siglfirðingar hefðu sent vaskan mann til Grímseyjar til þess að „agitera“ fyrir málinu. Var nokkuð athugavert við það? Jeg held, að háttv. þm. (IngB) megi vera ánægður yfir, að hreyfing komst á málið, því að það verður að miklu leyti því að þakka, verði stöð bygð í Flatey. Það hefði sennilega ekki verið flutt annars á þessu þingi. Annars fann jeg ekki neinar upplýsingar í ræðu háttv. þm., þær er nokkuð væri leggjandi upp úr. Aftur á móti hefir háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) minst á ýmislegt. er verulega snertir þetta mál, en sem mjer að vísu var fyllilega ljóst, og kann jeg honum þakkir fyrir að hafa bent á það.